Spurning

Um hvað snýst umræðan um áhrif ESB-aðildar á sjávarútvegsstefnu Íslands?

Spyrjandi

Hrafn Arnarson

Svar

Umræðan um áhrif Evrópusambandsaðildar á sjávarútvegsstefnu Íslendinga snýst um sjö meginatriði: fullveldisrétt yfir ákvörðunum um veiðiheimildir, möguleg frávik Íslendinga frá sjávarútvegsstefnu ESB, fullt forræði yfir fiskimiðum Íslands, kvótahopp, ríkisstyrki, og ákvarðanatöku og stefnumótun á sviði sjávarútvegsmála innan ESB.

***

Í fyrsta lagi gagnrýna sumir að ákvarðanir um veiðiheimildir myndu færast til Brussel og í því felist framsal á valdi sem íslenska ríkið hefur núna. Því er haldið fram á móti að þetta sé eingöngu formsatriði vegna reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika og sögulega veiðireynslu. Með hlutfallslegum stöðugleika er átt við þá meginreglu í sjávarútvegsstefnu ESB frá árinu 1983 að hlutdeild hvers aðildarríkis í hverri sameiginlegri fiskveiðiheimild skuli haldast stöðug, og er þá miðað við sögulega veiðireynslu. Það vísar til veiðireynslu á tilteknu tímabili sem báðir samningsaðilar í aðildarviðræðunum koma sér saman um og þykir sýna eðlilega mynd af veiðum á viðkomandi stofnum. Samkvæmt þessu mati mundu Íslendingar halda óbreyttum veiðirétti á fiskistofnum á Íslandsmiðum. Staðbundnir stofnar eru um 70-80% af aflaverðmæti okkar. Þar hefur hlutdeild okkar verið 100% og ætti að verða það áfram. Gagnvart flökkustofnum eða deilistofnum ætti hlutfall okkar líka að haldast óbreytt. Þó þyrfti væntanlega að semja sérstaklega um makrílinn þar sem veiðireynsla Íslendinga er ný af nálinni.

Í öðru lagi er því haldið fram að hægt sé að semja um frávik frá meginstefnu ESB sem tækju tillit til sérhagsmuna Íslands þannig að áhrif aðildar á íslenska sjávarútvegsstefnu yrðu óveruleg. Aðrir telja slík frávik nær ófáanleg og halda því fram að ekkert aðildarríki ESB hafi fengið varanlegar undanþágur eða frávik frá sáttmálum sambandsins. (Sjá nánar um undanþágur og sérlausnir í svari við spurningunni Hver er munurinn á varanlegum undanþágum og sérlausnum í samningaviðræðum við ESB, í lagalegum skilningi?)Í þriðja lagi ber fullt forræði yfir fiskimiðunum oft á góma og er þá rætt um veiðiréttindi og aflahlutdeild, aðgang að fiskveiðilögsögunni, ákvörðun um hámarksafla, flökkustofna og erlendar fjárfestingar. Sumir segja aðild óhugsandi nema farið verði að öllum kröfum Íslendinga í þessum efnum, enda sé um grundvallarhagsmuni landsins að ræða. Aðrir trúa því að hægt sé að semja um þessa hluti í aðildarviðræðunum þannig að Íslendingar geti vel við unað, enda hafi fulltrúar ESB nú þegar staðfest að sambandið geri sér grein fyrir sérstöðu Íslendinga í málaflokknum og að ólíklegt sé að ESB myndi ganga gegn grundvallarhagsmunum einnar þjóðar. Eins og endranær getur tíminn einn leitt í ljós hvernig þetta endar.

Í fjórða lagi er möguleikinn á svokölluðu kvótahoppi gagnrýndur í tengslum við fiskveiðistjórnunarkerfi ESB. Kvótahopp felst í því að útgerðarmenn eins aðildarríkis skrá skip sín í öðru aðildarríki í þeim tilgangi að öðlast hlutdeild í landskvóta þess ríkis, en landa svo aflanum í heimalandi sínu. Þannig má segja að tengslin á milli landskvóta og hagsmuna viðkomandi þjóðar séu rofin. Þeir sem telja kvótahopp ekki vera vandamál benda á að gerðar hafi verið ráðstafanir í þeim ríkjum sem hafa talið sig verða fyrir því. Aðildarríki geti til dæmis sett lög um efnahagsleg tengsl fiskiskipa, sem veiða úr kvótum aðildarríkisins, við landið sjálft.

Í fimmta lagi snýst umræðan um ríkisstyrki. Íslenskur sjávarútvegur fær nær enga ríkisstyrki en útgerðir í ESB þiggja háa styrki frá sambandinu sjálfu og fá þar að auki mótframlög frá aðildarríkjunum. Sumir sjá þetta sem regingalla á kerfinu enda hafi enginn raunverulegur hagnaður verið af sjávarútvegi innan ESB í áratugi. Greinin treysti á styrki til rekstrar og sé fjarri því að vera arðbær. Aðrir sjá hins vegar möguleika fyrir íslensk sjávarpláss, sem gætu fengið styrki til uppbyggingar á atvinnustarfsemi í kringum sjávarútveg.

Sjötta atriðið sem oft er nefnt er að hagsmunir stóru fiskveiðiþjóðanna í ESB séu ráðandi í allri ákvarðanatöku og stefnumótun. Aðrir vilja hins vegar meina að öll aðildarríki hafi rödd og að hlutfallsleg stærð íslensks sjávarútvegs, þar sem Ísland yrði með umsvifamestu fiskveiðiþjóðum ESB, yrði til þess að Íslendingar hefðu mikil áhrif á sjávarútvegsmál í sambandinu; slíkt sé jafnvel í samræmi við hefðir sambandsins þegar svo stendur á.

Að lokum hefur brottkast afla oft verið nefnt sem stór galli á fiskveiðistjórnunarkerfi ESB en brottkast er bannað á Íslandi. Á hinn bóginn er sagt að þetta standi til bóta og allar líkur séu á að brottkast verði einnig bannað innan ESB á allra næstu árum. Þegar þetta er skrifað í júlílok 2011 er einmitt verið að ræða tillögur frá framkvæmdastjórn sambandsins um slíkt bann, samanber tengda svarið um endurskoðun á stefnu ESB.

Þegar fjallað er um möguleg áhrif ESB-aðildar á íslenska sjávarútvegsstefnu er nauðsynlegt að hafa þessa þætti í huga ásamt því hversu umdeildir þeir eru. Ekki er víst fyrr en aðildarsamningur liggur á borðinu hver málalok verða. Þá er líka ljóst að verið er að gera verulegar breytingar á sjávarútvegsstefnu bæði hér á landi og í Evrópusambandinu og erfitt að segja til um hvaða áhrif stefna sem er í endurskoðun muni hafa á aðra stefnu sem er líka í endurskoðun. Sjá nánari umfjöllun í svörum við spurningunum Um hvað snýst endurskoðun á fiskveiðistefnu ESB? og Hver eru markmið Íslands á sviði sjávarútvegsmála í aðildarviðræðum við ESB?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.7.2011

Tilvísun

Jóna Sólveig Elínardóttir. „Um hvað snýst umræðan um áhrif ESB-aðildar á sjávarútvegsstefnu Íslands?“. Evrópuvefurinn 29.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60373. (Skoðað 20.5.2024).

Höfundur

Jóna Sólveig Elínardóttiralþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela