Spurning

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika (e. principle of relative stability) er ein af grundvallarreglum sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB (e. Common Fisheries Policy). Henni er beitt við útdeilingu veiðiheimilda til aðildarríkja eftir að ákvarðanir um leyfilegan heildarafla hafa verið teknar í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðinu.

Reglan byggist á því að hvert ríki fái úthlutað sama hlutfalli í leyfilegum heildarafla frá ári til árs. Hlutfall hvers ríkis grundvallast á veiðireynslu þess á tilteknum stofni eða miðum. Í reglunni er jafnframt tekið tillit til þeirra svæða sem eru sérstaklega háð fiskveiðum. Þegar reglan tók fyrst gildi árið 1983 nr. 170/1983 var litið til þeirrar veiðireynslu sem fiskiskip aðildarríkjanna höfðu aflað sér á árunum 1973-1978. Þegar ný aðildarríki hafa gengið í sambandið hefur verið litið til veiðireynslu þeirra árin fyrir inngönguna í sambandið.

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika á sér nú stoð í reglugerð nr. 2371/2002. Með samþykki aukins meirihluta í ráðinu væri hægt að víkja frá reglunni við úthlutun aflaheimilda hverju sinni og breyta henni varanlega. Við reglulega endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB sætir reglan sömuleiðis endurskoðun. Hingað til hefur ekki verið pólitískur vilji fyrir breytingum á reglunni og hefur því ekki verið hróflað við henni.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.3.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Reglan um hlutfallslegan stöðugleika“. Evrópuvefurinn 30.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62250. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela