Spurning

Hvernig virkar aðildarferlið ef Ísland mundi ganga í ESB?

Spyrjandi

Sigurður Steinar Valdimarsson

Svar

Samningur um aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi þurfa samþykki ráðherraráðs Evrópusambandsins, Evrópuþingsins, þjóðþinga allra aðildarríkja Evrópusambandsins og Alþingis Íslands áður en hann öðlaðist gildi. Staðfestingarferlið af Íslands hálfu yrði væntanlega framkvæmt þannig að fullmótaður aðildarsamningur yrði borinn undir íslensku þjóðina í atkvæðagreiðslu að lokinni kynningu og umræðu. Synji þjóðin aðildarsamningnum mundi Alþingi ekki aðhafast frekar í málinu. Samþykkti þjóðin aðildarsamninginn mundi Alþingi hins vegar ráðast í þær breytingar á stjórnarskránni, lögum og stofnunum sem aðild að Evrópusambandinu krefst. Ferlið tæki vart skemmri tíma en eitt ár og að öllum líkindum meira en það.

***

Ekki er hægt að segja með fullri vissu hver röð atburða verður ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur. Samkvæmt meirihlutaáliti utanríkismálanefndar verður aðildarsamningurinn undirritaður þegar samningaviðræðunum lýkur og fengi Ísland þá stöðu verðandi aðildarríkis. Undirritunin hefði þó þann fyrirvara að Alþingi þarf að samþykkja samninginn áður en hann tekur gildi. Þá er samningurinn sömuleiðis ekki bindandi fyrr en ráðherraráð Evrópusambandsins hefur samþykkt hann einróma og Evrópuþingið með stuðningi meirihluta allra þingmanna. Þar að auki þurfa öll aðildarríki sambandsins að fullgilda aðildarsamninginn á þjóðþingum sínum.


Engin samræmd framkvæmd er á staðfestingarferli aðildarsamnings í þeim ríkjum sem gengið hafa í Evrópusambandið. Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar segir að staðfestingarferlið af Íslands hálfu yrði framkvæmt á þann veg að fullmótaður aðildarsamningur yrði borinn undir íslensku þjóðina í atkvæðagreiðslu að lokinni kynningu og umræðu. Deilt hefur verið um framkvæmd slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu einkum hvort hún yrði leiðbeinandi eða bindandi, en bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki heimilar samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Ítarlegri umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning Íslands og ESB er að finna í svari við spurningunni Verða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um væntanlegan aðildarsamning Íslands að ESB ekki örugglega bindandi?

Ef þjóðin mundi hafna aðildarsamningi í þjóðaratkvæðagreiðslu mundi Alþingi ekki aðhafast frekar í málinu. Yrði hann samþykktur mundi utanríkisráðherra leggja fram þingsályktunartillögu um staðfestingu aðildarsamningsins sem væntanlega yrði samþykkt á Alþingi, með fyrirvara um nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar. Því næst mundi Alþingi ráðast í breytingar á stjórnarskránni og undirbúa þær með þingrofi og kosningum í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Samþykki nýkjörið Alþingi einnig ályktunina um stjórnarskrárbreytingar skal hún staðfest af forseta Íslands til að hún taki gildi sem stjórnskipunarlög. Í áliti utanríkismálanefndar kemur fram að enginn ágreiningur sé um að aðild Íslands að ESB mundi krefjast stjórnarskrárbreytinga, þar sem heimild vanti til að Alþingi megi framselja hluta ríkisvaldsins til alþjóðastofnana eins og Evrópusambandsins. Ætla má að nýtt ákvæði stjórnarskrárinnar yrði almennt orðað og þess eðlis að það næði ekki eingöngu yfir valdaframsal til ESB heldur einnig til annarra alþjóðastofnana. Slík ákvæði eru algeng í stjórnarskrám Evrópuríkja til dæmis Þýskalands, Danmerkur og Ítalíu. Þá mundi nýtt ákvæði stjórnarskrárinnar mæla fyrir um skilyrðin fyrir slíku framsali ríkisvalds, til dæmis kröfur um samþykki aukins meirihluta þingmanna eða jafnvel samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Auk nauðsynlegra stjórnarskrárbreytinga mundi Alþingi einnig þurfa að ráðast í lagabreytingar og breytingar á stofnunum, sem aðild að Evrópusambandinu krefst. Tiltölulega snemma í samningaviðræðunum komust Ísland og ESB að samkomulagi um að Ísland mundi ekki framkvæma slíkar breytingar, eða aðlögun, fyrr en að afstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess í stað hafa íslensk stjórnvöld skilað tímasettum áætlunum um það með hvaða hætti tiltekin löggjöf verði innleidd og stofnanir aðlagaðar að kröfum Evrópusambandsins, komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Staðfestingarferli Íslands mundi ljúka þannig að forseti Íslands staðfesti aðildarsamninginn að tillögu utanríkisráðherra. Þá tilkynnir utanríkiráðuneytið Evrópusambandinu formlega um staðfestingu samningsins og hann öðlast gildi samkvæmt ákvæðum hans. Ísland yrði síðan aðildarríki Evrópusambandsins á sérstakri aðildarráðstefnu.

Ofangreint ferli tekur vart skemmri tíma en eitt ár og að öllum líkindum meira en það. Í Króatíu, sem er nýjasta aðildarríki Evrópusambandsins, var aðildarsamningurinn samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu í janúar 2012 og í framhaldinu staðfesti þingið samninginn í mars sama ár. Króatía fékk þó ekki formlega aðild að sambandinu fyrr en 1. júlí 2013 og það án nokkurs samkomulags um að fresta aðlögun fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu. Í tilviki Íslands gæti því liðið enn lengri tími frá staðfestingu til formlegrar aðildar en í Króatíu.

Þetta svar var uppfært 4. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur10.5.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvernig virkar aðildarferlið ef Ísland mundi ganga í ESB?“. Evrópuvefurinn 10.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63675. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Frekara lesefni á Evrópuvefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela