Spurning

Er einhverjum fulltrúa í samninganefnd Íslands gert að huga sérstaklega að réttindum minnihlutahópa?

Spyrjandi

Margrét Gígja Þórðardóttir

Svar

Nei, engum fulltrúa í samninganefnd Íslands er gert að huga sérstaklega að réttindum minnihlutahópa. Samkvæmt erindisbréfi eiga þeir hins vegar að "gæta að hagsmunum þjóðarinnar í hvívetna". Í samninganefndinni eiga sæti formenn allra samningahópanna tíu ásamt aðalsamningamanni og sjö nefndarmönnum til viðbótar. Réttindi minnihlutahópa heyra undir samningskafla 19 um félags- og vinnumál sem er á könnu samningahópsins EES II. Formaður hópsins og fulltrúi í samninganefnd er Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri útflutningsþjónustu utanríkisráðuneytisins.

***

Fulltrúar í samninganefnd Íslands um aðildarviðræður við Evrópusambandið voru skipaðir sameiginlega með erindisbréfi hinn 4. nóvember 2009. Samkvæmt bréfinu er hlutverk nefndarinnar að vera aðalsamningamanni til ráðgjafar og stuðnings í samningaviðræðunum. Fulltrúum í nefndinni er ekki falið að gæta sérstaklega að rétti tiltekinna hópa en í starfi sínu eiga þeir að leggja þau sjónarmið til grundvallar sem koma fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu „og gæta hagsmuna þjóðarinnar í hvívetna“.


Fulltrúar í samninganefnd Íslands um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Í samninganefndinni eiga sæti formenn allra samningahópanna tíu ásamt aðalsamningamanni og sjö öðrum nefndarmönnum. Samningskafli 19 um félags- og vinnumál, sem reglur um réttindi minnihlutahópa, jafnrétti og bann við mismunun heyra undir, tilheyrir samningahópnum EES II ásamt tólf öðrum köflum. Samkvæmt erindisbréfi samningahópsins skal hann í starfi sínu gæta hagsmuna Íslands í hvívetna og leggja þau sjónarmið sem koma fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar til grundvallar. Hópurinn er skipaður embættismönnum, öðrum starfsmönnum ríkisins og fulltrúum hagsmunaaðila sem taka almennan þátt í starfi hópsins en eiga þó ekki beina aðild að sjálfum samningaviðræðunum.

Formaður samningahópsins var upphaflega skipuð Anna Jóhannsdóttir, ráðgjafi í utanríkismálum í forsætisráðuneytinu, en auk hennar eiga fulltrúar frá eftirtöldum ráðuneytum og stofnunum sæti í hópnum:
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,
  • innanríkisráðuneyti,
  • velferðarráðuneyti,
  • fjármála- og efnahagsráðuneyti,
  • mennta- og menningarmálaráðuneyti,
  • umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • utanríkisráðuneyti,
  • Fjármálaeftirliti,
  • Náttúrufræðistofnun Íslands,
  • Skógrækt ríkisins,
  • Landgræðslu ríkisins,
  • Neytendastofu,
  • Umhverfisstofnun,
  • Alþýðusambandi Íslands,
  • Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja,
  • Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
  • Neytendasamtökunum og
  • Samtökum atvinnulífsins.

Samningahópur EES II var sameinaður samningahópi EES I í október 2012 og tók Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri útflutningsþjónustu utanríkisráðuneytisins, við sem formaður.

Kafli 19 var opnaður á ríkjaráðstefnu 22. júní 2012 og hefur honum ekki verið lokað. Hann er einn af fjórtán samningsköflum þar sem opinber samningsafstaða Íslands inniheldur engin markmið um sérlausnir, undanþágur eða aðlögunartímabil en efni kaflans er að hluta til á samningssviði EES-samningsins og hefur að því leyti þegar verið innleitt í íslensk lög.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 8.2.2013

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er einhverjum fulltrúa í samninganefnd Íslands gert að huga sérstaklega að réttindum minnihlutahópa?“. Evrópuvefurinn 8.2.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64012. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela