Spurning

Hverjir ákveða samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið?

Spyrjandi

Jón Lorange

Svar

Í desember 2009 skipaði utanríkisráðherra tíu samningahópa til að annast undirbúning aðildarviðræðna við ESB á einstökum samningssviðum. Í hverjum hópi er formaður og auk hans fulltrúar ráðuneyta og stofnana, hagsmunaaðila, félagasamtaka og háskólasamfélagsins, alls yfir 200 manns í þessum 10 hópum. Hlutverk hópanna felst einkum í að fara yfir regluverk Íslands og ESB (rýnivinna, e. screening process), undirbúa tillögur um samningsafstöðu Íslands, ræða við ESB um samningsafstöðuna og móta hana nánar eftir því sem viðræðunum vindur fram.

Í samninganefnd Íslands eiga sæti allir formenn samningahópanna tíu, Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands, sem stýrir nefndinni, auk sjö annarra nefndarmanna. Nefndin hefur það hlutverk að vera aðalsamningamanni til ráðgjafar og stuðnings í samningaviðræðunum. Henni er ætlað að fjalla um samningsafstöðu Íslands í viðræðunum á grundvelli tillagna samningahópanna og hún á jafnframt að vera upplýsinga- og samráðsvettvangur formanna einstakra samningahópa.Frá fyrsta fundi samninganefndar Íslands í Þjóðmenningarhúsinu 11. nóvember 2009.

Samkvæmt áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis, með þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórn Íslands að sækja um aðild að Evrópusambandinu, er fyrirhugað að endanlegar ákvarðanir í málefnum sem tengjast aðildarviðræðum verði í höndum ríkisstjórnarinnar. Í því felst að allar ákvarðanir um samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum skulu samþykktar í ríkisstjórn að loknu samráðsferli en stjórnskipuleg ábyrgð á viðræðunum liggjur hjá utanríkisráðherra.

Um hlutverk Alþingis í samráðsferlinu segir í nefndarálitinu að tryggja verði að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili, enda sé það á endanum hlutverk Alþingis að fjalla um aðildarsamninginn. Í samræmi við álitið skipaði utanríkismálanefnd sérstakan starfshóp um Evrópumál í júlí 2009. Starfshópnum, sem skipaður er einum fulltrúa hvers stjórnmálaflokks, er ætlað að funda reglubundið með utanríkisráðherra og samninganefnd Íslands auk þess sem honum er ætlað að sitja í samráðshópi ríkisstjórnarinnar og hagsmunaaðila.

Um nauðsyn þess að slíkur samráðshópur verði til ráðgjafar í ferlinu er einnig fjallað í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar og ráð gert fyrir að samninganefnd muni halda reglulega fundi með samráðshópnum, upplýsa hann um stöðu mála í viðræðunum og leggja fyrir hann framkomnar tillögur um samningsafstöðu Íslands. Samráðshópnum er ætlað að tryggja virka þátttöku hagsmunaaðila í viðræðuferlinu og mótun á afstöðu Íslands á hverjum tíma. Samkvæmt tiltækum heimildum er ekki að sjá að slíkur samráðshópur hafi enn verið skipaður þegar þetta er skrifað í júnílok 2011.

Upphafleg spurning var sem hér segir:
Hver eða hverjir ákveða samningsafstöðu eða samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.6.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hverjir ákveða samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið?“. Evrópuvefurinn 28.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60088. (Skoðað 19.6.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela