Spurning

Um hvað er samið í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Svarið við því um hvað er samið í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið er að finna í opinberum samningsafstöðum aðalsamninganefndar í samningsköflunum 33. Til grundvallar viðræðunum liggja réttarreglur Evrópusambandsins og að meginreglu þarf sérhvert umsóknarríki að innleiða þær í heild sinni. Það sem þarf að semja um sérstaklega eru hvers konar óskir umsóknarríkis um undanþágur, sérlausnir eða tímabil til aðlögunar. Ef umsóknarríki á hinn bóginn samþykkir reglur sambandsins eins og þær eru og skuldbindur sig til að innleiða þær í sín landslög er ljóst að ekkert þarf að semja um.

Á Evrópuvefnum verður á næstunni fjallað um samningsmarkmið Íslands í þeim köflum þar sem opinber afstaða Íslands hefur verið birt. Umfjöllunin þjónar ekki síst þeim tilgangi að auðvelda lesendum að fá yfirsýn yfir það sem raunverulega er tekist á um í aðildarviðræðunum en samningsmarkmiðin munu jafnframt verða mikilvægur mælikvarði á árangur viðræðnanna þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir.

***

Grundvöllur aðildarviðræðna milli Evrópusambandsins og ríkja sem sótt hafa um aðild að sambandinu eru réttarreglur sambandsins (fr. acquis communautaire) jafnt frumlöggjöf, svo sem sáttmálinn um Evrópusambandið og sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins sem og aðildarsamningar annarra ríkja, og afleidd löggjöf, það eru tilskipanir, reglugerðir, ákvarðanir og þess háttar. Að meginreglu þarf sérhvert ríki, sem vill verða aðili að ESB, að innleiða sameiginlegt regluverk ESB í heild sinni í eigin löggjöf og skulu skilmálar aðildar og sú aðlögun að sáttmálum ESB sem fylgir aðild byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins (49. gr. sáttmálans um Evrópusambandið).Frá fyrsta fundi samninganefndar Íslands í Þjóðmenningarhúsinu 11. nóvember 2009.

Til að sem mest lagalegt samræmi ríki innan sambandsins er Evrópusambandið ekki örlátt á undanþágur frá réttarreglum sínum í aðildarsamningum. Í viðræðunum leggur sambandið fyrst og fremst áherslu á að umsóknarríki sé sem best í stakk búið til að standa undir skuldbindingum aðildar þegar til hennar kemur. Í því getur falist að samið sé um sérstaka aðlögun að tilteknum reglum, tímabundnar undanþágur eða sérlausnir. Sambandið getur þó einnig krafist þess að umsóknarríki komi til móts við tiltekin viðmið eða skilyrði, sem geta falið í sér aðlögun að regluverki sambandsins, á meðan á viðræðutímabilinu sjálfu stendur. Af hálfu umsóknarríkis snúa samningsmarkmið hins vegar fyrst og fremst að því að fá að njóta ákveðins sveigjanleika við að taka upp lög og stefnumið ESB.

Eftir að svokallaðri rýnivinnu er lokið, og fyrir liggur hversu mikið samræmi eða ósamræmi er á milli laga og reglna umsóknarríkis og réttarreglna Evrópusambandsins, hefjast hinar eiginlegu samningaviðræður. Þær felast í því að umsóknarríkið leggur fram samningsafstöðu sína, í hverjum hinna 33 samningskafla, og aðilar skiptast síðan á samningsafstöðum þar til sameiginleg niðurstaða hefur náðst og loka má viðræðum um löggjöf ESB með formlegum hætti.

Það er ekki fyrr en samningsafstaða umsóknarríkis liggur fyrir að raunverulega er hægt að svara því um hvað er samið í aðildarviðræðunum. Fari ríki ekki fram á neina aðlögun, undanþágu eða sérlausn í tilteknum samningskafla heldur samþykkir reglur Evrópusambandsins eins og þær eru er ljóst að ekki þarf að semja um neitt á því sviði.

Á næstunni verður fjallað ítarlega um samningsafstöðu Íslands í einstökum samningsköflum í svörum á Evrópuvefnum. Þar með ætti að verða til nokkuð góð mynd af því sem viðræðurnar snúast um og svarið við spurningunni um hvað er samið í aðildarviðræðunum að skýrast. Úttektina á samningsmarkmiðunum verður síðan hægt að nota sem mælikvarða á árangur viðræðnanna þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir.

Hér að neðan verða settir tenglar í svörin eftir því sem þau birtast á vefnum:

Mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela