Spurning

Þurfum við að taka upp sumartíma ef við göngum í Evrópusambandið?

Spyrjandi

Þórmar Árnason

Svar

Öll aðildarríki Evrópusambandsins eru skyldug til að flýta klukkunni um klukkutíma á tímabilinu frá síðasta sunnudegi í mars til síðasta sunnudags í október. Með aðild að ESB yrði Ísland einnig að hafa sama háttinn á nema ef samningar næðust um annað. Tilskipunin sem kveður á um innleiðingu sumartíma var tekin upp í EES-samninginn árið 2001 og samdi Ísland þá um sérstaka undanþágu frá henni. Líklegt er að samninganefnd Íslands muni sækjast eftir áframhaldandi undanþágu frá tilskipuninni í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið.

***

Í þessu svari vísar hugtakið sumartími ekki til einhvers ákveðins tíma heldur aðeins til tímans eins og hann er reiknaður á sumrin, til dæmis þegar klukku hefur verið flýtt. Í ríkjum Evrópusambandsins er ekki samræmdur tími enda ná þau yfir fleiri en eitt tímabelti. Notkun á hugtakinu sumartími felur ekki í sér neina afstöðu til þess hvaða staðaltími ætti að gilda á Íslandi ef hér yrði tekinn upp sumartími.


Bláu löndin á þessu heimskorti nota sumartíma. Eins og sjá má eru það fyrst og fremst ríki í Evrópu og Norður-Ameríku. Einungis örfá lönd í öðrum heimshlutum fylgja þeirri reglu.

Árið 1980 tók gildi fyrsta tilskipunin um samræmingu sumartíma (nr. 80/737/EEC) í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hún kvað á um þær dagsetningar að vori, árin 1981 og 1982, sem marka skyldu upphaf sumartíma. Aðildarríkin höfðu þá þegar öll þann sið að flýta klukkunni um 60 mínútur yfir sumarið en gerðu það á ólíkum tímum. Samkvæmt annarri tilskipun um skipulag sumartíma (nr. 82/399/EEC) skyldi sumartími hefjast síðasta sunnudag marsmánaðar í öllum aðildarríkjum sambandsins. Lokadagur sumartíma var hins vegar annar í ríkjum sem eru á Greenwich-tíma (e. Greenwich Mean Time), Bretlandi og Írlandi en í öðrum aðildarríkjum. Í áttundu tilskipuninni um skipulag sumartíma (nr. 97/44/EC), sem tók gildi árið 1997, náðist í fyrsta sinn samkomulag um eitt samræmt tímabil sumartíma, með sama upphaf og endi, í öllum aðildarríkjum ESB.

Í núgildandi tilskipun um skipulag sumartíma (nr. 2000/84/EC) er hann skilgreindur frá síðasta sunnudegi marsmánaðar til síðasta sunnudags októbermánaðar. Þessi tilskipun var tekin upp í viðauka VIII við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar (nr. 95/2001) árið 2001. Tilskipunin er því einnig til í íslenskri þýðingu. Eins og fram kemur í fyrstu grein ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar gildir tilskipunin þó ekki um Ísland.

Í desember 2011 lagði breski Evrópuþingmaðurinn Syed Kamall fram skriflega fyrirspurn til framkvæmdastjórnarinnar varðandi reglur ESB um skipulag sumartíma og áhrif þeirra á Ísland ef það gengi í sambandið. Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, Siim Kallas, svaraði fyrirspurninni á þá leið að tilskipunin um skipulag sumartíma væri bindandi fyrir öll aðildarríki ESB. Með inngöngu í sambandið yrði Ísland því skuldbundið til að taka upp sumartíma, í samræmi við reglur ESB, nema ef samið yrði um undanþágu frá reglunni í aðildarsamningi.

Tilskipun ESB um skipulag sumartíma kveður skýrt á um að tímabil sumartíma, frá síðasta sunnudegi í mars til síðasta sunnudags í október, sé sá tími ársins "þegar klukkunni er flýtt um 60 mínútur miðað við annan tíma ársins". Það væri hins vegar undir Íslendingum komið hvort þeir kysu að breyta staðaltíma sínum. Fram til ársins 1968 var staðaltími á Íslandi einni klukkustund á eftir miðtíma Greenwich og sumartími því miðtími Greenwich óbreyttur. Með lögum (nr. 6/1968) sem gengu í gildi það ár var ákveðið að hvarvetna á Íslandi skyldi telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich. Í vissum skilningi má því segja að hér hafi gilt sumartími síðan þá.

Að óbreyttum núgildandi staðaltíma (GMT) hefði innleiðing tilskipunar ESB því í för með sér að hér yrði tekinn upp "sumartími á sumartíma ofan". Tímamismunur við meginland Evrópu yrði þá einn klukkutími allt árið um kring. Á árunum 1995 til 2001 var fjórum sinnum lagt fram frumvarp þessa efnis á Alþingi en í ekkert skiptið náði málið fram að ganga. Ef af einhverjum ástæðum næðist ekki að semja um undanþágu frá tilskipun ESB um sumartíma þyrfti að breyta staðaltímanum á Íslandi þannig að hann yrði aftur einni klukkustund á eftir miðtíma Greenwich (GMT -1) til að hafa aðeins "einfaldan sumartíma" á sumrin. Tveggja tíma munur yrði þá allt árið milli Íslands og meginlands Evrópu.

Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarviðræður við Evrópusambandið er núverandi undanþága Íslands frá tilskipuninni um skipulag sumartíma, á grundvelli EES-samningsins, talin upp á meðal þeirra atriða sem líta beri til „sem fordæmis um hvernig mætti semja að nýju um þessi mál í aðildarviðræðum við ESB“. Formleg samningsafstaða Íslands í kaflanum um flutningastarfsemi, sem tilskipunin um skipulag sumartíma fellur undir, hefur þó ekki verið birt.

Ísland skipti síðast á milli sumar- og vetrartíma árið 1968 en þá hafði þeirri reglu verið fylgt að flýta klukkunni um eina klukkustund að vori og seinka henni aftur að hausti í um þrjá áratugi. Um þetta má lesa nánar í svari við spurningunni Hvenær var hætt að skipta á milli sumar- og vetrartíma á Íslandi?

Íslendingar voru alls ekki einir um það að geta ekki ákveðið í eitt skipti fyrir öll hvort breyta ætti klukkunni tvisvar á ári eða ekki, því sömu sögu var að segja frá ýmsum öðrum Evrópuríkjum. Til dæmis skiptu frændur okkar Norðmenn fjórum sinnum um skoðun í þessu efni á tuttugustu öldinni, voru með sumartíma á árunum 1916-1920, 1940-1945 og 1959-1965 og síðan allar götur frá árinu 1980.

Eftir því sem næst verður komist var Ísland hins vegar eina ríki álfunnar með sama tíma sumar og vetur frá því snemma á 9. áratug síðustu aldar og þar til árið 2011. Vorið 2011 var klukkunni flýtt í síðasta skipti (í bili að minnsta kosti - ekkert virðist varanlegt í þessum málum) bæði í Rússlandi og Hvíta Rússlandi þar sem ákveðið var að ekki yrði skipt yfir í vetrartíma að hausti. Úkraína ætlaði einnig að hætta að breyta klukkunni eftir að skipt var yfir í sumartíma vorið 2011. Hins vegar var sú ákvörðun afturkölluð strax um haustið og skipt yfir í vetrartíma síðust helgina í október eins og í langflestum öðrum Evrópuríkjum.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.3.2012

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Þórhildur Hagalín. „Þurfum við að taka upp sumartíma ef við göngum í Evrópusambandið?“. Evrópuvefurinn 30.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62259. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundar

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttirlandfræðingur og starfsmaður VísindavefsinsÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Magnus Bjarnason 30.3.2012

Ísland hefur verið "fast" a sumartíma síðan 1968. Sumartími er núna notaður allt árið á Íslandi. Því er spurningin kannski frekar hvort íslenska klukkan verði sett "rétt" yfir veturinn og Ísland taki upp vetrartíma, það er að segja klukkunni verði seinkað um 1 klukkustund miðað við núverandi kerfi á veturna. Sólin verði því hæst á lofti klukkan 12 í stað 13 eins og nú er.

Margir Evrópubúar eru reyndar óánægðir með þetta hringl í klukkunni.

ESB vill helst að öll ríkin breyti um tíma sama dag.

Ekki er sami tími (eða tímabelti) í öllu ESB frá austri til vesturs (frekar en til dæmis í Bandaríkjunum).