Spurning

Er rétt að evran verði að heita „euro“ í öllum aðildarríkjum ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Þetta er að hluta til rétt. Hinn sameiginlegi gjaldmiðill Evrópusambandsins verður að heita „euro“ í opinberum skjölum sambandsins á öllum tungumálum aðildarríkjanna. Í öðrum skjölum, svo sem landslögum aðildarríkjanna, er ríkjunum heimilt að nota annan rithátt, í samræmi við málfræðireglur og hefðir viðkomandi tungumáls.

***

Á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Madríd árið 1995 var tekin ákvörðun um að nafnið á sameiginlegum gjaldmiðli sambandsins skyldi vera einfalt og táknrænt fyrir Evrópu og enn fremur vera eins á öllum tungumálum aðildarríkjanna. Leiðtogarnir ákváðu að nefna gjaldmiðilinn „euro“ og skiptist hver einstök eining hans í hundrað hluta sem var gefið heitið „cent“.

Í opinberum skjölum ESB á öllum tungumálum sambandsins verður gjaldmiðillinn að heita „euro“ í nefnifalli eintölu, að teknu tilliti til tungumála sem nota annað stafróf en það latneska. Aðrar myndir af orðinu „euro“ eru leyfðar í aukaföllum og í fleirtölu svo fremi sem ekki er horfið frá eur-stofni orðsins. Samkvæmt alþjóðlegum staðli ber enn fremur að nota styttinguna „EUR“ með tölum sem vísa til upphæðar í evrum þegar táknið € er ekki notað.


Innblásturinn að tákninu € kom frá hinu gríska epsíloni (ε). Táknið á að vísa bæði til vöggu evrópskrar siðmenningar og til fyrsta bókstafsins í orðinu Evrópa. Línunum tveimur, sem liggja samhliða í gegnum táknið, var ætlað að tákna stöðugleika evrunnar.

Um samræmda notkun orðsins „cent“ á öllum opinberum tungumálum ESB gilda ekki jafn strangar reglur. Það skýrist fyrst og fremst af því að í ófáum aðildarríkjum var orðið „cent“ notað áður en evran var innleidd og hafði verið aðlagað að viðkomandi tungumáli. Finnar notuðu til að mynda, og nota enn, orðið „sentti“ og Spánverjar „céntimo“.

Í öðrum skjölum en lagatextum ESB, svo sem í landslögum aðildarríkjanna, er annar ritháttur orðsins „euro“ leyfilegur, í samræmi við ólíkar málfræðireglur og hefðir hvers tungumáls. Þess eru allnokkur dæmi að aðildarríki ESB noti annað orð en „euro“ í daglegu tali en um það má finna ágætt yfirlit á wikipediu. Þannig er lettneska orðið fyrir evru eiro, hið ungverska euró og hið maltneska ewro. Í yfirlýsingu við Lissabon-sáttmálann lýstu Lettar, Ungverjar og Maltverjar því yfir að hinn samræmdi evrópski ritháttur hafi engin áhrif á þær reglur sem gilda um ritun lettnesku, ungversku og maltnesku.

Ef Íslendingar ákveða að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru yrði orðið „euro“ notað um hinn sameiginlega gjaldmiðil í íslenskum útgáfum evrópskra laga og reglna. Hins vegar verður að teljast ólíklegt að hið ágæta orð evra mundi víkja fyrir „euro“ í venjulegu rituðu máli á íslensku og því síður í daglegu tali Íslendinga.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.1.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er rétt að evran verði að heita „euro“ í öllum aðildarríkjum ESB?“. Evrópuvefurinn 13.1.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61683. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela