Spurning

Hver er samningsafstaða Íslands í utanríkis, öryggis- og varnarmálum?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Viðræðum Íslands og ESB um samningskaflann um utanríkis-, öryggis- og varnarmál er lokið. Í opinberri samningsafstöðu Íslands, sem mótuð var af samningahópnum um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál, kemur fram að Ísland sé tilbúið að taka þátt í sameiginlegri stefnu ESB í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum að því leyti sem unnt er með tilliti til þess að Ísland er herlaust land. Í sameiginlegri yfirlýsingu Íslands og ESB, sem mun birtast í viðauka við aðildarsamninginn, er staða Íslands sem herlaust ríki áréttuð og tekið fram að aðild muni ekki hafa áhrif á gildandi lagagrundvöll og valdheimildir íslenskra stjórnvalda varðandi mótun og framfylgd á stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum.

***

Þetta svar var fyrst birt í september 2011 áður en opinber samningsafstaða Íslands í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum lá fyrir. Það var uppfært í apríl 2012 í kjölfar þess að samningsafstaðan var birt.

Utanríkisráðherra skipaði samningahóp um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál í nóvember 2009 en hlutverk hópsins var að annast undirbúning aðildarviðræðna við ESB um utanríkisviðskipti, þróunarsamvinnu, utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Í því fólst einkum innri greining regluverks ESB af Íslands hálfu svo og sameiginleg greining með ESB, undirbúningur tillagna um samningsafstöðu Íslands og viðræður við ESB um samningsafstöðuna. Viðræður um samningskaflann í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum hófust þann 30. mars síðastliðinn og var þeim lokið samdægurs.



Þátttaka Íslands í alþjóðlegri samvinnu mun eftir sem áður vera af borgaralegum toga.

Í erindisbréfi samningahópsins kom fram að samkvæmt áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu skyldi áhersla lögð á eftirtalin atriði sem lúta að öryggis- og varnarmálum:

  • Að Ísland verði áfram herlaust land og friðsamt.
  • Að tryggt verði að Ísland haldi skilyrðislausu forræði sínu yfir öryggis- og varnarmálum og taki sjálft ákvörðun um það að hve miklu leyti Ísland taki þátt í samstarfi ESB á sviði utanríkis- og öryggismála.
  • Að herskylda verði ekki tekin upp á Íslandi.
  • Að Ísland eigi að kjósa að standa utan þátttöku í Evrópsku varnarmálastofnuninni (e. European Defence Agency, EDA) enda þátttaka í henni valkvæð.

Fullmótaða samningsafstöðu Íslands í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum má draga saman í eftirfarandi punkta:
  • Ísland fellst á sameiginlega regluverkið að því er varðar kaflann um utanríkis-, öryggis- og varnarmál eins og það stóð 20. maí 2011 og mun tryggja að það verði innleitt að fullu við aðild.
  • Ísland fer ekki fram á sérlausnir, undanþágur eða aðlögunartímabil vegna kaflans.
  • Ísland einsetur sér að verða tilbúið að taka þátt í sameiginlegri stefnu í utanríkis- og öryggismálum (Common Foreign and Security Policy, CFSP) og sameiginlegri stefnu í öryggis- og varnarmálum (Common Security and Defence Policy, CSDP) við aðild, að því marki sem unnt er með tilliti til herleysis Íslands.
  • Þátttakan miðast við sérstöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum, sem byggir á herleysi. Ísland hyggst ekki stofna her í framtíðinni. Ísland mun, eftir sem áður og í samræmi við vald aðildarríkja í eigin öryggis- og varnarmálum, leggja sitt af mörkum, með þátttöku af borgaralegum toga, til verkefna og aðgerða sem eru liður í alþjóðlegri samvinnu. Af því leiðir að Ísland getur ekki lagt til hermenn til aðgerða og mun ekki taka þátt í stofnun hernaðarlegra liðsveita.
  • Ísland mun, í samræmi við ákvæði sáttmálanna (einkum 2. mgr. 4. gr. og V. bálk sáttmálans um Evrópusambandið (ESB-sáttmálans)), viðhalda valdheimildum sínum í öryggis- og varnarmálum og staða þess sem herlaust land mun haldast óbreytt.
  • Ísland leggur til að aðildarsamningnum fylgi sameiginleg yfirlýsing þar sem lögð er áhersla á eftirfarandi: Ákvæði sáttmálans um sameiginlega stefnu í öryggis- og varnarmálum hafa ekki áhrif á sérstöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum, sem herlaust land. Ísland mun, í samræmi við ákvæði sáttmálanna, viðhalda valdheimildum sínum í öryggis- og varnarmálum. Samkomulag náðist um þessa sameiginlegu yfirlýsingu og hefur hún nú verið birt á ensku.
  • Ísland undirstrikar að samkvæmt 2. mgr. 41. gr. ESB-sáttmálans geta aðildarríki ákveðið, í hverju tilviki fyrir sig, hvort þau taki þátt í rekstrarkostnaði vegna aðgerða sem hafa hernaðar- eða varnarþýðingu.
  • Í samræmi við heimild í ákvæði 2. mgr. 45. gr. ESB-sáttmálans, mun Ísland ekki eiga aðild að Varnarmálastofnun Evrópu þar sem Ísland er herlaust land.

Samkvæmt heimasíðu utanríkisráðuneytisins um viðræðurnar við ESB fer vinnan við að yfirfæra samningsniðurstöðu hvers einstaks kafla fram í sérstökum vinnuhópi ráðsins sem síðan ber textann undir umsóknarríki. Þessi vinna fer fram samhliða samningaviðræðum um aðra kafla og bíður því ekki heildarniðurstöðu viðræðna. Ekki lítur þó út fyrir að samningsniðurstöður einstakra kafla verði birtar fyrr en heildarniðurstaða viðræðnanna liggur fyrir.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.4.2012

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hver er samningsafstaða Íslands í utanríkis, öryggis- og varnarmálum?“. Evrópuvefurinn 13.4.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60653. (Skoðað 13.10.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela