Er Evrópusambandið með einhvers konar Evrópuher og eru aðildarríkin skyldug til að taka þátt í honum?
Spyrjandi
Egill Almar Ágústsson
Svar
Evrópusambandið hefur ekki eigin her á sínum snærum. Aðildarríki sambandsins starfa þó saman að öryggis- og varnarmálum og mynda hernaðarleg teymi í tengslum við ákveðin verkefni. Það er þó ávallt að frumkvæði einstakra ríkja og eru aðildarríki ekki skuldbundin til þátttöku. Frá árinu 1999 hefur ESB stefnt að því að setja á fót viðbragðsteymi 60 þúsund hermanna (e. European Rapid Reaction Force, ERRF). Erfiðlega hefur gengið að koma verkefninu í framkvæmd og hafa efnahagsþrengingar síðastliðinna ára haft sín áhrif. Að mati andstæðinga þess konar teymis væri það ígildi sameiginlegs Evrópuhers. Stuðningsmenn eru því ósammála og benda á að teymið yrði ekki varanlega staðsett á einum stað og að aðildarríkjum yrði í sjálfsvald sett hvort herafli þeirra tæki þátt í tilteknum aðgerðum.
- Skilgreina þörfina á aðgerðagetu og stuðla að ráðstöfunum til að fullnægja þeirri þörf.
- Leggja sitt af mörkum til að greina hvaða ráðstafana er þörf til að styrkja iðnaðar- og tæknigrundvöll varnargeirans og, þar sem við á, koma þeim til framkvæmda.
- Taka þátt í að móta evrópska stefnu á sviði hernaðargetu og vopnabúnaðar.
- Aðstoða ráð ESB við að meta aukna hernaðargetu.
Sameiginlega stefnan í öryggis- og varnarmálum var samþykkt árið 1999 og fyrstu hersveitirnar sem störfuðu samkvæmt nýju stefnunni voru sendar á Balkanskaga og til Kongó árið 2003. Í dag er Evrópusambandið með 13 hersveitir að störfum í tíu ríkjum og á yfirráðasvæði Palestínu. Þar af eru tíu borgaralegir herflokkar (e. civilian missions), meðal annars í Kósóvó, Palestínu, Kongó og Afganistan, og þrír herflokkar (e. military missions), þar af einn í Bosníu og Hersegóvínu og tveir í Sómalíu. Herflokkarnir samanstanda af tæplega 7.500 hermönnum, þar af eru um 4.500 í borgaralegum verkefnum og tæplega 3.000 í hernaðarlegum verkefnum. Sjá yfirlitsmynd á heimasíðu utanríkisþjónustu ESB.
Þessu til viðbótar hefur Evrópusambandið sett á fót tvær hersveitir (e. battle groups), með 1.500 hermönnum hvor, frá ýmsum aðildarríkjum ESB, og er þeim ætlað að geta brugðist hratt við óvæntum aðstæðum í öryggismálum. Þessar viðbragðssveitir eru aðgreindar frá herliði Atlantshafsbandalagsins en eru þó þróaðar á þann hátt að lið ESB og NATO geti bætt hvort annað upp og styrkt. Hersveitirnar hafa verið til taks frá upphafi árs 2007 en hafa ekki enn verið sendar á vettvang þegar þetta er skrifað í september 2011.
Aðildarríki ESB hafa frá árinu 1999 stefnt að því að setja á fót 60 þúsund hermanna viðbragðsteymi (European Rapid Reaction Force, ERRF). Markmiðið er að geta brugðist við hvers konar hættum á skjótan hátt, þá einna helst með mannúðaraðstoð, björgunar- og friðargæsluaðgerðum, friðarumleitunum og áhættustjórnun. Þá er einnig opnað fyrir möguleikann á sameiginlegum afvopnunaraðgerðum (e. joint disarmament operation) og stuðningi við þriðju ríki í baráttu við hryðjuverk. Upphaflega var markmiðið að ná tilsettum hernaðarmætti árið 2003 og bar áætlunin heitið Helsinki Headline Goal. Markmiðið náðist ekki og ný áætlun leit dagsins ljós ári síðar undir heitinu Headline Goal 2010 en eins og nafnið gefur til kynna var markið þá sett á árið 2010. Þegar þetta er skrifað liggur fyrir að því markmiði var ekki heldur náð og er óljóst hver þróunin verður. Aðildarríkin hafa mjög mismunandi skoðanir á því hvernig evrópskum öryggismálum skuli hagað og auk þess er þeim þröngt sniðinn stakkur um þessar mundir vegna mikilla efnahagsþrenginga í álfunni og víðar.
Um samningsmarkmið Íslands í öryggis- og varnarmálum í samningaviðræðum við Evrópusambandið, er hægt að lesa meira í svari við spurningunni: Hver eru samningsmarkmið Íslands í öryggis- og varnarmálum?
Heimildir og mynd:- Defense Dateline Group: EU Debates of Attrition: A Slow Death for Europe's 'Rapid Reaction Force'?
- Ráð ESB. Factsheet: EU battlegroups
- Ráð ESB: Headline Goal 2010
- Cicero Foundation: Headline Goal 2010
- Utanríkisráðuneytið: Áhættumatsskýrsla
- Varnarmálastofnun Evrópu: Defence Data 2009
- Meirihlutaálit utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu
- Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs
- Heimasíða utanríkisþjónustu ESB: Yfirlitsmynd yfir hernaðarleg verkefni
- Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna
- Varnarmálastofnun Evrópu: Gagnagrunnur
- Varnarmálastofnun Evrópu: EU-US Defence Data 2009
- The EU in the World: The foreign policy of the European Union
- Lissabon-sáttmálinn, samsteypt útgáfa sáttmálans um Evrópusambandið, bls. 38-41
- Heimasíða utanríkisráðuneytisins: Undirbúningur rýnifunda, kafli 31
- Fyrri mynd sótt 14.9.2011 af heimasíðu Atlantic Council
- Seinni mynd sótt 16.9.2011 af heimasíðu blaðamannaverkefnis European Journalism Centre
Er til eitthvað sem heitir Evrópuher? Þ.e. her sem er partur af stofnunum Evrópusambandsins. Ef svo er: Eru lönd skuldbundin til að taka þátt í honum eða er þetta valkvætt samstarf þeirra sem vilja eiga samstarf um her.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur16.9.2011
Flokkun:
Efnisorð
ESB Evrópuher öryggismál varnarmál her hersveitir viðbragðsteymi mannúðaraðstoð friðargæsla friðarumleitanir áhættustjórnun European Rapid Reaction Force Varnarmálastofnun Evrópu utanríkisþjónusta ESB björgunaraðgerðir
Tilvísun
Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Er Evrópusambandið með einhvers konar Evrópuher og eru aðildarríkin skyldug til að taka þátt í honum?“. Evrópuvefurinn 16.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60628. (Skoðað 5.12.2025).
Höfundur
Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef


