Spurning

Sameiginleg stefna í utanríkis- og öryggismálum

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Sameiginlegri stefnu Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum (e. Common Foreign and Security Policy, CFSP) var komið á fót með Maastricht-sáttmálanum árið 1993. Hún myndaði upprunalega aðra stoðina í stoðaskipulaginu þangað til það var afnumið með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009.

Sameiginlega stefnan í utanríkis- og öryggismálum átti sér langan aðdraganda en hún á rætur að rekja til evrópska stjórnmálasamstarfsins (e. the European Political Cooperation, EPC) sem var komið á með óformlegum hætti árið 1970. Samstarfið átti að stuðla að samráði aðildarríkja Efnahagsbandalagsins um alþjóðamálefni með það fyrir augum að koma á sameiginlegri nálgun í utanríkismálum. Evrópska stjórnmálasamstarfinu var formlega komið á fót rúmum 15 árum síðar með Einingarlögunum.

Í upphafi tíunda áratugarins jókst áhuginn fyrir því að efla samstarfið milli aðildarríkjanna, einkum í kjölfar stríðsátakanna í fyrrum Júgóslavíu. Með Maastricht-sáttmálanum var því ákveðið að stíga skrefi lengra og varð stjórnmálasamstarfið að sameiginlegri stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Með Lissabon-sáttmálanum var sameiginlega stefnan efld enn frekar; staða æðsta fulltrúa sambandsins í utanríkis- og öryggismálum var búin til og utanríkisþjónusta ESB stofnuð.

Markmið stefnunnar eru skilgreind í V. bálk sáttmála Evrópusambandsins. Þar segir að sambandið skuli móta stefnu og framfylgja henni með það fyrir augum að:

  • standa vörð um gildi sambandsins, grundvallarhagsmuni, öryggi, sjálfstæði þess og áreiðanleika,
  • efla og styðja við lýðræði og réttarríkið, mannréttindi og meginreglur þjóðarréttar,
  • varðveita frið, koma í veg fyrir átök og efla alþjóðaöryggi í samræmi við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna, meginreglur Helsinki-lokagerðarinnar og markmið Parísarsáttmálans, þar á meðal þau sem varða ytri landamæri,
  • styðja við sjálfbæra þróun efnahagsmála, félagsmála og umhverfismála í þróunarlöndunum með það að meginmarkmiði að útrýma fátækt,
  • ýta undir samþættingu allra landa inn í efnahagskerfi heimsins, meðal annars með því að aflétta smám saman höftum á alþjóðaviðskiptum,
  • aðstoða við mótun ráðstafana á alþjóðavettvangi til að vernda og bæta umhverfið og sjálfbæra stjórnun náttúruauðlinda heimsins í því skyni að tryggja sjálfbæra þróun,
  • aðstoða íbúa, lönd og svæði sem standa frammi fyrir náttúruhamförum eða hamförum af mannavöldum og
  • stuðla að alþjóðlegu kerfi er byggi á öflugri marghliða samvinnu og góðum stjórnunarháttum á heimsvísu.

Sameiginleg stefna í öryggis- og varnarmálum er óaðskiljanlegur hluti sameiginlegu stefnunnar í utanríkis- og öryggismálum. Markmið hennar er að tryggja sambandinu athafnagetu á grundvelli borgaralegra og hernaðarlegra kosta.

Um sameiginlega stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum gilda reglur hefðbundins milliríkjasamstarfs. Hvert aðildarríki hefur eitt atkvæði og þarf stefnan að vera samþykkt einróma á vettvangi leiðtogaráðsins.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela