Spurning

Hvernig beitir ESB sér í refsiaðgerðum gegn Íran vegna meintra tilrauna þarlendra stjórnvalda til að koma upp kjarnorkuvopnum?

Spyrjandi

Arnar Steinn Þorsteinsson

Svar

Undanfarin ár hefur Evrópusambandið beitt æ harðari refsiaðgerðum gegn Íran. Sambandið beitir alla jafna refsiaðgerðum á grundvelli ályktana sem samþykktar hafa verið á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Evrópusambandið getur þó einnig ákveðið að beita frekari refsiaðgerðum á grundvelli sameiginlegu stefnunnar í utanríkis- og öryggismálum. Refsiaðgerðir ESB gegn Íran fela meðal annars í sér rof diplómatískra tengsla, efnahags- og viðskiptaþvinganir og takmörkun á ferðafrelsi tiltekinna aðila til aðildarríkja sambandsins. Ráð ESB ákvað 15. október síðastliðinn að herða refsiaðgerðir gegn Íran enn frekar og eru það hörðustu refsiaðgerðir sem sambandið hefur samþykkt að beita gegn Íran fram til þessa.

***

Í ágúst árið 2002 komst Alþjóðakjarnorkumálastofnunin að þeirri niðurstöðu að leynileg kjarnorkustarfsemi hefði farið fram í nokkrum írönskum kjarnorkuverum og vaknaði þá grunur hjá alþjóðasamfélaginu um að Íran ynni að þróun kjarnorkuvopna. Framkvæmdastjórn ESB hafði þegar lýst yfir áhyggjum af því að Íran gæti verið að þróa gereyðingarvopn árið 2001, í orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðsins, og lýsti sambandið formlega yfir áhyggjum vegna kjarnorkuáætlunar Írans í niðurstöðum ráðsins í júní árið 2003.


Kjarnorkuáætlun Írana er oft í fréttum. Á myndinni sést Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti í kjarnorkuverinu í Natanz.

Almennur vilji var innan Evrópusambandsins til að bregðast við og reyna að leita diplómatískra lausna með viðræðum við Írani. Í október árið 2003 ákváðu utanríkisráðherrar Bretlands, Frakklands og Þýskalands að hefja samningaviðræður við írönsk stjórnvöld um kjarnorkuáætlun ríkisins. Niðurstöður viðræðnanna voru þær að Íran skrifaði undir viðbótarbókun við samninginn gegn útbreiðslu kjarnavopna (e. Nuclear Non-Proliferation Treaty, NPT) sem gerir eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar kleift að rannsaka kjarnorkustarfsemi í Íran. Á meðan á rannsókninni stæði mundi Íran hætta allri auðgun úrans þangað til niðurstöður fengjust um að tilgangur kjarnorkustarfsemi þess væri friðsamlegur. Fyrir að fallast á þetta veitti Evrópusambandið Íran fjárhagslega styrki og tæknilega aðstoð við þróun kjarnorku til að framleiða rafmagn.

Árið 2004 hóf Íran þó aftur að auðga úran og, þrátt fyrir að samningar næðust á ný milli ESB og Íran í nóvember sama ár, hóf Íran augðun á úrani enn eina ferðina ári síðar. Þá var orðið fullreynt að samningaleið Evrópusambandsins dygði ekki ein og sér til að stöðva kjarnorkustarfsemi ríkisins. Málið var því tekið upp á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, árið 2006, þar sem fyrstu refsiaðgerðirnar gegn Íran voru samþykktar. Samhliða refsiaðgerðunum var ákveðið að halda samningaleiðum opnum og ákváðu fastaríki öryggisráðsins auk Þýskalands (P5+1-ríkin) að leiða viðræðurnar við Íran áfram.

Síðan árið 2006 hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt fjórar ályktanir um beitingu refsiaðgerða gegn Íran (sbr. ályktanir 1737 (2006), 1747 (2007), 1803 (2008) og 1929 (2010)). Evrópusambandsríkjunum, sem og öðrum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, er gert að framkvæma ályktanir sem eru samþykktar á vettvangi öryggisráðsins. Fram til ársins 2011 framfylgdi Evrópusambandið því refsiaðgerðum sem höfðu verið ákveðnar af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Samningafundir milli P5+1-ríkjanna og Íran stóðu einnig yfir á þessu tímabili en án sýnilegs árangurs.

Í lok árs 2011 birti Alþjóðakjarnorkumálastofnunin skýrslu um þróun eftirlits með kjarnorkuverum í Íran og kom þá í ljós að Íran stæði ekki við skuldbindingar sínar og leyfði ekki fullan aðgang alþjóðlegra eftirlitsmanna. Tvö fastaríki öryggisráðsins, Kína og Rússland, eru mótfallin frekari refsiaðgerðum gegn Íran og hafa því engar nýjar refsiaðgerðir verið samþykktar á þeim vettvangi. Þess í stað hefur Evrópusambandið farið þá leið að herða einhliða þær refsiaðgerðir sem ákvörðun ráðsins frá árinu 2010 (nr. nr. 2010/413/CFSP) kvað á um og byggði á ályktun öryggisráðsins frá sama ári. Árið 2012 hefur Evrópusambandið hert refsiaðgerðirnar gegn Íran þrisvar sinnum; í janúar (með ákvörðun ráðsins nr. 2012/35/CFSP), í mars (með ákvörðun ráðsins nr. 2012/152/CFSP) og nú síðast í október (með ákvörðun ráðsins nr. 2012/635/CFSP).

Núverandi refsiaðgerðir Evrópusambandsins ná til 471 íranskrar stofnanaeiningar, þar með töldum Seðlabanka Írans. Refsiaðgerðir síðustu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna náði til 76 eininga og hefur Evrópusambandið því víkkað refsiaðgerðirnar, að eigin frumkvæði, með umfangsmiklum hætti. Yfirlit yfir núverandi refsiaðgerðir ESB gegn Íran er að finna í svari við spurningunni Í hverju felast refsiaðgerðir ESB gegn Íran?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.11.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvernig beitir ESB sér í refsiaðgerðum gegn Íran vegna meintra tilrauna þarlendra stjórnvalda til að koma upp kjarnorkuvopnum?“. Evrópuvefurinn 2.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63350. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela