Spurning

Í hverju felast refsiaðgerðir ESB gegn Íran?

Spyrjandi

Arnar Steinn Þorsteinsson

Svar

Þegar Evrópusambandið ákveður að beita refsiaðgerðum ber að taka tillit til þess að þær séu í samræmi við þjóðarrétt og virði mannréttindi og grundvallarréttindi einstaklinga. Valdheimildir Evrópusambandsins til að grípa til refsiaðgerða gagnvart þriðju ríkjum eru skilgreindar í 28. gr. sáttmálans um Evrópusambandið og 75. og 215. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Slíkar ákvarðanir eru teknar með auknum meirihluta fulltrúa ráðsins þar sem þær eru útfærsla á sameiginlegri stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum sem hefur þegar hlotið einróma samþykkis fulltrúanna.

Núverandi refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Íran sem samþykktar voru af ráðinu 15. október síðastliðinn fela í sér:
  • Bann á inn- og útflutningi á vopnum til og frá Íran.
  • Bann á inn- og útflutningi á vörum og tæknibúnaði sem tengjast auðgun úrans eða kjarnorkuvopnakerfum, þar með talið kjarnakleyfum efnum, íðefnum, rafeindatækni, nemum, leysitækjum, flugleiðsögutækjum og rafeindabúnaði loftfars.
  • Útflutningsbann á efnum sem gætu nýst kjarnorku-, hernaðar- eða skotflaugaáætlunum Íran eða iðnaðarfyrirtækjum sem er stjórnað af öryggissveitum íranskra uppreisnarmanna, til að mynda fyrirtækja sem vinna við grafítframleiðslu, hrá- eða hálfunnin málmefni, svo sem ál og stál.
  • Bann við fjárfestingu íranskra ríkisborgara og fyrirtækja í úran námuvinnslu og framleiðslu kjarnakleyfra efna og tækja í Evrópusambandsríkjum.
  • Bann við kaupum á íranskri hráolíu, írönskum jarðolíuafurðum og írönsku jarðgasi.
  • Bann á innflutningi á írönskum vörum sem unnar eru úr jarðolíu eða jarðgasi.
  • Inn- og útflutningsbann á vörum og tækni sem þjóna tvenns konar tilgangi, til að mynda fjarskiptakerfum og -búnaði, upplýsingaöryggiskerfum og kjarnorkutækni og lítið auðguðu úrani.
  • Útflutningsbann á lykiltækjum og -tækni sem gæti nýst olíu- og gasiðnaðinum.
  • Bann við fjárfestingu í írönskum olíu- og gasiðnaði sem og írönskum stöðvum sem vinna afurðir sínar úr jarðolíu eða -gasi.
  • Engar nýjar skamm-, miðlungs- eða langtíma skuldbindingar af hálfu aðildarríkja ESB til veitingar fjárhagslegs stuðnings sem mundi auka viðskipti við Íran.
  • Bann við nýjum styrk- eða lánveitingum til íranskra stjórnvalda frá ESB-ríkjunum.
  • Bann við viðskiptum með gull, eðalmálma og demanta við íranska seðlabankann og opinberar stofnanir í Íran.
  • Bann við fjármagnsflutningum milli evrópskra og íranskra banka nema sérstök heimild stjórnvalda í viðkomandi ríki liggi fyrir.
  • Írönskum bönkum er bannað að opna útibú og stofna til sameiginlegra verkefna innan ESB. Að sama skapi er fjármálastofnunum aðildarríkja ESB ekki heldur leyft að opna útibú eða bankareikninga í Íran.
  • Bann við útgáfu og viðskiptum á írönskum ríkisskuldabréfum eða opinberum skuldabréfum við írönsk stjórnvöld, Seðlabanka Írans og íranska viðskiptabanka.
  • Aðildarríki ESB skulu brýna fyrir ríkisborgurum sínum að vera á varðbergi í viðskiptum sínum við fyrirtæki sem eru skráð í Íran.
  • Innlend tollayfirvöld ESB-ríkja skulu krefjast upplýsinga fyrir fram á öllum farmi til og frá Íran. Slíkur farmur getur verið skoðaður til að tryggja að farið sé eftir viðskiptahöftunum gegn Íran. Aðildarríkin geta lagt hald á vörur sem viðskiptahöftin ná til.
  • Farmflug, sem rekin eru af írönskum farmflytjendum eða sem koma frá Íran, mega ekki fá aðgang að flugvöllum Evrópusambandsríkja (nema um sé að ræða flug sem samanstendur af bæði farþegum og farmi). Íranskt vöruloftfar skal ekki njóta neinnar viðhaldsþjónustu ef grunur leikur á að það flytji bannaðar vörur.
  • Bann við smíði nýrra olíuskipa fyrir Íran eða þátttöku í smíði þeirra.
  • Bann við að veita Íran lykilbúnað við skipasmíði eða búnaðs sem nýttur er vegna viðhalds flota.
  • Bann við veitingu vegabréfsáritana sem nær til 104 íranskra ríkisborgara sem tengjast á einn eða annan hátt kjarnorkuáætlun Íran. Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (nr. 1929 (2010)) nær til 43 þessara einstaklinga en Evrópusambandið hefur bætt við 61 einstaklingi á listann sem bannið nær til. Eignir þessara einstaklinga hafa einnig verið frystar.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.11.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Í hverju felast refsiaðgerðir ESB gegn Íran?“. Evrópuvefurinn 2.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63572. (Skoðað 20.4.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela