Spurning

Utanríkisþjónusta ESB

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Utanríkisþjónusta Evrópusambandsins (e. European External Action Service, EEAS) var stofnuð með gildistöku Lissabon-sáttmálans og tók formlega til starfa ári síðar, þann 1. desember 2010. Tilgangurinn með stofnun utanríkisþjónustunnar var að sameina undir einn hatt þau verkefni sem falla undir sameiginlega stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum og auðvelda þar með framkvæmd hennar og gera hana skilvirkari. Áður fyrr voru verkefnin dreifð á hendur framkvæmdastjórnarinnar og aðalskrifstofu ráðs ESB en 1. janúar 2011 lauk tilfærslu um það bil 16 hundruð fulltrúa þessara stofnana til utanríksþjónustunnar.

Með Lissabon-sáttmálanum var embætti æðsta fulltrúa sambandsins í utanríkis- og öryggismálum (e. High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy) einnig stofnað og var Bretinn Catherine Ashton skipuð í embættið af leiðtogaráðinu, með samþykki forseta framkvæmdastjórnarinnar. Æðsti fulltrúinn er formaður utanríkisþjónustu ESB og á að stuðla að þróun sameiginlegrar stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Hann nýtur aðstoðar utanríkisþjónustu ESB við að sinna þeirri skyldu.

Utanríkisþjónusta ESB framkvæmir sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu ESB sem er ákvörðuð á vettvangi leiðtogaráðsins og ráðsins hverju sinni. Meginmarkmið utanríkisþjónustunnar er að styrkja hlutverk Evrópusambandsins í utanríkissamskiptum við þriðju ríki, tryggja framgang verkefna sem falla undir öryggis- og varnarmálastefnuna og stuðla að bættri ímynd þess á alþjóðavísu.

Hjá utanríkisþjónustu ESB starfa opinberir starfsmenn sem koma úr röðum viðeigandi deilda aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar, auk starfsmanna utanríkisþjónustu einstakra aðildarríkja sem lánaðir eru til starfa hjá henni (3. mgr. 27. gr. sáttmálans um Evrópusambandið). Utanríkisþjónusta ESB starfar því náið með fulltrúum utanríkisþjónusta aðildarríkjanna.

Til að tryggja stjórnun og rekstur utanríkisþjónustunnar tilnefnir æðsti talsmaðurinn einn aðalskrifstofustjóra og tvo aðstoðarskrifstofustjóra. Aðalskrifstofustjórinn, með hjálp aðstoðarskrifstofustjóranna, stýrir verkefnum utanríkisþjónustunnar og á að tryggja samræmingu milli mismunandi deilda og sendiskrifstofa sem staðsettar eru víðs vegar um heiminn. Utanríkisþjónusta ESB rekur 136 sendiskrifstofur um allan heim, meðal annars eina í Reykjavík.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela