Spurning

Beitir Evrópusambandið ríki efnahagslegum refsiaðgerðum, í hverju felast þær?

Spyrjandi

Ólafur Jóhann Sigurðsson

Svar

Efnahagslegum refsingum er beitt til að knýja fram pólitísk markmið. Efnahagslegar refsiaðgerðir fela í sér að hömlur eru lagðar á inn- eða útflutning fjármagns, vara, tækni eða þjónustu ákveðins ríkis eða hóps ríkja með það fyrir augum að hvetja viðkomandi ríki til að bæta framferði sitt og fara að alþjóðalögum. Alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, ríkjasambönd eins og Evrópusambandið og ríki ein og sér geta ákveðið að beita tiltekin ríki refsiaðgerðum. Þegar þetta svar er skrifað beitir Evrópusambandið 22 ríki efnahagslegum refsingum.

***

Þegar efnahagslegum refsingum er beitt er fjármála- og viðskiptatengslum við tiltekið ríki eða hóp ríkja settar skorður eða þeim jafnvel hætt í óákveðinn tíma. Slíkum refsingum er einkum beitt gagnvart ríkjum ef þau ógna öryggi annarra ríkja eða ef borgarar þeirra sæta ómannúðlegri meðferð. Þetta eru ráðstafanir sem alþjóðasamfélagið gerir til að bregðast við ógn sem af ríkinu stafar og til að standa vörð um grundvallarmannréttindi. Til þeirra er einnig gripið til að binda endi á borgarastríð, berjast gegn hryðjuverkum eða fyrir afvopnun og koma í veg fyrir að viðkomandi ríki komi sér upp gereyðingarvopnum, svo nokkur dæmi séu nefnd.


Evrópusambandið er þátttakandi í yfirstandandi efnahaglegum refsiaðgerðum gegn Sýrlandi. Á myndinni sést Bashar al-Assad forseti Sýrlands.

Í stuttu máli má segja að efnahagslegum refsiaðgerðum sé beitt sem eins konar vopni án þess að farið sé í stríð við viðkomandi ríki og hefur Evrópusambandið í auknum mæli gripið til slíkra ráðstafana gagnvart þriðju ríkjum. Dæmi um efnahagslegar refsiaðgerðir eru viðskiptatakmarkanir (inn- og útflutningsbann á ákveðnar vörur), bann við veitingu sérstakrar þjónustu (miðlunarþjónustu, fjármálaþjónustu eða tækniaðstoð), flugbann, fjárfestingarbann eða afturköllun tollfríðinda svo eitthvað sé nefnt.

Evrópusambandið beitir yfirleitt refsiaðgerðum á grundvelli ályktana sem hafa verið samþykktar á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Sambandið getur þó útfært ályktanir SÞ enn frekar og ákveðið að beita fleiri refsiaðgerðum en þeim sem kveðið er á um í tilteknum ályktunum SÞ. Dæmi um það eru til að mynda refsiaðgerðir sem ESB beitir Íran en nánar er fjallað um þær í svörum við spurningunum Hvernig beitir ESB sér í refsiaðgerðum gegn Íran vegna meintra tilrauna þarlendra stjórnvalda til að koma upp kjarnorkuvopnum? og Í hverju felast refsiaðgerðir ESB gegn Íran?

Evrópusambandið getur einnig ákveðið að beita refsiaðgerðum að eigin frumkvæði. Slíkar refsiaðgerðir eru útfærðar í reglugerðum sem ráð ESB hefur komið sér saman um á grundvelli sameiginlegu stefnunnar í utanríkis- og öryggismálum. Valdheimildir Evrópusambandsins til að grípa til refsiaðgerða gagnvart þriðju ríkjum eru skilgreindar í 29. grein sáttmálans um Evrópusambandið og 75. og 215. greinum sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Slíkar ákvarðanir eru teknar með auknum meirihluta fulltrúa ráðsins þar sem þær eru útfærsla á sameiginlegri stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum, sem hefur þegar verið samþykkt einróma af aðildarríkjum ESB á vettvangi leiðtogaráðsins.

Þegar þetta er skrifað í lok maí 2013 beitir Evrópusambandið eftirfarandi ríki efnahagslegum refsiaðgerðum:

Afganistan Bosnía og Hersegóvína Búrma
Egyptaland Erítrea Fílabeinsströnd
Gínea Gínea-Bissá Hvíta-Rússland
Írak Íran Kongó
Líbanon Líbería Líbía
Norður-Kórea Simbabve Sómalía
Suður-Súdan Súdan Sýrland
Túnis

Evrópusambandið beitir einnig hryðjuverkasamtök (eins og til dæmis Al-Kaída) og einstaklinga tengda þeim ýmsum efnahagslegum refsiaðgerðum.

Í samningsafstöðu Íslands í kafla 31 um utanríkis-, öryggis- og varnarmál er tekið fram að Ísland hafi þegar innleitt flestar refsiaðgerðir ESB og sé tilbúið að innleiða við aðild allar þvingunaraðgerðir í samræmi við regluverk sambandsins. Nánar er fjallað um samningsafstöðuna í svari við spurningunni Hver er samningsafstaða Íslands í utanríkis, öryggis- og varnarmálum?

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Nýtir ESB sér efnahagslegar "refsingar" eins og viðskiptabönn við ríki sem þeim er "illa" við af einhverjum ástæðum?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.5.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Beitir Evrópusambandið ríki efnahagslegum refsiaðgerðum, í hverju felast þær?“. Evrópuvefurinn 27.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64915. (Skoðað 24.4.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela