Spurning

Er Evrópusambandið ríkjasamband, stofnun eða eitthvað annað, hvað?

Spyrjandi

Erna Bjarnadóttir, Jozef Maciej Galazka f. 1995

Svar

Samvinna aðildarríkja Evrópusambandsins á sér enga hliðstæðu. Hefðbundin hugtök um samstarf ríkja og svæða duga því skammt til að lýsa sambandinu. Evrópusambandið er til að mynda milliríkjastofnun en þó óhefðbundin sem slík. Ólíkt flestum alþjóðlegum eða svæðisbundnum stofnunum, sem leggja grunninn að milliríkjasamstarfi á tilteknum sviðum, er Evrópusambandið það sem kallað er yfirþjóðleg stofnun. Í samræmi við sáttmála sambandsins hafa aðildarríkin framselt stofnunum ESB hluta ríkisvalds síns. Þannig er löggjafarstofnunum ESB, Evrópuþinginu og ráðinu, falin völd til að setja reglur á þeim sviðum sem samstarfið nær til, dómstóll Evrópusambandsins getur kveðið upp dóma sem hafa skuldbindingargildi í rétti aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnin hefur stjórnvaldsheimildir í aðildarríkjunum á vissum afmörkuðum sviðum.

Yfirþjóðlegt eðli Evrópusambandsins endurspeglast ennfremur í sérstöðu ESB-réttar sem hefur eftir atvikum það sem kallast:
  • bein lagaáhrif: ESB-rétturinn verður hluti af landslögum aðildarríkja án sérstakrar innleiðingar í landsrétt þess,
  • bein réttaráhrif: einkaaðilar geta byggt bein réttindi sín á viðkomandi ESB-rétti í aðildarríkjunum og
  • forgangsáhrif: ESB-réttur gengur framar landsrétti í rétthæð réttarheimilda.


Evrópusambandið er þó heldur ekki sambandsríki eins og Bandaríkin eða Þýskaland. Það sést best á því að sambandið hefur ekki sameiginlega ríkisstjórn og fer hvorki með fullar valdheimildir í utanríkis- og varnarmálum né heimildir til að leggja á skatta. Engar breytingar er heldur hægt að gera á grundvelli sambandsins, það er að segja á sáttmálunum um Evrópusambandið, nema með samþykki hvers og eins aðildarríkis, sem sum hver samþykkja aðeins að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu (4. mgr. 48. gr. sáttmálans um ESB). Aðildarríkin eru þar af leiðandi eftir sem áður „herrar sáttmálanna“ (e. „masters of the treaties“). Hvert aðildarríki getur ennfremur, í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar, ákveðið að ganga úr Evrópusambandinu (50. gr. sáttmálans um ESB).

Eftir stendur spurningin um hvort Evrópusambandið sé ríkjasamband en hún kallar jafnframt á skilgreiningu á því hvað ríkjasamband er. Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er ríkjasamband „samtök ríkja um sameiginlegar varnir o.fl. án þess að sambandið hafi beint vald yfir borgurum aðildarríkja“. Ljóst er að Evrópusambandið er meira en ríkjasamband í þessari merkingu því eins og sagt var frá hér að framan hafa aðildarríkin framselt ríkisvald sitt til sambandsins á vissum sviðum. Á hinn bóginn er óumdeilt að Evrópusambandið er einhvers konar samband ríkja.

Sáttmálinn um Evrópusambandið inniheldur enga nákvæmari lagalega skilgreiningu á því hvað Evrópusambandið er aðra en þá sem fram kemur í fyrstu grein hans: „Þessi sáttmáli og sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins (hér á eftir nefndir „sáttmálarnir“) skulu liggja til grundvallar sambandinu“ (3. mgr. 1. gr. sáttmálans um ESB). Sáttmálinn „markar nýjan áfanga í ferli sem miðar að því að skapa nánari einingu meðal þjóða Evrópu þar sem ákvarðanir eru teknar á eins opinn hátt og eins nálægt borgurunum og kostur er“ (2. mgr. 1. gr. sáttmálans um ESB). Evrópusamruninn grundvallast þannig á samningsbundnum réttarreglum sem aðildarríkin hafa komið sér saman um.


Fræðimenn hafa reynt að svara því hvað Evrópusambandið er á mörgum tungumálum?

Til merkis um sérstöðu Evrópusambandsins er að í seinni tíð hefur verið haft um það latneska hugtakið sui generis (ísl. sérstaks eðlis). Það er notað um fyrirbæri sem eru ein sinnar tegundar og þýðir í raun ekki annað en að fyrirbærinu sé ekki hægt að lýsa með öðrum hugtökum.

Eitt af því sem gerir Evrópusambandið sérstakt er að það er í stöðugri mótun. Frá árinu 1952 hafa aðildarríkin gert með sér níu sáttmála og breytingasáttmála sem hver og einn hefur lagt grunninn að framþróun í starfi og eðli sambandsins og dýpkun samrunans. Þessi þróun er enn í fullum gangi en eins og vitað er hefur krísan á evrusvæðinu leitt til þess að víða er nú kallað eftir „meiri Evrópu“ með hugmyndum á borð við sameiginlega ábyrgð á ríkisskuldum, sameiginlegt eftirlit og ábyrgð á innstæðum bankastofnana, sameiginlegan fjármálaráðherra sem heimilt yrði að hafna fjárlögum einstakra ríkja og jafnvel sambandsríki – þar sem ráðherraráðið yrði að efri deild Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnin yrði að nokkurs konar „alríkisstjórn“ sem bæri ábyrgð gagnvart Evrópuþinginu.

Samandregið er það nokkuð góð almenn skilgreining á Evrópusambandinu að það sé „samband ríkja sem hafa lagt allstóran hluta fullveldis síns í púkk í yfirþjóðlegum stofnunum og myndað þannig einingu sem hefur einkenni alríkis en er samt langt frá því að vera fullmótað ríki“ (Dinan, 2010, 4). Henni verður þó að taka með þeim fyrirvara að sambandið er í stöðugri þróun.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.6.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er Evrópusambandið ríkjasamband, stofnun eða eitthvað annað, hvað?“. Evrópuvefurinn 29.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62102. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela