Spurning

Væri ekki sniðugt að sameina Evrópu í eitt lýðveldi?

Spyrjandi

Sigurður Pétursson

Svar

Sameining Evrópu hefur oft verið á dagskrá í aldanna rás, oftast sem hugmynd en næst veruleikanum komst hún í Rómaveldi. Á síðari tímum má helst líta á Evrópusambandið sem tilraun til að stofna evrópskt stórríki og sumir halda því fram að það stefni í þá átt. En lítill áhugi virðist vera á slíku bæði hjá evrópskum almenningi og hjá flestum ráðamönnum. Sambandið hefur stækkað ört á tímabilinu 1990-2010 og aðildarríkin eru sundurleitari en áður. Fræðimenn eru yfirleitt þeirrar skoðunar að samstarf Evrópuríkjanna haldi áfram á svipaðri braut og síðustu tvo áratugina: Vald í ýmsum málum verði sameiginlegt og yfirþjóðlegt, en þjóðríkin verði áfram mikilvægustu ríkiseiningar í álfunni.

***

Hugmyndir um að sameina alla Evrópu undir eina stjórn hafa lengi verið á kreiki, en illa hefur gengið að hrinda þeim í framkvæmd. Fyrir því liggja ýmsar ástæður, ekki síst sú að lítill áhugi hefur verið fyrir slíkri sameiningu bæði meðal evrópskra ráðamanna og almennings. Lengst af hafa tilraunir til „sameiningar“ helst falist í því að herveldi hafa lagt undir sig stóra hluta álfunnar; Rómaveldi náði bestum árangri slíkra heimsvelda, en bæði Napóleon Frakklandskeisari við upphaf 19. aldar og Þýskaland á dögum Þriðja ríkisins sölsuðu stóra hluta álfunnar undir sig um tíma. Fáir mæla með því að Evrópa sameinist á þann hátt.

Á síðari tímum má helst líta á Evrópusambandið sem tilraun til að stofna evrópskt stórríki, og reyndar halda ýmsir því fram að það stefni í þá átt. En aldrei hefur ríkt nein eining meðal forystumanna sambandsins um þá stefnu og því er sambandið enn – eins og það hefur verið frá upphafi – samband sjálfstæðra og fullvalda ríkja fremur en sameinað lýðveldi.

Franski stjórnmálamaðurinn Robert Schuman (sjá mynd) var einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu á árunum eftir síðari heimsstyrjöld, en með því var lagður grunnurinn að Evrópusambandinu. Hann segir í ævisögu sinni að markmið Evrópusamrunans sé alls ekki að grafa undan þjóðríkjum Evrópu, því að slíkt væri einfaldlega útilokað. Yfirþjóðlegt samstarf í álfunni átti fremur, skrifar hann, að skapa þjóðríkjunum nýjan starfsvettvang þar sem ólíkar þjóðir tengjast á nýjan hátt. Landamæri ríkja áttu ekki að vera múrar sem greina þjóðríkin að, heldur fremur sáttalína sem tengir þau saman (Schuman, 1963, 23).

Frá byrjun hefur Evrópusamruninn þó grafið undan stoðum þjóðríkjanna, af því að ESB og undanfarar þess hafa tekið yfir hluta þess valds sem áður var hjá þjóðríkjunum og sambandið hegðar sér reyndar stundum eins og þjóðríki – þannig er til fáni ESB, tilraunir hafa verið gerðar til að skrifa stjórnarskrá fyrir sambandið, áhrif Evrópuþingsins fara vaxandi og nýlega var stofnað eins konar forsetaembætti ESB. Fjármálakreppan frá 2008 hefur líka ýtt undir hugmyndir um nánara samband evruríkjanna, enda verður erfitt að verja sameiginlega mynt til lengri tíma án sameiginlegrar fjármálastjórnar þátttökuríkjanna. Enn er þó langt því frá að ESB geti talist lýðveldi í þeim skilningi að það myndi sameinað ríki, með sameiginlegu framkvæmda- og löggjafarvaldi, hvað þá að Evrópubúar líti á sig sem eina þjóð.

Fyrir þessu liggja ýmsar ástæður en tvær eru þó mikilvægastar. – Annars vegar hefur sambandið stækkað mjög hratt á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá lokum kalda stríðsins, eða úr 12 ríkjum í 27. Fjölbreytnin hefur því aukist mjög bæði hvað varðar stjórnmálahefðir, efnahagslega stöðu og menningu aðildarríkjanna, sem gerir það að verkum að samkennd íbúanna hefur minnkað. – Hins vegar virðist ekki mjög skynsamlegt að mynda eitt allsherjarríki fyrir Evrópu alla, því að þróun í stjórnarháttum í álfunni hefur einmitt verið frá miðstýringu ríkja til dreifðara valds þar sem ákvarðanir eru teknar nærri íbúunum fremur en í höfuðborgum langt í burtu. Á Íslandi kemur þetta fram meðal annars í flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga, en í stærri ríkjum Evrópu hafa héruð – eins og til dæmis Skotland eða Katalónía – fengið meira vald yfir eigin málum og heyrst hafa kröfur á þessum sjálfstjórnarsvæðum um fullt sjálfstæði.

Fræðimenn eru alls ekki á einu máli í spádómum sínum um framtíðina, en fáir telja þó að sameinað evrópskt lýðveldi verði til á næstunni. Sumir spá því reyndar að Evrópusambandið muni einfaldlega leysast upp í frumeiningar sínar innan tíðar vegna innbyrðis deilna og ólíkra hagsmuna þátttökuríkjanna. Fleiri eru þó þeirrar skoðunar að samstarf Evrópuríkjanna haldi áfram á svipaðri braut og það hefur verið síðustu tvo áratugina eða svo; það er að vald í ýmsum málum verði sameiginlegt eða yfirþjóðlegt, en þjóðríkin verði áfram mikilvægustu ríkiseiningar í álfunni. Skipulag ríkisvalds og hugmyndir um fullveldi kunna þó að breytast verulega á næstu árum og því er erfitt að segja nokkuð ákveðið um það hvað framtíðin ber í skauti sér.

Heimild og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.8.2011

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Væri ekki sniðugt að sameina Evrópu í eitt lýðveldi?“. Evrópuvefurinn 24.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=7543. (Skoðað 14.4.2024).

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarsonprófessor í sagnfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela