Spurning

Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 2. Aðdragandinn

Spyrjandi

Elvar Smári Júlíusson, f. 1995

Svar

Fyrsti vísirinn að Evrópusambandinu var Kola- og stálbandalagið (KSB) sem tók til starfa árið 1952. Að því stóðu sex ríki, Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Vestur-Þýskaland. Menn vildu koma í veg fyrir stríð á svæðinu í framtíðinni, kol og stál skiptu þá miklu í hernaði og mikilvægar námur voru á svæðum sem höfðu oft verið bitbein aðildarríkjanna. Samvinna um framleiðslu þessara efna og viðskipti með þau stuðlaði því að friði. KSB varð „mjói vísirinn“ að EBE og Euratom árið 1958 og síðar ESB sem varð til árið 1993.

***

Þetta svar er framhald fyrra svars þar sem lýst er ástandi og pólitísku landslagi í V-Evrópu á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina sem lauk 1945. Lesendur eru hvattir til að lesa það svar fyrst. Lesendum er einnig bent á að hafa Tímaás Evrópuvefsins til hliðsjónar.

Einn þekktasti og virtasti stjórnmálamaður V-Evrópu eftir stríðið, Winston Churchill, brást við stöðu mála í V-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina með ræðu árið 1946 þar sem hann hvatti menn til að mynda „Bandaríki Evrópu“. Hann hafði þó ekki í huga sambandsríki með jafnsterkum böndum milli ríkjanna og í Bandaríkjum Norður-Ameríku, heldur ríkjabandalag þar sem hvert ríki héldi fullveldi sínu.

Á árunum 1947 og 1948 gerðist ýmislegt sem vísaði veginn. Árið 1947 tilkynntu Bandaríkin um Marshall-áætlunina, styrki til efnahagslegrar endurreisnar í V-Evrópu gegn því að styrkþegar hefðu samvinnu sín á milli. Stofnuð var nefnd til að vinna að efnahagssamvinnu í Evrópu (Committee for European Economic Cooperation) og gengið var frá GATT-samkomulaginu um tolla og viðskipti (General Agreement on Tariffs and Trade), og hefur það samstarf staðið allar götur síðan.

Marshall-aðstoðin skipti miklu um efnahagslega endurreisn í V-Evrópu, meðal annars hér á landi. Aðstoðin var veitt í vörum og reiðufé en ekki með lánum. Hún var bundin skilyrðum um innleiðingu markaðshagkerfis svo að Sovétríkin og stuðningsríki þeirra urðu utangarðs og aðstoðin þjappaði þjóðum V-Evrópu saman. – Myndin sýnir merki sem var sett á vörur sem féllu undir aðstoðina.

Árið 1948 tók til starfa Tollabandalag Benelúxlandanna (Belgíu, Hollands og Lúxemborgar), þriggja fámennustu ríkjanna af þeim sex sem síðar stofnuðu ESB, og má sannarlega segja um það að mjór er mikils vísir. Sama ár var sett á fót Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (Organization for European Economic Cooperation, OEEC) sem síðar varð Efnahags- og framfarastofnunin (Organisation for Economic Cooperation and Development, OECD) og fylgist enn með efnahagsmálum í aðildarlöndum sínum. – Greinilegt er að margir voru á þessum tíma óðfúsir að taka upp fríverslun og auka milliríkjaviðskipti eftir haftaskeið kreppuáranna og styrjaldarinnar.

Árið 1948 komu 600 valdamenn Evrópu saman á Evrópuráðstefnu (Congress of Europe) í Haag til að ræða einingu Evrópu, þótt grunnhugmyndir væru bæði óljósar og sundurleitar. Sumir, Churchill þar á meðal, vildu stofna þing sem væri aðeins ráðgefandi en aðrir vildu stjórnlagaþing sem mundi setja Evrópu stjórnarskrá. Togstreitan um yfirþjóðlegt vald og fullveldi ríkja kom þannig upp strax í upphafi og hefur haldið áfram í samstarfi Evrópuríkja allar götur síðan. Ávöxturinn af ráðstefnunni varð ekki mikill að vöxtum en þó varanlegur: Evrópuráðið (Council of Europe) í Strassborg sem hefur látið mjög til sín taka til dæmis í mannréttindamálum í álfunni og víðar, ekki síst með Mannréttindadómstól Evrópu (Court of Human Rights) sem heyrir undir ráðið.

Frakkar gegndu lykilhlutverki í þróun Evrópusamstarfs á þessum árum. Frakkland var stærsta ríkið á meginlandi V-Evrópu vegna skiptingar Þýskalands og helsti fulltrúi Bandamanna á svæðinu. Framsýnir menn í Frakklandi, eins og embættismaðurinn Jean Monnet, sáu fyrir sér að V-Þýskaland mundi eflast aftur fyrr eða síðar, meðal annars með stuðningi Bandaríkjanna, og ýfingar verða um viðkvæmar auðlindir eins og kol og stál sem gegndu þá lykilhlutverki í hernaði. Þessi sjónarmið áttu einnig hljómgrunn í Benelúxlöndunum sem höfðu oft orðið illa úti í átökum stóru ríkjanna kringum sig.

Mönnum sýndist að samvinna í efnahagsmálum yrði eina leiðin til að komast hjá átökum Frakka og Þjóðverja í framtíðinni. Til þess ættu ríki V-Evrópu að mynda með sér samtök sem mundu gera þau að einni efnahagslegri einingu þar sem tollvernd yrði útrýmt og viðskipti mundu blómgast, öllum í hag, um leið og vináttubönd milli ríkjanna mundu styrkjast þannig að styrjaldir innan svæðisins yrðu úr sögunni.

Jean Monnet (1888-1979) var franskur embættismaður, einn helsti hugmyndasmiður Evrópusamvinnu eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann átti meðal annars mikinn þátt í að koma á fót Kola- og stálbandalaginu árið 1952 og var fyrsti stjórnarformaður þess. Út frá því þróaðist Evrópusambandið á 40 árum eða svo.

Þessar óvenjulegu hugmyndir um samstarf þjóðríkja sem höfðu áður borist á banaspjót féllu að ýmsu leyti í góðan jarðveg. Deilur voru farnar að magnast milli Frakka og V-Þjóðverja, meðal annars um kol og stál við landamæri ríkjanna; Marshall-áætlunin kallaði á samvinnu styrkþega; reynsla Bandaríkjanna af viðskiptum og samvinnu milli ríkja innan sinna vébanda þótti afar góð (Dinan, 2010, 14); mörg ríki V-Evrópu voru að missa nýlendur sínar; V-Evrópa var að þjappa sér saman gegn veldi Sovétríkjanna undir forystu Stalíns, meðal annars með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu (Nató) sem var stofnað árið 1949; margir óttuðust vaxandi fylgi kommúnista í V-Evrópu, til dæmis á Ítalíu og í Frakklandi; flækjur þvældust fyrir mönnum kringum eflingu V-Þýskalands, stöðu þess og réttindi í samfélagi þjóðanna, til dæmis í Nató; og við þetta bættist ekki síst óskin um sem skjótasta endurreisn eftir stríðið, meðal annars með auknum milliríkjaviðskiptum og öflugri forystu ríkisvaldsins, bæði í velferðarmálum og í eflingu atvinnulífsins. Þrátt fyrir þetta allt risti samstaðan um nána samvinnu milli ríkja þó engan veginn djúpt.

Á árinu 1949 varð ljóst að Frakkar gætu ekki hamlað gegn eflingu V-Þýskalands sem naut stuðnings Breta og Bandaríkjamanna. Tími Monnets var kominn. Hann fékk Robert Schuman utanríkisráðherra Frakka á sitt band og undirbjó jafnframt jarðveginn hjá Konrad Adenauer kanslara V-Þýskalands sem gerði sér ljóst að svona samstarf mundi ásamt öðru svipuðu leiða smám saman til þess að V-Þýskaland næði fullri viðurkenningu í samfélagi þjóðanna. Bandaríkjamenn fylgdust með úr fjarska með velþóknun þó að þeir vissu að aukið samstarf í Evrópu yrði þeim ekki í hag að öllu leyti (Dinan, 2010, 17).



Konrad Adenauer (1876-1967) var leiðtogi Kristilegra demókrata í V-Þýskalandi og kanslari (forsætisráðherra) landsins 1949-1963. Hann hafði forystu um endurreisn V-Þýskalands eftir stríðið og hafði mikil áhrif til styrkingar á Evrópusamstarfi á þeim tíma. Samstarf hans og Charles de Gaulle, eftir að de Gaulle varð forseti Frakklands árið 1959, var farsælt og hafði mikil áhrif. Myndin sýnir minnismerki um Adenauer og de Gaulle og samstarf þeirra. Það var reist við Adenauer stofnunina í Berlín árið 2003 í tilefni þess að 40 ár voru liðin frá því þeir undrrituðu vináttu- og samstarfssamning landanna.

Þann 9. maí 1950 setti Schuman fram fræga yfirlýsingu sem við hann er kennd og er hennar minnst á hverju ári á svonefndum Evrópudegi. Samkvæmt ráði Monnets vildi Schuman byrja smátt en vanda til verka. Hann lýsti því yfir að Frakkar vildu byggja upp nýja Evrópu ásamt V-Þýskalandi sem jafningja en öðrum þjóðum stæði líka til boða að taka þátt. Hann lagði til að stofnað yrði yfirþjóðlegt bandalag, Kola- og stálbandalag Evrópu (KSB; European Coal and Steel Community, ESCS) sem færi með forræði allra kola- og stálauðlinda í aðildarlöndunum.

Hugmynd Monnets var á þá leið að þetta samstarf á þröngu sviði mundi varða veginn ef það heppnaðist vel. Hagkvæmnisrök mundu þá sýna mönnum þörfina fyrir samstarf á sífellt fleiri sviðum. Jafnframt mundu vopnuð átök eða annar fjandskapur milli aðila að slíku samstarfi heyra sögunni til.

KSB átti að vísu eftir að valda vonbrigðum hjá þeim sem sáu „Bandaríki Evrópu“ fyrir sér í hillingum. Engu að síður kemst sagnfræðingur sem hefur skrifað sögu bandalagsins svo að orði:

Yfirþjóðleg stofnun hafði verið sett á fót … Hún átti eftir að koma í staðinn fyrir friðarsamning milli Þýskalands og V-Evrópu. Þetta var ekki glæsileg sátt í ætt við Westfalen eða Versali [fræga friðarsamninga í sögu Evrópu]. … Með því að setja niður deilurnar um kol og stál sem höfðu staðið samskiptum Frakklands og V-Þýskalands fyrir þrifum síðan heimsstyrjöldinni lauk ruddi samningurinn [um bandalagið] burt helstu hindruninni í vegi efnahagssamvinnu þjóðanna tveggja (John Gillingham, tilvitnun hjá Dinan, 2010, 22).

Í næsta svari í röðinni er fjallað um leiðina til Rómarsáttmálanna sem tóku gildi árið 1958 þegar Efnahagsbandalag Evrópu varð til.

Heimildir og myndir:
  • Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Integration. 4. útgáfa. Houndmills, Basingstokes: Palgrave/Macmillan.
  • Gillingham, John R., 1991. Coal, Steel and the Rebirth of Europe, 1945-1955: The Germans and French from Ruhr Conflict to Economic Community. Cambridge: Cambridge University Press. [Tilvitnun eftir Dinan, 2010].
  • Hobsbawm, Eric, 1996. The Age of Extremes: The Short Twentieth Century 1914-1991. London: Abacus. [Sjá næstu færslu]
  • Hobsbawm, Eric, 1999. Öld öfganna: Saga heimsins 1914-1991. Reykjavík: Mál og menning.
  • Warleigh-Lack, Alex, 2009. European Union: The Basics. 2. útg. London: Routledge.
  • Mynd af einkennismerki Marshall-aðstoðarinnar: en.wikipedia.org - US Marshall Plan Aid Logo. Sótt 25. júlí 2011.
  • Mynd af Monnet, af forsíðu Time: time.com - Jean Monnet. Sótt 25. júlí 2011.
  • Mynd af minnismerki Adenauer og de Gaulle: en.wikipedia.org - Adenauer and de Gaulle.Sótt 25. júlí 2011.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.7.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 2. Aðdragandinn“. Evrópuvefurinn 25.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=59451. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela