Spurning

Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 1. Jarðvegurinn

Spyrjandi

Elvar Smári Júlíusson, f. 1995

Svar

Einn af þekktustu sagnfræðingum 20. aldar, sem hafði óvenjulega yfirsýn, sagði að Evrópusambandið væri „barn sérstakra sögulegra aðstæðna sem geta líklega aldrei komið upp aftur“ (Hobsbawm, 1996, 578). Svo mikið er víst að ESB er afar óvenjulegt fyrirbæri í mannkynssögunni. Við höldum nú samt að það sé hægt að varpa ýmiss konar ljósi á fæðingu barnsins og í þessu svari verður rætt sérstaklega um jarðveginn sem það spratt upp úr.

***

Rakið verður á Evrópuvefnum í þremur svörum í röð um það af hverju og hvernig fyrsti vísirinn að Evrópusambandinu varð til á árunum 1945-1958. Í fyrsta svarinu sem fer hér á eftir er lýst jarðveginum eða landslaginu sem ESB spratt upp úr. Sagt verður frá hinum svörunum í lok þessa svars. Lesendum er bent á að hafa Tímaás Evrópuvefsins til hliðsjónar þegar þessi svör eru lesin.

Hinu verða svo væntanlega gerð skil smám saman í öðrum svörum á Evrópuvefnum, hvernig vísirinn frá 1952-1958, samstarf sex ríkja á þröngum sviðum, varð að risavöxnum samtökum 27 ríkja með víðtæku samstarfi þegar þetta er skrifað árið 2011.

Adolf Hitler (1889-1945) var leiðtogi Þýskalands 1933-1945, meðal annars í seinni heimsstyrjöldinni. Skugginn af persónu hans, stjórnmálaferli og stríðsbrölti hefur haft mikil áhrif á sögu mannkynsins, Evrópu og Þýskalands allar götur síðan og meðal annars stuðlað að þróun samstarfs í Evrópu.

Þegar spurt er af hverju eitthvað tiltekið gerðist í fortíðinni – ekki síst einstæð atburðarás eins og hér um ræðir – þá er skýringin oft söguleg sem svo er kallað; hún felst í sögunni sem á undan fór* eða í landslaginu sem þá var, og er þá orðið „landslag“ notað í víðri merkingu. Við þurfum semsé að átta okkur á því hvernig umhorfs var í Vestur-Evrópu á tímabilinu kringum 1950. Athyglin beinist þá einkum að nokkrum veigamiklum og sérstökum atriðum stjórnmálasögunnar sem höfðu veruleg áhrif á þá þróun í átt til samstarfs og samruna sem hófst í Vestur-Evrópu á þessum tíma:
 • Stærstu og valdamestu þjóðir V-Evrópu, sem bjuggu þar sem nú er Bretland, Frakkland og Þýskaland, höfðu eldað grátt silfur um aldir með grimmilegum styrjöldum og tilheyrandi mannfalli og eyðileggingu, bæði á eigin landsvæði og í smáríkjum í kring. Ef ekkert yrði að gert leit út fyrir að enn yrði haldið áfram á sömu braut.
 • Fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir 1914-1918 og var samið um frið í Versölum í lokin. Þjóðverjar sættu þar afarkostum sem gátu í raun ekki staðist til lengdar og áttu meðal annars sinn þátt í að skapa jarðveg fyrir nasismann á þriðja og fjórða tug aldarinnar (sjá t.d. Hobsbawm, 1996, 33-34).
 • Rússneska byltingin var gerð árið 1917 og Sovétríkin urðu til upp úr rústum rússneska keisaradæmisins. Þau höfðu úrslitaáhrif á seinni heimsstyrjöldina 1939-1945 og urðu síðan annar póllinn í kalda stríðinu sem hófst einmitt á þeim tíma sem hér er til skoðunar.
 • Heimskreppan mikla (The Great Depression) gekk yfir Vesturlönd á árunum um 1929-1939 með örbirgð, vöruskorti, atvinnuleysi og óðaverðbólgu í ýmsum löndum. Markaðshagkerfið virtist ekki geta staðið á eigin fótum nema ríkisvaldið hefði hemil á því og styddi við það með ýmsum ráðum (Hobsbawm, 1996, 268-274; Warleigh-Lack, 2009, 15-17).
 • Nasistar tóku völdin í Þýskalandi árið 1933 og útþenslustefna þeirra, kennd við “Lebensraum” (lífsrými), endaði með seinni heimsstyrjöldinni. Bandamenn, andstæðingar Þjóðverja, höfðu sigur og hernámu Þýskaland eftir stríðið.
 • Forystumenn Bandamanna, Churchill, Stalín og Roosevelt, komu saman í sovésku borginni Jalta (nú í Úkraínu) árið 1945 og sömdu að miklu leyti um skiptingu Evrópu í yfirráðasvæði Sovétmanna annars vegar og hins vegar svæði vinveitt Bandaríkjunum eða Vesturveldunum sem svo voru kölluð.
 • Nær öll Evrópa var í rúst eftir að styrjöldinni lauk árið 1945, bæði í áþreifanlegri merkingu (hús, vegir, járnbrautir og önnur grunngerð) og í félagslegri og efnahagslegri merkingu. – Öðru máli gegndi um Bandaríkin sem höfðu alla burði til að taka að sér forystuhlutverk í efnahagslífi jarðarbúa, að minnsta kosti á Vesturlöndum, um langa framtíð.


Þessi ljósmynd er ein af nokkrum frægum myndum af Winston Churchill forsætisráðherra Breta, Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta og Jósef Stalín leiðtoga Sovétríkjanna á fundi þeirra í Jalta. Samningur þeirra um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði stórveldanna hafði bein úrslitaáhrif á framtíð álfunnar í hálfa öld eða svo.

Atburðarásin sem leiddi að lokum til stofnunar Evrópubandalagsins árið 1958 felur í sér mörg dæmi um tengsl við einstök atriði í þessari landslagslýsingu. Þessum dæmum verður lýst nánar í næsta svari í röðinni en þau koma fram bæði í einstökum atburðum og í ummælum áhrifamanna sem þarna komu við sögu. Einn af þeim var franski embættismaðurinn Jean Monnet sem sagði svo frá í endurminningum sínum þar sem hann fjallar um stofnun Kola- og stálbandalagsins árið 1952:

Ef … sigurvegararnir og hinn sigraði kæmu sér saman um að beita sameiginlegu forræði við hluta sameiginlegra auðlinda sinna … þá byndust þau órofa böndum, dyr mundu opnast fyrir fleiri samstarfsverkefni og öðrum Evrópuþjóðum væri fengið glæsilegt fordæmi (Monnet, 1978, 293, tilvitnun eftir Dinan, 2010, 18).

Í næsta svari í röðinni verður rætt nánar um aðdraganda þess að Kola- og stálbandalagið var stofnað árið 1952. Í þriðja svarinu er sagan rakin frá Kola- og stálbandalaginu til þess er Evrópubandalagið var stofnað með Rómarsáttmálunum árið 1958.

Heimildir og myndir:
 • Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Integration. 4. útgáfa. Houndmills, Basingstoke: Palgrave/Macmillan.
 • Hobsbawm, Eric, 1996. The Age of Extremes: The Short Twentieth Century 1914-1991. London: Abacus [Sjá næstu færslu].
 • Hobsbawm, Eric, 1999. Öld öfganna: Saga heimsins 1914-1991. Reykjavík: Mál og menning.
 • Monnet, Jean, 1978. Memoirs. Garden City: Doubleday.
 • Warleigh-Lack, Alex, 2009. European Union: The Basics. 2. útg. London: Routledge.
 • Frímerki með mynd af Hitler: en.wikipedia.org - Adolf Hitler. Sótt 25.7.2011.
 • Mynd frá fundi í Jalta: en.wikipedia.org - Yalta Conference. Sótt 25.7.2011.


*Warleigh-Lack (2009, 8) kallar þetta á ensku “path dependence”: Næstu atburðir eru ekki eingöngu háðir því hvar við erum stödd núna, heldur líka hinu, hvernig við komumst þangað.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.7.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 1. Jarðvegurinn“. Evrópuvefurinn 25.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60347. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela