Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 3. Fyrstu skrefin
Spyrjandi
Elvar Smári Júlíusson, f. 1995
Svar
Kola- og stálbandalagið (KSB) frá 1952 var hvorki stórt í sniðum né heldur var því ætlað umfangsmikið verksvið. Helstu tíðindin voru þau að fyrrverandi óvinaþjóðir hófu samstarf sem var yfirþjóðlegt; einfalt fullveldi einstakra ríkja vék á þessum vettvangi fyrir hagsmunum heildarinnar, svo sem friði, viðskiptum og hagkvæmni. Mestu skipti að þetta hafði tekist og gefið fordæmi sem vísaði fram á veginn. Samt mistókst það sem átti að verða næsta skref þegar samningnum um Varnarbandalag Evrópu var hafnað árið 1954. En menn héldu ótrauðir áfram á allt öðru sviði og stofnuðu Efnahagsbandalag Evrópu og Kjarnorkubandalagið með Rómarsáttmálunum árið 1958.
Paul-Henri Spaak (1899-1972) var leiðtogi belgíska Verkamannaflokksins og ýmist forsætis- eða utanríkisráðherra um langt skeið. Hann naut einnig trausts á alþjóðavettvangi og var til dæmis framkvæmdastjóri Nató 1957-1971. Hann var formaður nefndar sem lagði grunninn að Rómarsáttmálunum 1956-1957.
Frakkar höfðu áhuga á Euratom en síður á Efnahagsbandalaginu, einkum vegna þess að þeir töldu landbúnaðarmálum ekki nægilega sinnt. Þeir voru þó hræddir um að einangrast og franska þingið féllst á að samningum yrði haldið áfram að því tilskildu meðal annars að samstarfið í EBE næði til landbúnaðarvara auk annars, en það varð síðar býsna afdrifaríkt atriði. Önnur aðildarríki féllust á breytingartillögur Frakka, bæði vegna þess að sum þeirra högnuðust líka á þeim, og ekki síður vegna þess að þátttaka Frakka var talin skipta svo miklu: EBE án Bretlands var mögulegt en EBE án Frakklands kom ekki til greina. Sáttin milli Frakka og V-Þjóðverja var lykilatriði í öllu ferlinu, meðal annars til að Þjóðverjar fengju uppreisn æru í samfélagi þjóðanna, og Adenauer var þess vegna tilbúinn að ganga býsna langt til móts við Frakka (Dinan, 2010, 25).
Sáttmálar um Euratom og EBE voru undirritaðir í Róm með mikilli viðhöfn í mars 1957. Þýska þingið staðfesti þá meðal annars með samþykki Þýska sósíaldemókrataflokksins sem hafði þó áður tekið afstöðu gegn bæði KSB og Varnarbandalaginu. Öll aðildarríkin höfðu staðfest samningana í árslok og þeir tóku gildi í janúar 1958.

ein mikilvægasta stundin í sögu Evrópu. Hver hefði trúað því á fjórða áratugnum eða jafnvel á fyrstu tíu árunum eftir stríðið, að Evrópuríki sem höfðu borist á banaspjót um aldir og voru sum hver enn lokuð lönd í efnahagslegu tilliti … skyldu mynda með sér sameiginlegan markað sem var ætlað að verða að lokum að efnahagssvæði með einum stórum og hreyfanlegum markaði? (Marjolin, 1989, 306; tilvitnun eftir Dinan, 2010, 26).Stofnun Evrópubandalagsins var stórviðburður, ekki aðeins í efnahagslífi heldur einnig í stjórnmálum og samskiptum þjóða almennt. Og enn einu sinni erum við minnt á það að þessi viðburður verður ekki skilinn til hlítar nema við höfum í huga landslagið, jarðveginn og aðdragandann. Heimildir og myndir:
- Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Integration. 4. útgáfa. Houndmills, Basingstokes: Palgrave/Macmillan.
- Hobsbawm, Eric, 1996. The Age of Extremes: The Short Twentieth Century 1914-1991. London: Abacus. [Sjá næstu færslu]
- Hobsbawm, Eric, 1999. Öld öfganna: Saga heimsins 1914-1991. Reykjavík: Mál og menning.
- Marjolin, Robert, 1989. Architect of European Unity: Memoirs, 1911-1086. London: Weidenfeld and Nicolson.
- Warleigh-Lack, Alex, 2009. European Union: The Basics. 2. útg. London: Routledge.
- Rómarsáttmálinn um EBE
- Mynd af Paul-Henri Spaak: en.wikipedia.org - Paul-Henri Spaak. Sótt 25. júlí 2011.
- Mynd frá undirritun Rómarsáttmálans: en.wikipedia.org - Rometreaty. Sótt 25. júlí 2011.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur25.7.2011
Flokkun:
Efnisorð
stofnun ESB Evrópusamruni Kola- og stálbandalag Varnarbandalag Evrópu Efnahagsbandalag Evrópu Rómarsáttmálinn Jean Monnet yfirþjóðlegar stofnanir Bandaríki Evrópu Kjarnorkubandalag Evrópu Euratom Adenauer
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson (1940-2025). „Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 3. Fyrstu skrefin“. Evrópuvefurinn 25.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60348. (Skoðað 29.10.2025).
Höfundur
Þorsteinn Vilhjálmsson (1940-2025)prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011


