Spurning

Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 3. Fyrstu skrefin

Spyrjandi

Elvar Smári Júlíusson, f. 1995

Svar

Kola- og stálbandalagið (KSB) frá 1952 var hvorki stórt í sniðum né heldur var því ætlað umfangsmikið verksvið. Helstu tíðindin voru þau að fyrrverandi óvinaþjóðir hófu samstarf sem var yfirþjóðlegt; einfalt fullveldi einstakra ríkja vék á þessum vettvangi fyrir hagsmunum heildarinnar, svo sem friði, viðskiptum og hagkvæmni. Mestu skipti að þetta hafði tekist og gefið fordæmi sem vísaði fram á veginn. Samt mistókst það sem átti að verða næsta skref þegar samningnum um Varnarbandalag Evrópu var hafnað árið 1954. En menn héldu ótrauðir áfram á allt öðru sviði og stofnuðu Efnahagsbandalag Evrópu og Kjarnorkubandalagið með Rómarsáttmálunum árið 1958.

***

Þetta svar er þriðja og síðasta svarið í röð sem fjallar um meginspurninguna: „Af hverju var Evrópusambandið stofnað?“ Hin svörin eru hér:
  1. Jarðvegurinn
  2. Aðdragandinn
og er lesendum bent á að lesa þau á undan þessu svari. Einnig kann að vera gott að hafa Tímaás Evrópuvefsins til hliðsjónar.

Í síðasta svari í röðinni var lauslega sagt frá hugmyndum Jean Monnet og annarra frumkvöðla Evrópusambandsins um þróun samstarfsins yfir á sífellt fleiri svið. Þessar hugmyndir eru stundum kenndar við dómínó þar sem fyrsti kubburinn fellir þann næsta og svo koll af kolli þar til öll röðin er fallin. En leiðin frá KSB til Evrópusambands nútímans varð miklu torsóttari og krókóttari en hugmyndasmiðirnir hugsuðu sér.

Hugmynd Monnets fól í sér eins konar sjálfvirkni þar sem ábatinn af fyrri aðgerðum átti að leiða sjálfkrafa til sammælis um næstu skref; þau væru öllum í hag og allir hlytu að sjá það. Hins vegar eru skrefin oft torskilin fyrir fram, sum aðildarríkin sjá þau öðrum augum en hugmyndasmiðirnir og efast þá um heildarávinninginn, einkum þegar þau telja að fullveldi þeirra sé ógnað.

Ríkisstjórnir aðildarríkjanna hafa þannig ekki alltaf kært sig um hagkvæmnina og samstöðuna sem feðurnir höfðu í huga. Þær vilja í lengstu lög hafa síðasta orðið, ekki síst á viðkvæmum sviðum eins og í utanríkis- og öryggismálum. Hér má hafa í huga að yfirleitt er talið að ríki haldi óskertu fullveldi í alþjóðasamstarfi ef það hefur til dæmis neitunarvald.

Fyrstu átökin eftir þessum línum urðu strax á meðan KSB var í burðarliðnum. Árið 1950 hafði franski forsætisráðherrann sett fram áætlun um að stofna Varnarbandalag Evrópu (European Defense Community) sem átti að verða yfirþjóðleg samtök á svipuðum nótum og KSB. Hugmyndin fól meðal annars í sér að þýskur her, sem þá var að koma til sögu, yrði undir stjórn bandalagsins. Samningar tókust um Varnarbandalagið en svo fór að franska þingið neitaði að staðfesta þá, meðal annars af því að gaullistum (frönskum hægrimönnum, fylgismönnum de Gaulle) var afsal fullveldis í varnarmálum sérstaklega á móti skapi og franskir kommúnistar stóðu gegn því að Þýskaland vopnaðist á ný. Hitt má líka vera að hugmyndin um yfirþjóðlegt bandalag í svo viðkvæmum málum hafi blátt áfram ekki verið tímabær (Dinan, 2010, 21; Warleigh-Lack, 2009, 22).

Þessi litla saga er ekki mikilvæg í sjálfri sér en hún er gott dæmi um það sem síðar varð daglegt brauð: Átök milli talsmanna fullveldis og milliríkjahyggju (e. intergovernmentalism) og hinna sem vilja yfirþjóðlegar stofnanir og stefna að sambandsríkinu „Bandaríki Evrópu“ (e. federalism; supranationalism).

En jafnframt sýnir þessi saga hvernig ESB þróast í sífelldri víxlverkun við flóknar atburðarásir í umhverfinu. Þannig varð skipbrot Varnarbandalagsins til þess að fylgismenn Evrópusamruna beindu kröftum sínum í aðrar áttir sem voru vænlegri til árangurs á vettvangi stjórnmálanna. Þeir hertu róðurinn í átt til skilvirkrar samvinnu í efnahagsmálum, milliríkjaviðskiptum og kjarnorkumálum.

Benelúxlöndin höfðu samið um tollabandalag sín á milli árið 1944 með gildistöku 1948. Frá þeim komu nú tillögur um að öll aðildarríki KSB færu sömu leið. Jafnframt töldu menn sig sjá fyrir að kjarnorka tæki við af kolum sem orkulind, vægi kola mundi minnka og samstarf í kjarnorkumálum væri því tímabært. Á fundi í Messina á Sikiley árið 1955 var sett á fót nefnd undir forystu Paul-Henri Spaak, utanríkisráðherra Belgíu, til að fara yfir valkostina á þessum tveimur sviðum. Nefndin lagði til ári síðar á ráðstefnu í Brussel að ríkisstjórnir aðildarríkja KSB hæfu samningaviðræður um það sem síðar varð Kjarnorkubandalagið (Euratom) og Efnahagsbandalag Evrópu (EBE). Ásamt KSB eru þessi bandalög oft nefnd einu nafni Evrópubandalögin.

Paul-Henri Spaak (1899-1972) var leiðtogi belgíska Verkamannaflokksins og ýmist forsætis- eða utanríkisráðherra um langt skeið. Hann naut einnig trausts á alþjóðavettvangi og var til dæmis framkvæmdastjóri Nató 1957-1971. Hann var formaður nefndar sem lagði grunninn að Rómarsáttmálunum 1956-1957.

Frakkar höfðu áhuga á Euratom en síður á Efnahagsbandalaginu, einkum vegna þess að þeir töldu landbúnaðarmálum ekki nægilega sinnt. Þeir voru þó hræddir um að einangrast og franska þingið féllst á að samningum yrði haldið áfram að því tilskildu meðal annars að samstarfið í EBE næði til landbúnaðarvara auk annars, en það varð síðar býsna afdrifaríkt atriði. Önnur aðildarríki féllust á breytingartillögur Frakka, bæði vegna þess að sum þeirra högnuðust líka á þeim, og ekki síður vegna þess að þátttaka Frakka var talin skipta svo miklu: EBE án Bretlands var mögulegt en EBE án Frakklands kom ekki til greina. Sáttin milli Frakka og V-Þjóðverja var lykilatriði í öllu ferlinu, meðal annars til að Þjóðverjar fengju uppreisn æru í samfélagi þjóðanna, og Adenauer var þess vegna tilbúinn að ganga býsna langt til móts við Frakka (Dinan, 2010, 25).

Sáttmálar um Euratom og EBE voru undirritaðir í Róm með mikilli viðhöfn í mars 1957. Þýska þingið staðfesti þá meðal annars með samþykki Þýska sósíaldemókrataflokksins sem hafði þó áður tekið afstöðu gegn bæði KSB og Varnarbandalaginu. Öll aðildarríkin höfðu staðfest samningana í árslok og þeir tóku gildi í janúar 1958.


Undirritun Rómarsáttmálanna í mars 1957 í Palazzo dei Conservatori á Capitolino-hæð. Sáttmálarnir voru tveir, annar um Efnahagsbandalagið og hinn um Kjarnorkubandalagið en samstarf Kola- og stálbandalagsins hélt áfram jafnhliða nýju bandalögunum. Oft er talað um þessi þrjú bandalög saman sem Evrópubandalögin.

Enn var eftir að ákveða hvar bækistöðvar hins nýja samstarfs skyldu vera. Miðstöð KSB var í Lúxemborg en ríkisstjórnin þar taldi landið ekki geta hýst fleiri stofnanir. Þrautalendingin varð sú að hafa aðalbækistöðvarnar í Brussel þar sem mikilvægustu skrefin í aðdragandanum höfðu verið tekin.

Í inngangi samningsins um EBE er því lýst yfir að aðildarríkin séu staðráðin í „að leggja grunninn að sífellt nánara sambandi milli þjóða Evrópu”. Í megintextanum eru sett fram grundvallaratriði sameiginlega markaðarins: Frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns; tollabandalag og sameiginlegur tollur út á við; og ýmis félagsleg stefnuatriði.

Þó að Rómarsáttmálarnir vektu í fyrstu takmarkaða athygli og áhuga urðu þeir smám saman afar afdrifaríkir. Ráðgjafi og samningamaður Frakka komst svo að orði að dagurinn þegar þeir voru undirritaðir hafi verið
ein mikilvægasta stundin í sögu Evrópu. Hver hefði trúað því á fjórða áratugnum eða jafnvel á fyrstu tíu árunum eftir stríðið, að Evrópuríki sem höfðu borist á banaspjót um aldir og voru sum hver enn lokuð lönd í efnahagslegu tilliti … skyldu mynda með sér sameiginlegan markað sem var ætlað að verða að lokum að efnahagssvæði með einum stórum og hreyfanlegum markaði? (Marjolin, 1989, 306; tilvitnun eftir Dinan, 2010, 26).

Stofnun Evrópubandalagsins var stórviðburður, ekki aðeins í efnahagslífi heldur einnig í stjórnmálum og samskiptum þjóða almennt. Og enn einu sinni erum við minnt á það að þessi viðburður verður ekki skilinn til hlítar nema við höfum í huga landslagið, jarðveginn og aðdragandann.

Heimildir og myndir:
  • Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Integration. 4. útgáfa. Houndmills, Basingstokes: Palgrave/Macmillan.
  • Hobsbawm, Eric, 1996. The Age of Extremes: The Short Twentieth Century 1914-1991. London: Abacus. [Sjá næstu færslu]
  • Hobsbawm, Eric, 1999. Öld öfganna: Saga heimsins 1914-1991. Reykjavík: Mál og menning.
  • Marjolin, Robert, 1989. Architect of European Unity: Memoirs, 1911-1086. London: Weidenfeld and Nicolson.
  • Warleigh-Lack, Alex, 2009. European Union: The Basics. 2. útg. London: Routledge.
  • Rómarsáttmálinn um EBE
  • Mynd af Paul-Henri Spaak: en.wikipedia.org - Paul-Henri Spaak. Sótt 25. júlí 2011.
  • Mynd frá undirritun Rómarsáttmálans: en.wikipedia.org - Rometreaty. Sótt 25. júlí 2011.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.7.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 3. Fyrstu skrefin“. Evrópuvefurinn 25.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60348. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela