Spurning

Hvert er eðli ESB-sáttmálanna?

Spyrjandi

Finnur Ólafsson

Svar

EES-samningurinn og ESB-sáttmálarnir hafa þá sérstöðu að vera algjörlega sérstaks eðlis (lat. sui generis). Með öðrum orðum: Ekki eru til neinir sambærilegir samningar. Eðli þeirra er því erfitt að skýra með samanburði við aðra samninga eða með almennum hugtökum sem notuð eru til að lýsa milliríkjasamningum, eins og til dæmis mannréttindasamningar eða fríverslunarsamningar. Þar af leiðandi þarf að skýra eðli þessara samninga með því að gera grein fyrir samningunum sjálfum. Í þeim tilgangi má meðal annars líta til sögulegra skýringa fyrir gerð þeirra sem og markmiða og inntaks þeirra lagareglna sem er að finna í samningunum.

Í þessu svari er fjallað um hið sérstaka eðli ESB-sáttmálanna en um eðli EES-samningsins fjallar sami höfundur í svari við spurningunni Hvert er eðli EES-samningsins?

***

Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar ákváðu sex Evrópuþjóðir að stofna yfirþjóðlega stofnun í þeim tilgangi að stjórna sameiginlega kola- og stálframleiðslu í aðildarríkjunum (Kola- og stálbandalagið). Kol og stál voru á þeim tíma mikilvægustu hráefnin til framleiðslu hergagna og var ætlunin að ráðast að rót þess meins sem hafði verið undirliggjandi hvati fyrir átökum innan álfunnar á liðnum öldum, það er samkeppni Þýskalands og Frakklands um yfirráð og aðgang að þessum auðlindum.

Árið 1956 undirrituðu aðildarríki Kola- og stálbandalagsins Rómarsáttmálana sem komu á fót Efnahagsbandalagi Evrópu og Kjarnorkubandalagi Evrópu en þessi þrjú bandalög urðu seinna að Evrópusambandinu. Með stofnun Efnahagsbandalags Evrópu, sem var fyrst og fremst tollabandalag, varð efnahagssamvinna kjarni samstarfs þessara ríkja. Meginmarkmið efnahagssamvinnunar var að skapa sameiginlegan innri markað, bæði til að tengja hagkerfi aðildarríkjanna saman, til að útiloka að eitthvert ríkjanna gæti talið sig hafa hag af því að fara í stríð við annað aðildarríki bandalagsins og til þess að auka velferð íbúa ríkjanna.


Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins undirrita Lissabon-sáttmálann, 13. desember 2007, sem er sá síðasti í röð sáttmála sem gerðir hafa verið til að breyta stofnsáttmálum Evrópusambandsins.

Í lagalegum skilningi felst ákveðið framsal á fullveldi í stofnun tollabandalags, þar sem forræði á viðskiptastefnu aðildarríkjanna gagnvart þriðju ríkjum færist til bandalagsins sjálfs. Við gerð sáttmálans um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu var hins vegar gengið lengra varðandi framsal fullveldis heldur en felst í ofangreindri lagalegri skilgreiningu á tollabandalagi. Með hliðsjón af vægi undirliggjandi markmiða sáttmálanna töldu höfundar þeirra að nauðsynlegt væri að ganga enn lengra varðandi yfirþjóðlegt eðli þeirra. Í því fólst meðal annars að ákveðnum reglum, sem samþykktar voru af sameiginlegum stofnunum bandalaganna, var ætlað að hafa bein réttaráhrif í landsrétti aðildarríkjanna. Ennfremur voru framkvæmdarstjórninni falin svipuð völd, í vissum málaflokkum, og fulltrúum framkvæmdarvalds í aðildarríkjunum, til að mynda í samkeppnismálum og kola- og stálframleiðslu. Því er eðli sáttmálanna ólíkt flestum, ef ekki öllum, svæðisbundnum og alþjóðlegum samningum og sáttmálum.

Dómstóll Evrópusambandsins hóf snemma að þróa lagaleg úrræði og meginreglur til þess að ná fram fyrrgreindum markmiðum sáttmálanna en það hefur orðið til þess að auka sérstöðu þeirra enn frekar. Einn frægasti dómur dómstóls Evrópusambandsins var í svokölluðu Van Gend en Loos-máli (Case 26/62 [1963] ECR 1), þar sem dómstóllinn lýsti því að sáttmálinn um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu gæti haft bein réttaráhrif í landsrétti aðildarríkjanna, en það er eiginleiki sem almennir milliríkjasamningar hafa ekki. Rökstuðningur dómstólsins, sem lýsir sérstöðu sáttmálans, vísaði meðal annars til aðfararorða samningsins þar sem fram kemur að markmið hans sé að stuðla að æ nánara bandalagi milli þjóða Evrópu. Ennfremur að sáttmálinn feli í sér réttindi til handa einstaklingum og að stjórnkerfið, sem sett var á fót með sáttmálanum, væri lýðræðislegt þar sem lýðræðislegur vilji borgaranna endurspeglaðist í Evrópuþinginu og efnahags- og félagsmálanefndinni. Þessi sérstaða sáttmálanna leiddi til þess að dómstóllinn lýsti því yfir að sáttmálinn væri sérstaks eðlis og lagði þar með grunninn að stjórnskipulegum meginreglum Evrópuréttar sem eru annars eðlis en í almennum þjóðarétti.

Aðildarríki Evrópusambandsins hafa með tímanum víkkað út gildissvið sáttmálanna, þannig að æ fleiri svið samfélagsins heyra undir hann. Á sama tíma hefur dómstóll Evrópusambandsins haldið áfram að þróa stjórnskipunarrétt sambandsins, sem hefur haft þær afleiðingar að reglur sáttmálans og afleiddar reglur Evrópuréttar hafa sífellt meiri virkni innan aðildarríkjanna. Þessi þróun hefur haft þau áhrif að fræðimenn lýsa Evrópusambandinu oft sem nokkurs konar blöndu af alþjóðastofnun og sambandsríki. Sáttmálinn um Evrópusambandið og sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins endurspegla þetta að mörgu leyti, eins og þeim var breytt með Lissabon-sáttmálanum árið 2009, en þeir eru að stórum hluta líkari stjórnarskrá en stofnskrá alþjóðastofnunar. Þannig fjalla þeir meðal annars um ríkisborgararétt, valdmörk sambandsins gagnvart aðildarríkjunum auk þess sem mannréttindayfirlýsing Evrópusambandsins varð þar með hluti af sáttmálum sambandsins.

Upprunalega spurninging hljóðaði svona:

Hvert er eðli EES samningsins og EB samningsins?

Mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela