Spurning

Hvert er eðli EES-samningsins?

Spyrjandi

Finnur Ólafsson

Svar

EES-samningurinn og ESB-sáttmálarnir hafa þá sérstöðu að vera algjörlega sérstaks eðlis (lat. sui generis). Með öðrum orðum: Ekki eru til neinir sambærilegir samningar. Eðli þeirra er því ekki hægt að skýra með samanburði við aðra samninga eða með almennum hugtökum sem notuð eru til að lýsa milliríkjasamningum (eins og til dæmis mannréttindasamningar eða fríverslunarsamningar). Þar af leiðandi þarf að skýra eðli þessara samninga með því að gera grein fyrir þeim sjálfum. Í þeim tilgangi má meðal annars líta til sögulegra skýringa fyrir gerð þeirra sem og markmiða og inntaks þeirra lagareglna sem er að finna í samningunum.

Í þessu svari er fjallað um hið sérstaka eðli EES-samningsins en sami höfundur hefur einnig svarað spurningunni Hvert er eðli ESB-sáttmálanna?

***

Aðildarríki EFTA ákváðu af ýmsum ástæðum (svo sem vegna hlutleysisstefnu og andstöðu við framsal á fullveldi til alþjóðastofnana) að halda sig utan þeirrar nánu samvinnu Evrópuríkja sem komið var á fót með stofnun Kola- og stálbandalagsins og seinna með sáttmálunum um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu og Kjarnorkubandalags Evrópu. Ríkin stofnuðu fríverslunarsvæði sín á milli með EFTA-samningnum árið 1960, sem hafði meðal annars það markmið að vera mótvægi við Efnahagsbandalag Evrópu, eins og Evrópusambandið hét þá. Þróunin varð þó sú að mörg EFTA-ríkjanna urðu seinna aðilar að Evrópusambandinu, en sökum þess hve mikilvægir útflutningsmarkaðir Evrópusambandsríkin voru fyrir EFTA-ríkin varð sífellt erfiðara fyrir þau að standa utan sambandsins. Á sama tíma voru EFTA-ríkin mikilvægir pólitískir bandamenn og viðskiptaríki Evrópusambandsins.

Þessi þróun sem og breytingar á pólitísku landslagi Evrópu leiddi til þess, á seinni hluta 8. áratugar síðustu aldar, að sú hugmynd varð til að byggja brú á milli viðskiptablokkanna tveggja (EFTA og EB) og mynda einn evrópskan markað. Úr varð EES-samningurinn sem var undirritaður árið 1992. Í lagalegum skilningi er EES-samningurinn fríverslunarsamningur sem tengir EFTA-ríkin við innri markað Evrópusambandsins. Ólíkt tollabandalagi Evrópusambandsins er efnislegt gildissvið hans þó takmarkað, til að mynda falla viðskipti með fiskafurðir að mestu utan EES-samningsins.


Frá fundi fastanefndar EFTA, 9. desember 2010, frá vinstri Bergdís Ellertsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, og Kåre Bryn, framkvæmdastjóri EFTA, Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum við ESB, og Nikulás Hannigan, sendifulltrúi sendinefndar Íslands til ESB.

Helstu markmið þeirra sem stóðu að gerð EES-samningsins af hálfu EFTA-ríkjanna voru tvö:
  • Að tryggja að EFTA-ríkin gætu tekið þátt í innri markaði Evrópusambandsins á sömu forsendum og aðildarríkin sjálf. Sá réttur er tryggður með EES-samningnum en í honum felst jafnframt gagnkvæmni þess eðlis að EFTA-ríkin taka á sig sambærilegar skuldbindingar og Evrópusambandsríkin gera. Þannig skuldbundu EFTA-löndin sig (að undanskildu Sviss sem er EFTA-ríki en ekki aðili að EES-samningnum) til þess að taka upp í landsrétt fjórfrelsisreglur Evrópuréttarins, samkeppnisreglur, reglur um opinber innkaup og reglur á sviði svokallaðra láréttra málaflokka, svo sem neytenda- og umhverfisvernd. Þetta á ekki bara við um reglurnar eins og þær voru á þeim tíma þegar EES-samningurinn var undirritaður, heldur tekur sameiginlega EES-nefndin ákvarðanir í hverjum mánuði um innleiðingu nýrra afleiddra reglna Evrópusambandsins sem falla undir EES-samninginn (en EFTA-ríkin njóta þó vissra undanþága).
  • Að standa vörð um að framsal fullveldis yrði takmarkað og innan þeirra marka sem talið var standast stjórnskipunarreglur Norðurlandanna. Þetta markmið endurspeglast í bókun 35 við EES-samninginn þar sem kemur fram að samningurinn feli ekki í sér framsal á löggjafarvaldi. Gagnkvæmni samningsins endurspeglast þó einnig í sömu bókun þar sem segir að ef til árekstrar komi á milli EES-reglna og annarra laga í EFTA-ríkjunum skuldbindi þau sig til að setja lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. Þessi regla endurspeglar meginreglu Evrópuréttar um forgangsáhrif.

Sérstaða EES-samningsins er þó helst fólgin í einsleitnismarkmiði hans. Einsleitni er helsta meginregla EES-réttar og endurspeglast með ýmsu móti í samningnum. Í einfaldaðri mynd felur reglan í sér að EES-samningurinn á að endurspegla það réttarástand sem er í gildi í Evrópusambandinu á hverjum tíma á þeim sviðum sem falla undir samninginn. Ekki aðeins skulu sömu efnisreglur gilda á hverjum tíma heldur ber að túlka þær og beita þeim með sem líkustum hætti. Þessu hefur stundum verið lýst þannig að í stað þess að taka ljósrit af sáttmálum Evrópusambandsins þá hafi höfundar EES-samningsins ákveðið að gera kvikmynd – til þess að geta fylgt eftir þeirri hröðu þróun sem á sér stað innan Evrópusambandsins.

Einsleitnismarkmið EES-samningsins var ein meginástæða þess að EFTA-dómstóllinn lýsti því yfir að EES-samningurinn væri sérstaks eðlis í svonefndu Erlu Maríu-máli (E-9/97). Dómstóllinn hefur frá upphafi talið að margar af þeim stjórnskipulegu meginreglum sem hafa verið þróaðar af dómstól Evrópusambandsins eigi við í EES-rétti, með ákveðnum aðlögunum sem leiða af því að EES-samningurinn felur ekki í sér framsal löggjafarvalds. Þess vegna hafa margir fræðimenn talið að þrátt fyrir að EES-samningurinn og ESB-sáttmálarnir séu ólíkir þá sé þýðing þeirra nánast sú sama gagnvart einstaklingum sem vilja byggja rétt á þeim í landsrétti.

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela