Spurning

Hefur eftirlitsstofnun EFTA jafnan rétt til meðalgöngu fyrir dómstól Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn ESB fyrir EFTA-dómstólnum?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Árið 2010 kvað forseti dómstóls Evrópusambandsins upp þann úrskurð að eftirlitsstofnun EFTA hefði ekki rétt til meðalgöngu í málum sem rekin væru milli aðildarríkja ESB, milli stofnana ESB eða milli aðildarríkja annars vegar og stofnana sambandsins hins vegar. Þessi úrskurður hefur í för með sér að framkvæmdastjórn ESB og eftirlitsstofnun EFTA hafa ekki gagnkvæman rétt til meðalgöngu í málum fyrir EFTA-dómstólnum og dómstól Evrópusambandsins.

***

Stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins er að finna í bókun við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sem var undirritaður á sama tíma og EES-samningurinn í maí 1992. Um réttinn til meðalgöngu segir í 36. grein:

EFTA-ríki, eftirlitsstofnun EFTA, bandalagið og framkvæmdastjórn EB hafa rétt til meðalgöngu í málum fyrir dómstólnum.

Sama rétt hafa einstaklingar sem hafa hagsmuna að gæta við úrlausn mála er lögð hafa verið fyrir dómstólinn, þó ekki í málum milli EFTA-ríkjanna eða milli EFTA-ríkjanna og eftirlitsstofnunar EFTA.

Til að styrkja lagalega einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu var nauðsynlegt að EFTA-ríkin og eftirlitsstofnun EFTA hefðu sambærilegan rétt fyrir dómstól Evrópusambandsins. Í sérstakri yfirlýsingu við EES-samninginn lýsti Evrópubandalagið, eins og Evrópusambandið hét þá, þar af leiðandi yfir að það mundi breyta ákvæðum stofnsamþykktar dómstóls Evrópubandalagsins, annars vegar um réttinn til að leggja fram skriflegar athugasemdir við dóminn (þá 20. gr. stofnsamþykktar dómstóls Evrópubandalagsins) og hins vegar um réttinn til meðalgöngu (þá 37. gr. stofnsamþykktar dómstóls Evrópubandalagsins).


José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Ode Helen Sletnes, forseti eftirlitsstofnunar EFTA.

Slík breyting var þó fyrst gerð þegar sáttmálum Evrópusambandsins var breytt með Nice-samkomulaginu. Breytingarnar gengu í gildi árið 2003 og fólu meðal annars í sér nýja stofnsamþykkt fyrir dómstól Evrópusambandsins (nú bókun 3 við sáttmála Evrópusambandsins). Við meðalgönguákvæði stofnsamþykktarinnar (40. grein) var þá bætt 3. milligrein:

Aðildarríki og stofnanir sambandsins hafa rétt til meðalgöngu í málum fyrir dómstólnum.

Sama rétt hafa aðilar, skrifstofur og sérstofnanir sambandsins svo og aðrir þeir sem geta sýnt fram á að þeir hafi hagsmuna að gæta við úrlausn máls er lagt hefur verið fyrir dómstólinn. Einstaklingar og lögaðilar mega ekki ganga inn í mál sem rekið er milli aðildarríkja, milli stofnana sambandsins eða milli aðildarríkja annars vegar og stofnana sambandsins hins vegar.

Með fyrirvara um aðra málsgrein geta ríkin, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en eru ekki aðildarríki, og eftirlitsstofnun EFTA, sem um getur í þeim samningi, gengið inn í mál fyrir dómstólnum svo fremi málið heyri undir gildissvið þess samnings.

Í skýringarritum við sáttmála Evrópusambandsins (sjá til að mynda Groeben og Schwarze, 2003) hefur meðalgönguákvæðið verið túlkað þannig að EFTA-ríkin og eftirlitsstofnun EFTA hafi:

  1. Sama rétt til meðalgöngu og aðildarríki og stofnanir ESB í þeim málum sem heyra undir gildissvið EES-samningsins (3. mgr.), og
  2. geti í öðrum málum haft meðalgöngu á sömu forsendum og aðrir aðilar í samræmi við 2. mgr.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur ítrekað nýtt sér rétt sinn til meðalgöngu í málum fyrir dómstól Evrópusambandsins (sjá til að mynda Árskýrslu 2010, bls. 52, og Ársskýrslu 2011, bls. 52). Í apríl 2010 krafðist stofnunin þess þó í fyrsta sinn að hafa meðalgöngu (á grundvelli 3. mgr. 40 gr.) í máli framkvæmdastjórnarinnar gegn tilteknu aðildarríki (Portúgal), vegna gruns um brot þess á skuldbindingum sínum samkvæmt sáttmálum ESB (mál C-439/09). Beiðni eftirlitsstofnunarinnar var hins vegar hafnað með úrskurði forseta dómstóls Evrópusambandsins.

Forsetinn færði þau rök fyrir ákvörðun sinni að 3. mgr. 40. greinar, um rétt eftirlitsstofnunar EFTA til meðalgöngu í málum á gildissviði EES-samningsins, eigi aðeins við með fyrirvara um þá takmörkun, sem skilgreind er í 2. mgr. 40. greinar, á rétti einstaklinga og lögaðila til meðalgöngu. Þar eð umrætt mál sé rekið milli stofnunar ESB annars vegar og aðildarríkis hins vegar hafi eftirlitsstofnunin því ekki rétt til meðalgöngu í málinu. Þar með féllst forsetinn á rökstuðning Portúgala, sem höfðu lagst gegn meðalgöngu eftirlitsstofnunar EFTA í málinu.

Forseti dómstóls Evrópusambandsins túlkaði meðalgönguákvæðið þar með á þann hátt að EFTA-ríkin og eftirlitsstofnun EFTA geti aldrei gengið inn í mál sem rekið er milli aðildarríkja, milli stofnana sambandsins eða milli aðildarríkja annars vegar og stofnana sambandsins hins vegar. Í málum sem rekin eru milli annarra aðila en ofantalinna geti þau óskað eftir meðalgöngu á gildissviði EES-samningsins (3. mgr. 40. gr.) og utan gildissviðs samningsins ef þau geta sýnt fram á að eiga sérstakra hagsmuna að gæta (2. mgr. 40. gr.).

Þessi túlkun hefur í för með sér að eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn ESB hafa ekki gagnkvæman rétt til meðalgöngu í málum fyrir dómstólum EFTA og ESB. Einsleitni í málsmeðferðarreglum fyrir EFTA-dómstólnum og dómstól Evrópusambandsins er því ekki til að dreifa, eins og ríkisstjórn Íslands benti á í athugasemdum sínum til EFTA-dómstólsins vegna kröfu framkvæmdastjórnarinnar um að hafa meðalgöngu í svonefndu Icesave-máli. Það er því ekki nóg með að túlkunin stangist á við þann skilning sem fræðimenn hafa lagt í orðanna hljóðan heldur má færa fyrir því gild rök að hún stríði gegn markmiði EES-samningsins um einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu og yfirlýstum vilja samningsríkjanna til að styrkja lagalega einsleitni á svæðinu sem nánar er fjallað um í svari við spurningunni Af hverju vill framkvæmdastjórn ESB gerast aðili að málarekstri eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi?

Höfundur þakkar Stefáni Má Stefánssyni, prófessor í lögum, fyrir yfirlestur og ábendingar.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.4.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hefur eftirlitsstofnun EFTA jafnan rétt til meðalgöngu fyrir dómstól Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn ESB fyrir EFTA-dómstólnum?“. Evrópuvefurinn 20.4.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62445. (Skoðað 6.11.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela