Spurning

Af hverju vill framkvæmdastjórn ESB gerast aðili að málarekstri eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi?

Spyrjandi

Jón Ingólfur Magnússon

Svar

Krafa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að hafa meðalgöngu í máli eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi í svonefndu Icesave-máli er í fullu samræmi við reglur og markmið EES-samstarfsins og þarf ekki að koma á óvart í ljósi málavaxta. Ákvörðunin ber þess vitni að framkvæmdastjórnin telur sig hafa hagsmuna að gæta í málinu enda má ætla að niðurstaða dómsins varðandi túlkun tilskipunarinnar um innstæðutryggingar geti haft víðtæk áhrif á evrópskan fjármálamarkað. Ákvörðunin vekur þó athygli á ójöfnum rétti eftirlitsstofnunar EFTA annars vegar og framkvæmdastjórnarinnar hins vegar til meðalgöngu í málum fyrir dómstól Evrópusambandsins og EFTA-dómstólnum.

***

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur það markmið að mynda einsleitt efnahagssvæði sem byggist á sömu reglum (1. gr. EES-samningsins). Samræmi í beitingu og túlkun sameiginlegra reglna EES-samningsins, og þeirra ákvæða í löggjöf ESB sem tekin eru efnislega upp í þann samning, er forsenda þess að markmiðið um einsleitt efnahagssvæði náist.

Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórnin annars vegar og EFTA-dómstóllinn og dómstóll Evrópusambandsins hins vegar gegna svipuðum hlutverkum í stofnanauppbyggingu EES-samningsins. Tvær fyrrnefndu stofnanirnar hafa á sinni könnu eftirlit með framkvæmd og beitingu sameiginlegra reglna; eftirlitsstofnun EFTA með tilliti til EFTA/EES-ríkjanna og framkvæmdastjórnin með tilliti til ESB-ríkjanna. Dómstólarnir tveir hafa úrskurðarvald um túlkun EES-samningsins og annarra sameiginlegra reglna þegar til ágreinings kemur. EFTA-dómstóllinn hefur dómsvald yfir EFTA/EES-ríkjunum og dómstóll Evrópusambandsins yfir aðildarríkjum ESB.


Í núverandi stjórn eftirlitsstofnunar EFTA eru Sabine Monauni-Tömördy, Oda Helen Sletnes og Sverrir Haukur Gunnlaugsson.

Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórnin eru þannig í raun tvær hliðar á sama peningnum. Hvor um sig hefur meðal annars það hlutverk að leggja fram rökstutt álit sitt ef hún telur að tiltekið aðildarríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum (eftirlitsstofnun EFTA) eða sáttmálum ESB (framkvæmdastjórnin) og getur, ef viðkomandi ríki hlítir ekki álitinu, farið með málið fyrir EFTA-dómstólinn (eftirlitsstofnun EFTA) eða dómstól Evrópusambandsins (framkvæmdastjórnin) (31. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og 258. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins).

Í EES-samningnum segir þar að auki að „til að tryggja samræmt eftirlit á öllu Evrópska efnahagssvæðinu skulu eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB hafa samstarf sín í milli, skiptast á upplýsingum og ráðgast hvor við aðra um stefnu í eftirlitsmálum og einstök mál“ (2. mgr. 109. gr. EES-samningsins). Það er því í fullu samræmi við EES-samninginn að framkvæmdastjórnin og eftirlitsstofnun EFTA leggi hvor annarri lið við höfðun máls gegn tilteknu aðildarríki þegar grunur leikur á að reglur samningsins hafi verið brotnar.

Framkvæmdastjórnin getur komið sjónarmiðum sínum á framfæri um mál sem eru til meðferðar hjá EFTA-dómstólnum eftir tveimur leiðum. Annars vegar með því að leggja fram skriflegar athugasemdir (sbr. 20. gr. stofnsamþykktar EFTA-dómstólsins) en leit í dómasafni EFTA-dómstólsins leiðir í ljós að slíkt er í raun almenna reglan. Hins vegar getur framkvæmdastjórnin krafist þess að hafa aðkomu að málum með svonefndri meðalgöngustefnu (sbr. 36. gr. stofnsamþykktar EFTA-dómstólsins). Með meðalgöngu fær framkvæmdastjórnin að leggja fram greinargerð með málsástæðum, lagarökum til stuðnings rökum annars málsaðila, og sönnunargögnum.

Það er á grundvelli réttarins til meðalgöngu sem framkvæmdastjórnin hefur farið fram á að gerast aðili að málarekstri eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi í Icesave-málinu en engin fordæmi eru fyrir slíkri aðkomu framkvæmdastjórnarinnar að máli fyrir EFTA-dómstólnum. Ákvörðunin ber þess vitni að framkvæmdastjórnin telur sig hafa hagsmuna að gæta í málinu. Niðurstaða dómsins varðandi túlkun tilskipunarinnar um innstæðutryggingar getur haft víðtæk áhrif á evrópskan fjármálamarkað eftir því hver hún verður. Þar að auki hefur verið tekist á um endurskoðun umræddrar tilskipunar innan stofnana Evrópusambandsins á undanförnum árum og sér ekki fyrir endann á því ferli. Túlkun EFTA-dómstólsins á tilskipuninni er líkleg til að geta haft áhrif á endurskoðunina sem og þann hátt sem aðildarríkin munu hafa á innleiðingu nýju tilskipunarinnar.

Samandregið má því segja að það sé í samræmi við framangreindar reglur og markmið EES-samningsins að framkvæmdastjórnin krefjist meðalgöngu í máli eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi í Icesave-málinu. Á hinn bóginn er eftirtektarvert í þessu sambandi að þegar eftirlitsstofnun EFTA krafðist þess í fyrsta sinn, árið 2010, að hafa meðalgöngu í samningsbrotamáli framkvæmdastjórnarinnar gegn aðildarríki (Portúgal) var kröfunni hafnað. Forseti dómstóls Evrópusambandsins kvað upp þann úrskurð að eftirlitsstofnun EFTA hefði engan rétt til meðalgöngu í máli sem rekið væri milli aðildarríkis ESB annars vegar og stofnunar ESB hins vegar. Í ljósi ofangreinds markmiðs EES-samningsins um einsleitni á evrópska efnahagssvæðinu skýtur þessi niðurstaða skökku við en meira má lesa um það í svari við spurningunni Hefur eftirlitsstofnun EFTA jafnan rétt til meðalgöngu fyrir dómstól Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn ESB fyrir EFTA-dómstólnum?

Höfundur þakkar Stefáni Má Stefánssyni, prófessor í lögum, fyrir yfirlestur og ábendingar.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela