Spurning

Meðalgöngustefna

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Meðalgöngustefna (e. application to intervene) er réttarfarsúrræði sem heimilar aðila að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Í svonefndu Icesave-máli eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum gerði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að mynda kröfu um að hafa meðalgöngu.

Í 36. grein stofnsamþykktar EFTA-dómstólsins segir:

EFTA-ríki, eftirlitsstofnun EFTA, bandalagið og framkvæmdastjórn EB hafa rétt til meðalgöngu í málum fyrir dómstólnum.

Sama rétt hafa einstaklingar sem hafa hagsmuna að gæta við úrlausn mála er lögð hafa verið fyrir dómstólinn, þó ekki í málum milli EFTA-ríkjanna eða milli EFTA-ríkjanna og eftirlitsstofnunar EFTA.

Svipað ákvæði er að finna í 40. grein stofnsamþykktar dómstóls Evrópusambandsins (bókun 3 við sáttmálann um starfshætti Evrópusambandsins) en þar er meðal annars kveðið á um rétt EFTA-ríkjanna og eftirlitsstofnunar EFTA til meðalgöngu í málum fyrir dómstól Evrópusambandsins. Ákvæðið hefur þó verið túlkað mjög þröngt og er réttur þeirra til meðalgöngu fyrir dómstól Evrópusambandsins ekki sambærilegur við rétt framkvæmdastjórnarinnar fyrir EFTA-dómstólnum eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hefur eftirlitsstofnun EFTA jafnan rétt til meðalgöngu fyrir dómstól Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn ESB fyrir EFTA-dómstólnum?

Samkvæmt Leiðbeiningarreglum fyrir lögmenn við skriflegan og munnlegan málflutning fyrir EFTA-dómstólnum verður sá sem óskar eftir því að gerast meðalgönguaðili í máli að leggja fram kröfu um meðalgöngu.

Það skjal verður að geyma allar þær upplýsingar sem þörf er á til að gera forseta, eða í sumum tilvikum dómstólnum, kleift að ákveða hvort meðalgangan skuli heimiluð. Áður en forseti eða dómstóllinn tekur ákvörðun um kröfuna er aðilum gefinn kostur á að skila skriflegum athugasemdum og, ef sérstaklega stendur á, munnlegum athugasemdum um það hvort leyfa eigi meðalgönguna. Á sama tíma er óskað eftir því að aðilar upplýsi dómstólinn um það hvort þeir hyggist fara fram á að trúnaðarskjöl verði ekki afhent (3. mgr. 89. gr. starfsreglna EFTA-dómstólsins). Ef meðalganga er heimiluð er meðalgönguaðila gefinn kostur á að skila athugasemdum sínum, sem ekki er farið með sem trúnaðarskjöl.

Þegar meðalganga hefur verið heimiluð skal meðalgönguaðili leggja fram greinargerð þar sem fram kemur:
  • Kröfugerð meðalgönguaðila, til stuðnings eða til að mótmæla, að hluta eða öllu leyti, kröfum eins aðila málsins,
  • málsástæður og lagarök, sem meðalgönguaðili byggir á,
  • hvers konar sönnunargögn eru færð fram, ef við á.

Eftir það má gefa aðilum málsins kost á að gera athugasemdir, ef það er talið nauðsynlegt (5. mgr. 89. gr. starfsreglna EFTA-dómstólsins). Lagarök í stefnu um meðalgöngu mega ætíð einungis styðja lagarök annars málsaðilans.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.4.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Meðalgöngustefna“. Evrópuvefurinn 20.4.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62380. (Skoðað 18.9.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela