Spurning

Eru einhver tímamörk á aðildarviðræðunum eða geta þær verið "endalausar"?

Spyrjandi

Hólmfríður Þóroddsdóttir

Svar

Nei, það eru engin tímamörk á aðildarviðræðunum. Að minnsta kosti eru engir tímafrestir nefndir í opinberum gögnum málsins, hvorki af hálfu Íslands né Evrópusambandsins. Viðræðurnar munu því vara svo lengi sem þeim lýkur ekki með undirritun aðildarsamnings eða vegna þess að annar aðilinn slítur þeim.

***

Í opinberum gögnum varðandi aðildarumsókn og -viðræður Íslands við Evrópusambandið eru engir tímafrestir nefndir, hvorki af hálfu Íslands né Evrópusambandsins. Þessi gögn eru meðal annars tillaga utanríkisráðherra til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, þingsályktunin um aðildarumsókn að Evrópusambandinu eins og hún var samþykkt á Alþingi 16. júlí 2009 sem og hin formlega umsókn Íslands um aðild, dagsett sama dag.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar, sem vísað er til í þingsályktuninni sem leiðbeininga um verklag og meginhagsmuni við undirbúning og skipulag viðræðnanna, er ekkert tekið fram um að viðræðunum skuli ljúka fyrir tiltekinn tíma eða innan tiltekins tíma. Á einum stað, í yfirferð fjárlagaskrifstofu á kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknar að ESB (Fylgiskjal V), kemur hins vegar fram að utanríkisráðuneytið miði við að aðildarviðræður gætu hafist í upphafi árs 2010 og lokið um mitt ár 2011 og því tekið um það bil 18 mánuði. Þetta ber þó ekki að skilja sem einhvers konar tímamörk heldur einungis mat – sem þegar á hólminn var komið reyndist ekki raunhæft.


Þórir Ibsen sendiherra Íslands gagnvart ESB í Brussel, Štefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands og Timo Summa sendiherra ESB á Íslandi.

Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fyrir Alþingi í apríl 2012, var það sett fram sem markmið að fyrir lok ársins 2012 yrði búið að opna alla samningskaflana 33. Þar kom einnig fram að ætla megi „að í lok árs hafi skapast skýrari mynd af því hvenær unnt verður að ljúka viðræðunum. Miðað við aðstæður nú má ljóst vera að þeim mun ekki ljúka fyrir kosningar [...].“ (sjá bls. 23).

Aðildarviðræðurnar höfðu staðið í 31 mánuð (frá 17. júní 2010) þegar ríkisstjórnin tók þá ákvörðun þann 14. janúar 2013 að hægja á viðræðunum fram yfir komandi þingkosningar og opna ekki fleiri kafla fyrr en að þeim loknum. Enn á eftir að opna sex kafla af 33, þeirra á meðal títtnefnda „erfiða kafla“ um landbúnað og sjávarútveg sem og kaflana um staðfesturétt og þjónustufrelsi, frjálsa fjármagnsflutninga, matvælaöryggi og dóms- og innanríkismál. Samningsafstaða hefur verið afhent í 29 köflum, sú síðasta í desember 2012 (sjá upplýsingar utanríkisráðuneytisins um stöðu viðræðnanna).

Í gögnum Evrópusambandsins um aðildarumsókn og -viðræður eru heldur engir tímafrestir nefndir. Slíkt hefur enda ekki tíðkast í viðræðum sambandsins við umsóknarríki. Til þessa hefur aðildarviðræðum allra umsóknarríkja lokið með undirritun aðildarsamnings þótt þau hafi ekki öll orðið aðildarríki, en Norðmenn hafa í tvígang hafnað aðildarsamningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um lengd viðræðna núverandi ESB-ríkja er fjallað í svari við spurningunni Hversu langan tíma að meðaltali tóku aðildarviðræður ríkjanna í ESB?


Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, ásamt Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, á fundi þann 8. nóvember 2011.

Dæmi eru um að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðum, án þess að umsókn hafi verið dregin til baka, og þær teknar upp aftur síðar. Þannig hætti Evrópusambandið til að mynda viðræðum við Króatíu um nokkurra mánaða skeið árið 2009 vegna landamæradeilu Króata við Slóveníu, sem þá var orðið aðildarríki. Viðræður hófust að nýju eftir að löndin höfðu komist að samkomulagi sín á milli.

Tvö umsóknarríki til viðbótar við Ísland eiga nú í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, Tyrkland og Svartfjallaland. Viðræður Svartfjallalands eru skammt á veg komnar en þær hófust í júní 2012. Aðildarviðræður Tyrklands hófust í október 2005 en frá því í lok árs 2006 má segja að viðræðurnar hafi verið á ís. Evrópusambandið neitaði þá að opna átta samningskafla og lýsti því yfir að engum kafla yrði lokað nema tilteknar framfarir verði í samskiptum Tyrklands og Kýpur. Ekki er þó talið líklegt að Evrópusambandið muni slíta viðræðunum alfarið, jafnvel þótt mjög skiptar skoðanir séu um hugsanlega aðild Tyrklands að sambandinu í aðildarríkjunum. Tyrkir hafa til þessa heldur ekki dregið umsókn sína til baka og því er alls óvíst hve lengi þær munu dragast á langinn eða hvort þær verði "endalausar".

Ljóst er að viðræðum Tyrkja við Evrópusambandið, rétt eins og aðildarviðræðum Íslendinga, mun ekki ljúka nema með undirritun aðildarsamnings eða vegna þess að annar aðilinn slítur þeim.

Myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela