Spurning

Hvaða Evrópulönd eru ekki í ESB og hvers vegna?

Spyrjandi

Þorgeir Lárus Árnason, f. 1992

Svar

Sérhvert evrópskt ríki, sem virðir grundvallargildi réttarríkisins, frelsi, lýðræði og mannréttindi, − þau sameiginlegu gildi, sem Evrópusambandið (ESB) byggist á - getur sótt um aðild að ESB. Ekkert land verður þó aðili að ESB nema með gagnkvæmu samþykki sínu og sambandsins og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum (Kaupmannahafnarviðmiðin). Þau eru:
  • stöðugt stjórnarfar og stofnanir, sem tryggja lýðræði, réttarríki, mannréttindi og vernd minnihlutahópa;
  • virkt markaðshagkerfi, sem hefur burði til að takast á við þá samkeppni, sem fylgir þátttöku á innri markaði ESB;
  • geta og vilji til að samþykkja og innleiða regluverk ESB og grundvallarmarkmið sambandsins í stjórnmálum og efnahagsmálum.


Löndin sem eru græn að lit eru í ESB, hin ekki.

Löndunum utan sambandsins má skipta í annars vegar þau ríki, sem ESB hefur einhvern tímann lofað möguleikanum á aðild, og hins vegar þau ríki, sem ekki hafa fengið slíkt loforð.

  1. Í fyrrnefnda hópnum eru níu sjálfstæð ríki auk Kosóvó (en formleg staða þess er ekki komin á hreint þegar þetta er skrifað í júní 2011). Þessi hópur skiptist í þrennt:
    1. Í fyrsta lagi fjögur formleg umsóknarlönd (e. candidate countries) Tyrkland, Makedónía, Svartfjallaland (Montenegro) og Ísland. Formlegar samningaviðræður hafa þegar hafist við Tyrkland og Ísland en ekki hefur verið ákveðið hvenær viðræður hefjast við Makedóníu og Svartfjallaland. Grikkir hafa opinberlega sagst munu standa í vegi fyrir aðild Makedóníu svo lengi sem svokölluð nafnadeila ríkjanna tveggja er enn óleyst, en Grikkir telja að nafnið Makedónía bendi til þess að Makedóníumenn ásælist (e. territorial ambition) samnefnt landsvæði í Norður-Grikklandi. Taflan hér á eftir sýnir helstu tímasetningar í umsóknarferli þessara landa:
    2. Umsókn lögð inn Umsókn viðurkennd Viðræður hefjast
      Tyrkland 14/4 1987 12/12 1999 3/10 2005
      Makedónía 22/3 2004 16/12 2005 óvíst
      Svartfjallaland 15/12 2008 17/12 2010 óvíst
      Albanía 28/4 2009
      Ísland 23/7 2009 17/6 2010 27/7 2010
      Serbía 22/12 2009

    3. Í fyrri hópnum eru einnig þrjú sjálfstæð ríki sem sækjast eftir aðild og ESB hefur opinberlega viðurkennt sem hugsanleg umsóknarlönd. Þetta eru Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Serbía auk Kosóvó. Um aðild þessara landa auk Makedóníu og Svartfjallalands hefur ESB þróað sérstakt Stöðugleika- og samstarfsferli (Stabilisation and Association Process). Þannig hafa verið gerðir sérstakir stöðugleika- og samstarfssamningar (Stabilisation and Association Agreements) við hvert þessara landa, með það að markmiði að undirbúa þau undir aðild. Albanía og Serbía hafa í reynd sótt um aðild að ESB og er þeirra því getið í töflunni, en þau hafa hins vegar ekki fengið viðurkenningu sem formleg umsóknarlönd. Meðal helstu skilyrða fyrir aðild Serbíu má nefna samvinnu við Alþjóðaglæpadómstólinn fyrir fyrrum Júgóslavíu (International Criminal Tribunal for the former Yugoslavia, ICTY). Mikilvægt skref á leið Serbíu til aðildar var því tekið með handtöku Ratko Mladic, fyrrum yfirherforingja Bosníu-Serba, þann 26. maí 2011.
    4. Tvö ríki hafa einhvern tímann sótt um aðild, en sækjast ekki eftir því á þessari stundu. Noregur hefur fjórum sinnum sótt um aðild að ESB. Tvisvar lauk ferlinu með því að Frakkar beittu neitunarvaldi, tvisvar luku Norðmenn aðildarviðræðum við ESB og höfnuðu jafnoft aðildarsamningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sviss sótti um aðild að ESB árið 1992, en setti umsóknina á ís í kjölfar þess að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu sama ár. − Þessi lönd eiga þó bæði í nánu samstarfi við ESB, Noregur í EES og Schengen og Sviss með níu tvíhliða samningum við ESB og í Schengen.

  2. Í hópi þeirra Evrópulanda, sem ekki hefur beinlínis verið lofað möguleikanum á aðild, eru 12 lönd.
    1. Fyrst má telja fimm smæstu smáríki eða örríki álfunnar, það eru Andorra, Liechtenstein, Mónakó, Páfagarður (Vatíkanið) og San Marínó. Ekkert þessara landa hefur nokkru sinni sótt um aðild að ESB, en öll eiga þau í nánu samstarfi við sambandið. Liechtenstein er aðili að EES, sem veitir því aðgang að innri markaði sambandsins, og einnig formlegur aðili að Schengen-samkomulaginu. Mónakó, Páfagarður og San Marínó hafa gert samkomulag við ESB um að nota evru sem gjaldmiðil og að slá myntina sjálf eins og önnur lönd evrusvæðisins. Þessi lönd tilheyra í reynd einnig Schengen-svæðinu, þar sem landamæri þeirra eru opin. Andorra er eina landið, sem notar evruna án formlegs leyfis og sinnir landamæravörslu. Páfagarður er sérstaks eðlis – sem páfaveldi fullnægir hann ekki aðildarskilyrðinu um lýðræðislegt stjórnarfar og hefur trúlega ekki í hyggju að breyta því á næstunni.
    2. Sjö lönd í þessum hópi eru á jaðri Evrópu og jafnframt fjærst því að uppfylla skilyrði aðildar. Þetta eru Armenía, Aserbaídsjan, Georgía, Hvíta-Rússland, Moldóva, Rússland og Úkraína. Á grundvelli evrópsku nágrannastefnunnar (European Neighbourhood Policy) hefur ESB gert tvíhliða samkomulag við Úkraínu, Moldóvu, Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu. Í hverjum þessara samninga er áætlun um umbætur í efnahags- og stjórnmálum sem framkvæmd er með fjárhagslegum og tæknilegum stuðningi Evrópusambandsins. Þessi lönd hafa lýst yfir vilja til að taka þátt í samrunaþróun Evrópu, og hefur ESB viðurkennt þá viðleitni en ekki talið þau tilbúin til aðildar. − Auk Hvíta-Rússlands eru þessi lönd aðilar að svokölluðu Eastern Partnership (EaP) samkomulagi, sem ætlað er að vera vettangur til að ræða málefni eins og vegabréfsáritanir, fríverslun og fleira. − Rússland kaus að taka hvorki þátt í hinni evrópsku nágrannastefnu né EaP, og eru samskipti ESB og Rússlands á sérstökum tvíhliða grunni (European Union - Russia Common Spaces).

Þetta svar var uppfært 4. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.6.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvaða Evrópulönd eru ekki í ESB og hvers vegna?“. Evrópuvefurinn 22.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=53348. (Skoðað 25.4.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela