Spurning

Hvaða áhrif gæti það haft á Ísland ef Tyrkland gengi í ESB?

Spyrjandi

Jón Sigtryggsson

Svar

Ef Tyrkland yrði aðili að ESB á næstunni en Ísland stæði utan við yrðu áhrifin af aðild Tyrkja einkum tengd innri markaðnum. Tyrkland er stórt og fjölmennt ríki og og ESB-aðild þess mundi fela í sér aukin viðskiptatækifæri fyrir Íslendinga. Breytingin yrði mest á sviði landbúnaðar þar sem fríverslunarsamningur um aðrar vörur er nú þegar í gildi. Innflytjendum frá Tyrklandi kynni að fjölga með aðild, væntanlega þó einkum ef skortur væri á vinnuafli hér á landi. Líklegt er að Tyrkland tæki þátt Schengen-samstarfinu í kjölfar aðildar, og það mundi auðvelda för fólks af báðum þjóðum milli landanna.

Ef Ísland gengi í ESB á undan Tyrkjum yrðu áhrifin af aðild Tyrklands meiri en hér var lýst, og að flestu leyti sameiginleg öllum ríkjum sem þá væru í sambandinu. Styrkir til Tyrklands úr sameiginlegum sjóðum yrðu talsverðir en jafnframt mundi aðild Tyrklands hafa veruleg pólitísk áhrif, trúlega í átt til stöðugleika á svæðunum í kring. -- Ólíklegt þykir að ESB-aðild Tyrklands verði að veruleika á næstu árum, meðal annars vegna þess hve hægt gengur hjá Tyrkjum að laga sig að inngönguskilyrðum sambandsins.

***

Ísland gerðist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) árið 1970 en núverandi aðildarríki samtakanna, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, gera sameiginlega fríverslunarsamninga við ríki utan þeirra. Með því að gera fríverslunarsamning við ESB gerðust EFTA-ríkin Ísland, Liechtenstein og Noregur aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994. Í því felst þátttaka í innri markaði Evrópusambandsins. Þar er átt við frjálst flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki milli ríkja ESB og EFTA-ríkjanna þriggja.

Ef Ísland verður áfram utan Evrópusambandsins myndi aðild Tyrklands að ESB einkum hafa áhrif á innri markaðinn. Stækkun hans með tilkomu Tyrklands gæti haft í för með sér aukin viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Í vöruviðskiptum er hér átt við niðurfellingu á tollum á inn- og útflutningi milli Íslands og Tyrklands. Þetta hefur þó aðeins áhrif á landbúnaðarvörur þar sem fríverslunarsamningur um allar aðrar vörur hefur verið í gildi milli EFTA ríkjanna, þar á meðal Íslands, og Tyrklands frá árinu 1992.

Hvað varðar þjónustuviðskipti, opinber innkaup og frjálst flæði fjármagns gæti aðild Tyrklands aukið möguleika íslenskra fyrirtækja þar sem Tyrkland myndi þurfa að aflétta viðskiptahindrunum á þeim sviðum. Varðandi frjálsa för fólks innan innri markaðarins má gera ráð fyrir að innflytjendum frá Tyrklandi til ESB-landa mundi fjölga með aðild, þar á meðal til Íslands. Meðalaldur íbúa Tyrklands er mun lægri en á EES svæðinu þar sem spáð er miklum skorti á vinnuafli í framtíðinni. Því gæti aukið framboð vinnuafls komið sér vel en að sjálfsögðu einnig skapað vandamál. Með aðild að ESB myndi Tyrkland að öllum líkindum einnig gerast aðili að Schengen-samstarfinu sem tryggir frjálsa för fólks milli ríkja þess en Ísland gerðist aðili að samstarfinu árið 2001. Þannig gætu íbúar Tyrklands ferðast til Íslands án þess að framvísa vegabréfi, og hið sama mundi þá gilda um ferðir Íslendinga þangað, en hlutfall skemmtiferða héðan til Tyrklands hefur einmitt farið vaxandi að undanförnu.Ef Ísland gerist á hinn bóginn aðili að ESB gæti aðild Tyrklands haft aukin og fjölbreyttari áhrif á okkur til viðbótar því sem nefnt er hér að ofan í tengslum við innri markaðinn. Er þá átt við bæði bein og óbein áhrif sem sambandið í heild sinni myndi finna fyrir.

Í ljósi lítillar vergrar landsframleiðslu Tyrklands og víðtækrar misskiptingar milli svæða innan þess er ljóst að innganga landsins í ESB myndi auka töluvert misskiptingu innan sambandsins í heild. Sem stórt, fátækt land myndi Tyrkland geta sótt um styrki frá sambandinu, en hversu miklir þeir yrðu myndi velta á þróun svæðis- og landbúnaðarstefnu ESB og á samningaviðræðunum milli ESB og Tyrklands við inngöngu. Tyrkland er fjölmennt og því ljóst að það yrði áhrifamikill aðili innan sambandsins og myndi flækja enn frekar kerfi bandamanna og samstarfsaðila í sambandinu, sem er þó þegar talsvert flókið. Innganga Tyrklands myndi hafa mikilvæg áhrif á utanríkisstefnu sambandsins vegna nálægðar Tyrkja við Mið-Austurlönd og ríkin við Kákasusfjöll og Svartahaf. Aðildin myndi færa út mörk ESB til suðausturs og stækka þar með hagsmunasvæði sambandsins í átt til átakasvæða. Núverandi aðildarríki ESB hafa eins og Tyrkland átt hagsmuna að gæta á þessum svæðum, hagsmuna sem eiga á ýmsan hátt samleið en geta einnig stangast á. ESB yrði betur í stakk búið til að draga úr átökum í Mið-Austurlöndum en á móti væri það mun beintengdara við erfið vandamál svæðisins á sviði stjórnmála og öryggismála. Þannig gæti aðild Tyrklands aukið vægi ESB í heimsmálum, en á sama tíma gert ákvarðanatöku flóknari, sérstaklega í málum sem krefjast samhljóða samþykkis allra aðildarríkja.

Ef Tyrkland heldur áfram að nútímavæða efnahagskerfi sitt og vinna að félagslegum jöfnuði í landinu öllu gæti það stuðlað mjög að stöðugleika í nágrannaríkjum þess. Sem ESB-ríki yrði Tyrkland mikilvægt á sviðum sem varða fleiri en eitt ríki, svo sem í málum er lúta að orku, vatnsauðlindum, samgöngum, landamæraeftirliti og aðgerðum gegn hryðjuverkum. Þá yrði innganga Tyrkja í ESB túlkuð sem jákvæð skilaboð til hins íslamska heims um að hægt sé að samræma trúarleg gildi hans gildum Evrópusambandsríkja.

Innganga Tyrklands í ESB myndi því að mörgu leyti verða sambandinu í hag en einnig verða því áskorun. Að lokum má geta þess að það er ekkert sem bendir til að Tyrkland verði aðildarríki Evrópusambandsins á næstu árum þar sem ríkið á enn þónokkuð í land með að fullnægja skilyrðum ESB. Að formi til eru helstu vandkvæðin staða mannréttinda í landinu, óstöðugt efnahagskerfi og vanhæf opinber stjórnun. Þá er pólitískur vilji meðal aðildarríkja ESB fyrir inngöngu Tyrklands takmarkaður, meðal annars vegna ótta við mikinn straum innflytjenda frá Tyrklandi til ríkja ESB. Einnig gætir þess viðhorfs að menningarlega og þá sérstaklega trúarlega séu Tyrkir, sem eru íslamstrúar, svo ólíkir íbúum ESB ríkja að það geti valdið erfiðleikum og árekstrum. Loks er eins og gefur að skilja lítill stuðningur meðal aðildarríkja ESB við að nota fjármuni úr sjóðum þess til að byggja upp tyrkneskan efnahag, þó að það kynni að skila sér til baka í framtíðinn með stærri markaði fyrir evrópskar vörur og þjónustu.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.6.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvaða áhrif gæti það haft á Ísland ef Tyrkland gengi í ESB?“. Evrópuvefurinn 21.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=26074. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela