Spurning

Hver er afstaða til ESB-aðildar innan Tyrklands?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Afstaða Tyrkja til aðildar að Evrópusambandinu hefur verið mjög breytileg frá árinu 1999 þegar Tyrkland fékk formlega stöðu umsóknarríkis. Stuðningur við aðild meðal almennings var þannig mestur 73% árið 2004 en fór niður í 38% árið 2010. Fleiri stjórnmálaflokkar eru nú á móti aðild en þegar aðildarviðræður hófust árið 2005. Afstaða hagsmunasamtaka til aðildar hefur almennt verið jákvæð en heldur hefur dregið úr samstöða þeirra í seinni tíð. Þá eru frjáls félagasamtök ósátt við skert hlutverk sitt við ráðgjöf í aðildarferlinu frá árinu 2005. Herinn, hluti dómskerfisins og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn CHP eru yfirleitt ekki beinlínis á móti ESB-aðild (þó eru skiptar skoðanir innan CHP) en eru hins vegar á móti þeim umbótum sem pólitísk inngönguskilyrði sambandsins krefjast.

***

Frá því að Tyrkland fékk formlega stöðu umsóknarríkis ESB (e. candidate status) í desember 1999 hafa tyrknesk yfirvöld reynt að sætta ólík sjónarmið hagsmunaaðila innanlands. Um er að ræða aðila sem hafa pólitískra og efnahagslegra hagsmuna að gæta, allt frá stjórnmálaflokkum og fyrirtækjum til frjálsra félagasamtaka og almennings.

Á árunum 1999-2005 var breið pólitísk samstaða í Tyrklandi um inngöngu í ESB. Afstaða almennings til aðildar var mjög jákvæð og frjáls félagasamtök og hagsmunaaðilar áttu, ásamt stjórnvöldum, í nánum samskiptum við aðildarríki ESB og sambandið sjálft. Þetta hafði í för með sér ýmiss konar umbætur innan Tyrklands og hefur tímabilið verið nefnt gullöld umbóta í Tyrklandi (e. the golden age of Turkish reform).

Frá 2005 til 2010 fjaraði heldur undan umbótastarfinu og dró úr stuðningi almennings sem og samskiptum Tyrklands við Evrópulönd. Sú þróun átti meðal annars rætur að rekja til deilunnar milli Tyrklands og Kýpur sem og til neikvæðrar afstöðu almennings og ráðamanna í aðildarríkjum ESB til aðildar Tyrklands og þeirrar verulegu stækkunar sem í henni mundi felast. Þá tókst Evrópusambandið á sama tíma á við erfið mál eins og samþykkt Lissabon-sáttmálans, efnahagserfiðleika og áskoranir í evrusamstarfinu.

Nú bendir hins vegar ýmislegt til að umbótastarf sé hafið að nýju í Tyrklandi. Þar má nefna stjórnarskrábreytingar sem meðal annars takmarka yfirráð herdómstóla og heimila jákvæða mismunun fyrir konur, börn og aldraða. Þá hafa aðgerðir gegn spillingu skilað árangri og framfarir orðið á sviði borgaralegra og pólitískra réttinda, trúfrelsis, opinberrar stjórnsýslu, fangelsismála og réttinda kvenna og barna.


Recep Tayyip Erdoğan, forsætisráðherra Tyrklands, og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB

Afstaða almennings í Tyrklandi til ESB-aðildar hefur sveiflast mikið frá árinu 1999. Í könnun frá árinu 2004 töldu 73% Tyrkja að aðild myndi reynast landinu vel. Fjórum árum síðar, árið 2008, var hlutfallið komið niður í 42% og samkvæmt nýjustu könnun sama aðila árið 2010 er hlutfallið nú 38% (Transatlantic Trends, 2010). Neikvætt viðmót almennings og stjórnmálamanna í aðildarríkjum ESB hefur bein áhrif á afstöðu Tyrkja til aðildar. Þannig telja margir Tyrkir að ESB noti deiluna milli Tyrklands og Kýpur vísvitandi til að hægja á aðildarferlinu og stöðvi þannig viðræður um ákveðna samningskafla. Þessi þróun útskýrir þó ekki þá staðreynd að tyrknesk yfirvöld hafa hægt mjög á umbótum síðustu 5-6 árin.

Hvað varðar hagsmunaaðila innan Tyrklands þá hefur dregið úr samstöðu þeirra í milli. Þannig líta forsvarsmenn lítilla fyrirtækja svo á að eigendur stærri fyrirtækja hafi getað haft meiri áhrif á aðildarferlið, á kostnað þeirra minni. Þá eru mörg frjáls félagasamtök ósátt við að hafa frá árinu 2005 fengið minna hlutverk við ráðgjöf varðandi aðildarferlið.

Dregið hefur úr pólitískri samstöðu innanlands og fleiri stjórnmálaflokkar eru nú mótfallnir aðild en áður en aðildarviðræðurnar hófust. Ástæðuna má einkum rekja til þess að ýmis öfl innanlands eru mótfallin þeim pólitísku skilyrðum sem ESB setur og telja að þær umbætur sem nauðsynlegar eru til að uppfylla skilyrðin séu í andstöðu við grunnhugmyndirnar bak við stofnun lýðveldisins.

Mestu átök undanfarinna ára í tyrkneskum stjórnmálum hafa snúist um félags- og efnahagslegt hlutverk ríkisins. Tekist er á um lýðræðishugtakið sjálft, trúmál, aðskilnað ríkis og trúarstofnana, þjóðernishyggju og réttindi minnihlutahópa. Þessi átök endurspeglast í umræðunni um hvort Tyrkland tilheyri Evrópu eða ekki og þar með um afstöðuna til aðildar að ESB.

Réttlætis- og þróunarflokkur (Adalet ve Kalkınma Partisi, AKP) Recep Tayyip Erdoğan, forsætisráðherra, leiðir fylkingu þeirra sem berjast fyrir inngöngu Tyrklands í ESB. Flokkurinn á rætur í Islamstrú. Nú er nýhafið þriðja kjörtímabilið í röð þar sem AKP fer með völd og er gert ráð fyrir að flokkurinn muni gera breytingar á stjórnarskrá landsins, sem er eitt af inngönguskilyrðum ESB. Herinn, hluti dómskerfisins og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Lýðræðislegi þjóðarflokkurinn (Cumhuriyet Halk Partisi, CHP), eru á móti breytingunum og segjast vilja standa vörð um rætur tyrkneska ríkisins, með áherslu á einsleita menningu, í stað þess að veita minnihlutahópum á borð við Kúrda almenn réttindi. Með þessari afstöðu virðist hluti gamla valdakjarnans vera tilbúinn að ganga langt til að stöðva umbætur og hægja á ferlinu í átt til aðildar að Evrópusambandinu, til að mynda með því að beita hervaldi gegn Kúrdum, hóta valdaráni og fórna tyrknesku lýðræði.

Að mörgu leyti felst ákveðin þversögn í þessu því að tyrkneski herinn, sem hefur verið einna mest áberandi í því að hægja á ferlinu, hefur löngum litið á sig sem heilagan varðmann hugsjóna og drauma Atatürk, fyrsta forseta Tyrklands, um að Tyrkland yrði vestrænt ríki og hluti af Evrópu. Meðal þeirra umbóta sem ESB fer hins vegar fram á er að dregið verði úr völdum og áhrifum hersins innanlands en einnig að réttindi þjóðernisminnihluta og lýðræðisleg réttindi almennt verði aukin í samræmi við skilyrði sambandsins. Telur herinn að slíkt gangi gegn kjarna tyrkneska ríkisins sem hann hefur lofað að vernda. Andstaðan beinist því ekki beint gegn ESB heldur þeim umbótum og breytingum sem munu þurfa að eiga sér stað áður en Tyrkland getur orðið aðildarríki.

Að lokum er vert að hafa í huga að framvindan í aðildarviðræðum Tyrklands hefur áhrif á fleiri ríki sem sitja í mismunandi biðstofum Evrópusambandsins eða gætu hugsað sér að komast þangað. Þetta á til dæmis við um Lýðveldið Makedóníu, Albaníu, Serbíu og Moldóvu. Á hinn bóginn getur framvinda í aðildarmálum þessara ríkja líka haft áhrif á gang mála varðandi aðild Tyrklands (Dinan, 2010, 491-496)

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.7.2011

Tilvísun

Bjarni Þór Pétursson. „Hver er afstaða til ESB-aðildar innan Tyrklands?“. Evrópuvefurinn 22.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60243. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Bjarni Þór Péturssonalþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela