Spurning
Hver er afstaða til ESB-aðildar innan Tyrklands?
Spyrjandi
Ritstjórn
Svar
Afstaða Tyrkja til aðildar að Evrópusambandinu hefur verið mjög breytileg frá árinu 1999 þegar Tyrkland fékk formlega stöðu umsóknarríkis. Stuðningur við aðild meðal almennings var þannig mestur 73% árið 2004 en fór niður í 38% árið 2010. Fleiri stjórnmálaflokkar eru nú á móti aðild en þegar aðildarviðræður hófust árið 2005. Afstaða hagsmunasamtaka til aðildar hefur almennt verið jákvæð en heldur hefur dregið úr samstöða þeirra í seinni tíð. Þá eru frjáls félagasamtök ósátt við skert hlutverk sitt við ráðgjöf í aðildarferlinu frá árinu 2005. Herinn, hluti dómskerfisins og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn CHP eru yfirleitt ekki beinlínis á móti ESB-aðild (þó eru skiptar skoðanir innan CHP) en eru hins vegar á móti þeim umbótum sem pólitísk inngönguskilyrði sambandsins krefjast. *** Frá því að Tyrkland fékk formlega stöðu umsóknarríkis ESB (e. candidate status) í desember 1999 hafa tyrknesk yfirvöld reynt að sætta ólík sjónarmið hagsmunaaðila innanlands. Um er að ræða aðila sem hafa pólitískra og efnahagslegra hagsmuna að gæta, allt frá stjórnmálaflokkum og fyrirtækjum til frjálsra félagasamtaka og almennings. Á árunum 1999-2005 var breið pólitísk samstaða í Tyrklandi um inngöngu í ESB. Afstaða almennings til aðildar var mjög jákvæð og frjáls félagasamtök og hagsmunaaðilar áttu, ásamt stjórnvöldum, í nánum samskiptum við aðildarríki ESB og sambandið sjálft. Þetta hafði í för með sér ýmiss konar umbætur innan Tyrklands og hefur tímabilið verið nefnt gullöld umbóta í Tyrklandi (e. the golden age of Turkish reform). Frá 2005 til 2010 fjaraði heldur undan umbótastarfinu og dró úr stuðningi almennings sem og samskiptum Tyrklands við Evrópulönd. Sú þróun átti meðal annars rætur að rekja til deilunnar milli Tyrklands og Kýpur sem og til neikvæðrar afstöðu almennings og ráðamanna í aðildarríkjum ESB til aðildar Tyrklands og þeirrar verulegu stækkunar sem í henni mundi felast. Þá tókst Evrópusambandið á sama tíma á við erfið mál eins og samþykkt Lissabon-sáttmálans, efnahagserfiðleika og áskoranir í evrusamstarfinu. Nú bendir hins vegar ýmislegt til að umbótastarf sé hafið að nýju í Tyrklandi. Þar má nefna stjórnarskrábreytingar sem meðal annars takmarka yfirráð herdómstóla og heimila jákvæða mismunun fyrir konur, börn og aldraða. Þá hafa aðgerðir gegn spillingu skilað árangri og framfarir orðið á sviði borgaralegra og pólitískra réttinda, trúfrelsis, opinberrar stjórnsýslu, fangelsismála og réttinda kvenna og barna.- Transatlantic Trends: Key findings 2010
- Nello, Susan. 2009. The European Union: Economics, Policies and History
- The Economist, 2010. A fading European dream: Will Turkey ever join the EU?
- EurActiv. 2011. Turkey´s Erdogan to build consensus after big win
- Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Integration , 4. útgáfa.
- Independent Commission on Turkey 2009. Turkey in Europe: Breaking the vicious circle
- Köker, Levent. 2010. A Key to “Democratic Opening”: Rethinking Citizenship, Ethnicity and Turkish Nation-State. Insight Turkey 12,2:49-69.
- Commission staff working document. 2010. Turkey 2010 Progress Report
- Kösebalaban, Hasan. 2009. Globalization and the Crisis of Authoritarian Modernization in Turkey. Insight Turkey 11,4:77-97
- Morris, Chris, 2005: The New Turkey
- Eralp, Atila. 2009. The role of temporality and interaction in the Turkey-EU relationship. New Perspectives on Turkey40:149-170
- Jörgensen, Knud Erik. 2007. The Politics of Accession Negotiations. Turkey and the European Union: Prospects for a difficult encounter , bls 11-29
- Kubicek, Paul. 2009. The European Union and Political Cleavages in Turkey. Insight Turkey 11,3:109-126
- Mynd sótt 20.7.11 af heimasíðu International Strategic Research Organization
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur22.7.2011
Flokkun:
Tilvísun
Bjarni Þór Pétursson. „Hver er afstaða til ESB-aðildar innan Tyrklands?“. Evrópuvefurinn 22.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60243. (Skoðað 9.12.2024).
Höfundur
Bjarni Þór Péturssonalþjóðastjórnmálafræðingur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela