Spurning

Hversu langt á Tyrkland í land með að uppfylla inngönguskilyrði ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Tyrkland á töluvert langt í land með að uppfylla þau skilyrði sem Evrópusambandið setur fyrir inngöngu. Það er í höndum tyrkneskra yfirvalda hvenær þeim umbótum lýkur sem nauðsynlegar eru. Stefna ríkisins frá árinu 2007 hefur verið að Tyrkland muni uppfylla kröfur sambandsins varðandi lagalega innviði, reglur, lög og sáttmála fyrir árið 2013. Þrátt fyrir að Egemin Bagis núverandi ráðherra Evrópumála í Tyrklandi, hafi sagt í lok árs 2010 að það sé enn þá stefnan, má nánast útiloka að umbæturnar nái fram að ganga á þeim tíma. Fræðimenn telja raunhæfara að miða aðild Tyrklands við árið 2023 þegar öld verður liðin frá því að tyrkneska ríkið var stofnað.

***

Þegar staða umsóknar Tyrklands um aðild að Evrópusambandinu er metin er áherslan alla jafna á pólitíska vídd Kaupmannahafnarviðmiðanna svokölluðu (e. Copenhagen Criteria), en hún snýr að stöðugu stjórnarfari og stofnunum, sem tryggja lýðræði, réttarríki, mannréttindi og vernd minnihlutahópa (sjá nánar um Kaupmannahafnarviðmiðin í svari við spurningunni Hvaða Evrópulönd eru ekki í ESB og hvers vegna?) Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að það mun reynast Tyrklandi einna erfiðast og tímafrekast að uppfylla þau skilyrði. Staðan gagnvart þeim gefur einnig góða mynd af vægi grunninnviða hjá öðrum ríkjum sem sækjast eftir aðild. Loks er það þessi mynd sem vekur helst áhuga fólks á aðildarferli Tyrklands, bæði almennings og valdamanna í ESB.

Framvinduskýrsla framkvæmdastjórnar ESB (e. progress report) fyrir Tyrkland árið 2010 sýnir vel hversu langt Tyrkland á í land með að uppfylla pólitísku skilyrðin.

Hvað varðar lýðræði og réttarkerfi er staðan í Tyrklandi bágborin og brothætt. Réttarkerfið stenst ekki samanburð við réttarkerfi lýðræðisríkja og spannar vandinn allt frá skorti á fjármagni og framkvæmdaleysi yfir í óeðlileg afskipti stjórnmálamanna og hersins. Þá viðgengst spilling á flestum sviðum þjóðfélagsins. Einnig er talin mikil þörf á ritun nýrrar stjórnarskrár, en tyrkneski herinn skrifaði þá sem nú gildir árið 1982 meðan á valdaráni hans stóð. Endurnýjun hennar gæti meðal annars komið í veg fyrir að herinn geti hótað að taka völdin, en það gerðist síðast árið 2007. Þá þarf að þróa og endurbæta opinbera stjórnsýslu í landinu. Loks er þörf á umbótum á starfsháttum þingsins og kosningakerfi en samkvæmt kerfinu í dag þarf stjórnmálaafl 10% fylgi til að fá sæti á þingi, sem er hæsta þröskuldshlutfall meðal allra ríkja Evrópuráðsins.

Hvað varðar mannréttindi og vernd minnihlutahópa er staðan í Tyrklandi ekki ásættanleg að mati framkvæmdastjórnar ESB. Tyrkland er fjarri því að uppfylla skilyrði sambandsins, einkum í framkvæmd. Ástæðuna má rekja til grunninnviða ríkisins, ákvæða stjórnarskrárinnar og til réttarkerfisins sem leggur meiri áherslu á verndun ríkisins en réttindi einstaklingsins. Í byrjun árs 2011 áttu einungis Rússar fleiri mál sem biðu afgreiðslu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Efling mannréttinda er á frumstigi, þar á meðal þjálfun opinberra starfsmanna og uppbygging stofnana. Auk þess beitir lögreglan víða óhóflegu valdi.

Mikilvægur hluti Tyrklands tilheyrir Evrópu samkvæmt hefðbundnum landfræðilegum skilningi. Aðild Tyrklands getur einnig vel samrýmst almennri stækkunarstefnu sambandsins og hugmyndum um öryggissvæði (fr. cordon sanitaire). En þetta dugir ekki til eins og fram kemur í texta svarsins.

Frelsi einstaklingsins, tjáningarfrelsi, fundafrelsi, félagafrelsi og trúfrelsi er takmarkað í Tyrklandi. Núverandi stjórnvöld hafa átt í erfiðleikum með að taka á málinu vegna andstöðu hersins og valdamikilla aðila innan Tyrklands sem telja breytingarnar vera í andstöðu við kjarnann í stofnun lýðveldisins.

Staða kvenna, barna og þeirra sem eiga við andlega eða líkamlega fötlun að stríða er einnig slæm en þar hefur löggjöf ríkisins ekki komist í framkvæmd. Jafnrétti kynjanna er í skötulíki, réttarstaða kvenna er léleg, ofbeldi gagnvart konum er stórt vandamál og sæmdarmorðum hefur aftur fjölgað. Sömu vandamál blasa við í málefnum barna en auk þess setur Tyrkland fyrirvara við greinar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem snúa að tungumáli og menningarlegum auðkennum.

Framkvæmdaleysi hrjáir einnig málaflokk fatlaðra en þrjú ár verða bráðlega liðin frá undirritun Tyrklands á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra án þess að ríkið hafi komið á fót viðeigandi stofnunum til að hafa eftirlit með málaflokknum. Réttindi stéttarfélaga eru í engu samræmi við staðla Evrópusambandsins auk þess sem fordómar og mismunun gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum, klæðskiptingum og kynskiptingum eru enn við lýði.

Hvað varðar svæðisbundin málefni og alþjóðlegar skuldbindingar eru tvær stórar deilur óleystar og hafa reynst erfiðar viðfangs. -- Annars vegar er deilan milli Tyrklands og Kýpur, sem er nú þegar aðildarríki ESB, um full yfirráð yfir Kýpur en Tyrkland hefur hersetið landsvæði sem nemur 37% af eyjunni síðan 1974. Deilan er helsta fyrirstaða þess að aðildarviðræður Tyrklands við ESB nái aftur skriði. -- Hins vegar á meirihluti Tyrkja og ríkisstjórn landsins í grimmri deilu innan lands við stóran minnihlutahóp Kúrda sem berjast fyrir sjálfstjórn eða sjálfstæði í austurhluta Tyrklands.

Fræðimenn áætla að ferli Tyrklands til aðildar að ESB muni taka í það minnsta 10-15 ár til viðbótar. Á undanförnum misserum hefur verið í umræðunni innan Tyrklands að stefna beri að ESB aðild fyrir árið 2023, þegar öld verður liðin frá stofnun tyrkneska ríkisins. Talið er raunhæft að Tyrkland verði búið að uppfylla öll aðildarskilyrði ESB á þeim tíma.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.7.2011

Tilvísun

Bjarni Þór Pétursson. „Hversu langt á Tyrkland í land með að uppfylla inngönguskilyrði ESB?“. Evrópuvefurinn 18.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60242. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Bjarni Þór Péturssonalþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela