Spurning

Fengu Norðmenn fullan aðildarsamning í bæði skiptin sem þeir sóttu um og höfnuðu aðild að ESB?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Í stuttu máli er svarið já. Í tvö þeirra fjögurra skipta sem Noregur hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu var aðildarviðræðum lokið með undirritun aðildarsamnings. Fullmótaður aðildarsamningur var lagður í þjóðaratkvæði árin 1972 og 1994 og í báðum tilvikum var honum hafnað. Úrslit kosninganna hafa einkum verið útskýrð á tvo vegu. Annars vegar með því að efnahagslegir hagsmunir ráðandi atvinnuvega í Noregi hafi ráðið úrslitum og hins vegar með sjálfsmynd Norðmanna, sem mótaðist í sjálfstæðisbaráttunni sem þjóðin háði á sínum tíma.

***

Noregur hefur fjórum sinnum sótt um aðild að Evrópusambandinu, fyrst árið 1962 og næst árið 1967. Í báðum tilvikum höfðu Bretar og Írar einnig sótt um aðild að sambandinu og vegna sterkra efnahagslegra tengsla við Bretland ákváðu Noregur og Danmörk að fylgja í kjölfarið. Ekkert varð þó af aðildarviðræðum því þáverandi Frakklandsforseti, Charles De Gaulle, beitti neitunarvaldi gegn umsókn Breta árið 1963 og aftur árið 1967. Noregur ásamt hinum umsóknarríkjunum dró umsókn sína til baka í báðum tilvikum enda sá ríkið ekki ástæðu til að halda áfram umsókn sinni ef Bretar fengju ekki inngöngu í sambandið.

Þriðja umsókn Noregs að ESB var lögð fram árið 1969 og enn fylgdi Noregur í kjölfar Bretlands, Írlands og Danmerkur. Líkt og Noregur átti Danmörk í miklum viðskiptum við Bretland einkum með landbúnaðarafurðir. Að þessu sinni voru engin mótmæli gegn umsókn Breta og aðildarviðræður umsóknarríkjanna og ESB gátu hafist. Að loknum samningaviðræðum var mótaður einn aðildarsamningur fyrir öll umsóknarríkin fjögur. Þó um sameiginlegan aðildarsamning væri að ræða innihélt hann mörg ólík ákvæði fyrir hvert og eitt ríki sökum ólíkra hagsmuna þeirra í tilteknum málaflokkum.


Trygve Bratteli fyrrum forsætisráðherra Noregs.
Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan um aðild Noregs að ESB var haldin þann 25. september 1972. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var sú að 53,2% greiddu atkvæði gegn aðild en 46,5% voru hlynnt henni. Þáverandi forsætisráðherra Noregs, Trygve Bratteli, sagði af sér í kjölfar atkvæðagreiðslunnar en hann hafði verið í forsvari aðildarumsóknarinnar.

Fjórða umsókn Noregs um aðild að ESB var lögð fram árið 1992 en hún fylgdi í kjölfar umsókna Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar. Aftur var mótaður einn sameiginlegur aðildarsamningur fyrir umsóknarríkin fjögur að aðildarviðræðum loknum. Kosið var um samninginn í Noregi þann 27. og 28. nóvember 1994 og var aðild Noregs að ESB hafnað í annað sinn. Niðurstaðan var sú að 52,2% greiddu atkvæði gegn aðild og 47,8% voru hlynnt. Sitjandi forsætisráðherra Noregs á þessum tíma, Gro Harlem Brundtland, ákvað að feta ekki í fótspor Trygve Bratteli og sat áfram í embætti þrátt fyrir að aðildarumsóknin sem hún stóð fyrir hefði verið felld.

Mikið hefur verið fjallað um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslnanna og margar kenningar hafa verið smíðaðar til útskýringar. Á meðal þess sem haldið hefur verið fram er að afstaða ráðandi atvinnuvega í Noregi, það er að segja olíuiðnaðarins, landbúnaðar og sjávarútvegs, hafi ráðið niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Hátt hlutfall þjóðartekna í þessum atvinnuvegum, sérstaklega olíuiðnaðinum, útskýrir mikilvægi þeirra og því hafi hagsmunir atvinnuveganna haft ráðandi áhrif á niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslnanna.

Þessi útskýring hefur þó ekki þótt fullnægjandi sérstaklega þegar litið er til þess að olíuvinnsla var ekki orðin mikilvægur atvinnuvegur árið 1972 þegar fyrri atkvæðagreiðslan fór fram. Olíusvæðið var vissulega fundið en það magn olíu og sú framleiðsla sem varð seinna meir var ekki hafin á þeim tíma. Munurinn á niðurstöðum atkvæðagreiðslnanna tveggja hefði því átt að vera töluvert meiri en raun bar vitni þar sem olíuiðnaðurinn var orðinn undirstöðuatvinnuvegur í Noregi fyrir seinni þjóðaratkvæðagreiðsluna.


Gro Harlem Brundtland var forsætisráðherra Noregs þegar seinni þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram.

Því hefur einnig verið haldið fram að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslnanna megi rekja til þjóðernishyggju Norðmanna sem löngum hefur verið sterk. Hún á meðal annars rætur sínar í þeirri baráttu sem þjóðin háði á sínum tíma til að hljóta sjálfstæði frá Danmörku og síðar Svíþjóð sem og í reynslunni af hernámi Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni. Þá hafi nei-hreyfingin í Noregi tekist betur að tengja málstað sinn við norska sjálfsmynd og halda málflutningi sínum á þjóðernislegum nótum. Andstæðingar aðildar héldu því fram að Noregur ætti litla samleið með Evrópusambandinu sem byggðist á skrifræði og stéttaskiptri miðstjórn þar sem stærstu ríkin réðu lögum og lofum. Noregi stæði ógn af þessu sambandi þar sem að með aðild yrði fullveldi þjóðarinnar fórnað og norska velferðarkerfið afnumið.

Málflutningur aðildarsinna var annar en þeir vildu meina að Noregur væri óaðskiljanlegur hluti af Evrópu og að aðild að sambandinu væri rökrétt afleiðing þess. Þar að auki lögðu þeir áherslu á þá efnahagslegu samvinnu sem á sér stað innan sambandsins og hættuna á einangrun á alþjóðavettvangi ef landið stæði utan þess. Aðildarsinnar reyndu einnig að höfða til þjóðerniskenndar kjósenda með því að segja Noreg lengra kominn en önnur Evrópulönd á mörgum sviðum líkt og varðandi jafnrétti, velferð og lýðræði. Noregi bæri því viss skylda til að miðla þekkingu sinni til annarra ríkja innan ESB.

Miklar deilur ríktu í Noregi á tímum þjóðaratkvæðagreiðslnanna og má segja að Evrópumálin hafi í raun klofið norska þjóðfélagið í tvennt. Bæði almenningur og stjórnmálaelítan í Noregi eru minnug þessara átaka og því er ekki talið líklegt að fimmta aðildarumsóknin verði lögð inn í bráð. Skoðanakannanir undanfarinna ára hafa sýnt að andstaða Norðmanna við aðild hefur aukist stöðugt frá árinu 2005 og hefur að meðaltali mælst rúmlega 60%. Þannig hefur nei-sinnum fjölgað úr um það bil 50% í rúm 80% árið 2012 og já-sinnum fækkað úr tæpum 50% í 15% á sama tímabili.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela