Spurning

Að hverju voru Króatar spurðir í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að ESB?

Spyrjandi

Ragnar Torfi Geirsson

Svar

Króatar kusu um aðild að Evrópusambandinu þann 22. janúar 2012. Á kjörseðlinum stóð: „Ert þú hlynntur aðild lýðveldisins Króatíu að Evrópusambandinu? Með - Á móti“. Kosningaþátttaka var í kringum 43% og þar af voru 67% kjósenda samþykkir aðild. Stefnt er að formlegri inngöngu Króatíu í sambandið þann 1. júlí 2013, að fengnu samþykki Evrópuþingsins og þjóðþinga allra aðildarríkja ESB. Króatía verður annað ríki fyrrum Júgóslavíu sem gengur í sambandið en Slóvenía hlaut aðild árið 2004.


Króatar samþykktu aðild að ESB með 67% atkvæða.
Samningaviðræður Króatíu og ESB stóðu yfir í sex ár, (2005-2011) en landið sótti um aðild árið 2003. Nokkrar tafir urðu á samningaviðræðunum einkum í kjölfar þess að Slóvenía beitti neitunarvaldi gegn því að viðræður um samningskaflann um utanríkis- og öryggismál yrðu hafnar vegna landamæradeilna sem löndin tvö áttu í. Sáttir náðust þó í þessum deilum og aðildarviðræður hófust aftur eftir 10 mánaða töf.

Skoðanakannanir sýndu til að byrja með að afstaða Króata til aðildar að ESB var mjög á reiki en upp úr 2008 virtust þeir í auknum mæli vera hlynntir aðild eða á bilinu 55% - 60%.

Króatía gekk formlega í Evrópusambandið 1. júlí 2013. Áður en landið gat fengið inngöngu þurfti það að gangast undir frekara mat á stöðu ríkisins. ESB lagði áherslu á að Króatar lækkuðu skuldir hins opinbera, jyki aðgengi að innlendum markaði og drægi úr atvinnuleysi. Króatía hefur 7 atkvæði í ráðinu, þegar greidd eru atkvæði með auknum meirihluta, og 12 þingsæti á Evrópuþinginu.

Þetta svar var uppfært 4. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.2.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Að hverju voru Króatar spurðir í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að ESB?“. Evrópuvefurinn 24.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61998. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela