Spurning

Hvaða lönd teljast til Evrópu?

Spyrjandi

Jóhann Einarsson, f. 1990

Svar

Þessu er ekki eins auðvelt að svara og ætla mætti, jafnvel þótt við reynum ekki að gera það í eitt skipti fyrir öll. Bæði myndast ný ríki öðru hverju og eins kemur fyrir að ríki sameinast. Auk þess eru sum ríki á gráu svæði við jaðar Evrópu eða þá að landsvæði þeirra telst til tveggja heimsálfa, ýmist þannig að höfuðborgin sé Evrópumegin eða ekki. Þá kann stundum að vera vafamál hvað skuli telja fullgilt, sjálfstætt ríki og hvað ekki. Hér verður gengið út frá því að orðið "land" í spurningunni þýði sjálfstætt ríki og svarað í samræmi við þá túlkun orðsins.

***

Í norðri, vestri og suðri eru mörk Evrópu nokkuð ljós þar sem álfan liggur að hafi en málið vandast aðeins þegar kemur að afmörkun hennar í austur. Mörk Asíu og Evrópu hafa löngum verið umdeild en í dag eru þó flestir landfræðingar sammála um að miða mörk þessara tveggja heimsálfa við línu sem dregin er um austurhlíðar Úralfjalla og ána Úral að Kaspíahafi. Vestan Kaspíahafs eru mörkin oftast sögð fylgja vatnaskilum í Kákasusfjöllum að Svartahafi. Frá Svartahafi liggja mörkin svo um Bosporus- og Dardanellasund í Eyjahaf.


Miðað við þessi mörk á milli heimsálfanna tveggja eru 44 ríki alfarið í Evrópu, að Rússlandi undanskildu, en höfuðborg þess er í Evrópu. Þau eru:

AlbaníaÍslandRúmenía
AndorraÍtalíaRússland
AusturríkiKróatíaSan Marínó
BelgíaLettlandSerbía
Bosnía og HersegóvínaLiechtensteinSlóvakía
BretlandLitháenSlóvenía
BúlgaríaLúxemborgSpánn
DanmörkLýðveldið MakedóníaSvartfjallaland
Eistland MaltaSviss
FinnlandMoldóvaSvíþjóð
FrakklandMónakóTékkland
GrikklandNoregurUngverjaland
HollandPáfagarðurÚkraína
Hvíta-RússlandPortúgalÞýskaland
ÍrlandPólland

Þessu til viðbótar eru sex ríki sem eiga land að hluta til í Evrópu eða eru meðlimir í evrópskum samtökum og eru oft talin til álfunnar, til dæmis á vef Evrópusambandsins. Þá er ekki eingöngu horft til landfræðilegrar legu heldur getur það byggst á menningarlegum eða sögulegum grunni.

Fyrst er þar til að telja Kýpur sem er hluti af Asíu samkvæmt landfræðilegum stað en er oft talin til Evrópu vegna sögu og menningar og á meðal annars aðild að Evrópusambandinu. Tyrkland, Georgía, Aserbaídsjan og Kasakstan liggja öll að litlum hluta innan Evrópu og tilheyra því í raun tveimur heimsálfum. Landfræðilega er Armenía sjaldnast talin til Evrópu en ef litið er til menningar og sögu þegar löndum er skipt á milli heimsálfa þá er Armenía stundum talin með Evrópulöndum. Að Kasakstan undanskildu eiga þessi lönd öll aðild að Evrópuráðinu.

Það eru því allt í allt 50 ríki sem eiga land í Evrópu samkvæmt staðsetningu, sögu og menningu og hefðbundinni skilgreiningu á álfunni eða eru í mikilvægum samtökum eins og Evrópuráðinu.

Heimildir og kort:


Þegar þetta svar birtist á Vísindavefnum í júlí 2003, var íslenska heitið Hvíta-Rússland nær eingöngu notað um landið. Á síðustu árum hefur orðið breyting þar á og nú er til að mynda heitið Belarús almennt notað í opinberri stjórnsýslu á Íslandi, þar á meðal í utanríkisráðuneytinu og Stjórnarráðinu.[1]

Formlegt heiti landsins er skráð sem Lýðveldið Belarús á vef Stofnunar Árna Magnússonar[2] og þar eru almenn heiti landsins höfð tvö: Hvíta-Rússland og Belarús.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.7.2003

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða lönd teljast til Evrópu?“. Evrópuvefurinn 28.7.2003. http://evropuvefur.is/svar.php?id=3614. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttirlandfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela