Spurning

Hvar er landið Moldóva?

Spyrjandi

Óli Kristinn

Svar

Eitt af ríkjum Sovétríkjanna hét Moldavía, eða öllu heldur Sovétlýðveldið Moldavía. En þegar Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 lýsti þetta ríki yfir sjálfstæði og tók upp nafnið Moldóva.

***

Moldóva liggur að mestu leyti á milli ánna Prut og Dnjestr sem renna í Svartahaf. Landið liggur að Rúmeníu til vesturs og að Úkraínu til norðurs, austurs og suðurs. Moldóva er 33.700 km2 að stærð og þar búa um 4,3 milljónir íbúa. Höfuðborg landsins heitir Chisinau, en þar búa tæplega 700.000 íbúar. Borgin er miðstöð iðnaðar og menningar í landinu.

Árið 1812 lét Ottómanveldið Moldóvu af hendi til Rússlands, og við það sat þangað til eftir fyrri heimstyrjöldina, en þá varð landið hluti af Rúmeníu. Moldóva féll svo aftur undir rússnesk yfirráð við lok seinni heimstyrjaldarinnar.

Tungumál Moldóvu er náskylt rúmensku, en meðan landið var undir rússneskum yfirráðum var notað kyrillískt letur. Árið 1989 var aftur tekið upp rómanskt letur en við það blossuðu upp miklar deilur um það hvort tungumálið skyldi kennt við Moldóvu eða einfaldlega kallað rúmenska.

Heimild og mynd:
  • Encyclopædia Britannica
  • Sótt 22.6.2011 á wikipedia.org - moldóvski fáninn.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 4.10.2001

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Hvar er landið Moldóva?“. Evrópuvefurinn 4.10.2001. http://evropuvefur.is/svar.php?id=1889. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Ólafur Páll Jónssonprófessor í heimspeki við HÍ

Frekara lesefni á Evrópuvefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela