Spurning

Hver er vestasti oddi Evrópu?

Spyrjandi

Jóhann Ásmundsson

Svar

Samkvæmt algengum Evrópukortum mundu Bjargtangar í Látrabjargi vera vestasti oddi Evrópu. Þessi kort segja þó ekki alla söguna því að Asóreyjar eru vestar en Ísland og teljast ótvírætt til Evrópu. Eðlilegast virðist að telja vestasta odda eyjarinnar Flores í Asóreyjum jafnframt vestasta odda Evrópu.

***

Þessi spurning er í raun flóknari en virðist við fyrstu sýn því að fyrst þurfum við að skilgreina hvað við eigum við með "Evrópu". Er spyrjandinn að leita eftir upplýsingum um hver vestasti oddinn sé í þeim löndum sem tilheyra Evrópu landfræðilega, þeim löndum sem hafa stjórnmálaleg tengsl við Evrópu eða vill hann vita hver sé vestasti oddi meginlands Evrópu?

Smellið til að sjá myndina stærri.

Yfirlitskort af Evrópu sýna yfirleitt aðeins meginlandið ásamt Bretlandseyjum, Færeyjum og Íslandi en ekki aðrar eyjar í Atlantshafinu. Á slíku korti er Ísland vestasta land Evrópu og því væri vestasti oddi Íslands einnig vestasti oddi Evrópu. Hann væri samkvæmt því Bjargtangar í Látrabjargi sem eru á 21°32,3' vestlægrar lengdar. Dæmi um slíka framsetningu má sjá hér að ofan, á korti sem er í Heimsatlas Máls og menningar frá 1998, bls. 87, en sú bók er þýðing á kortabók breska forlagsins Dorling Kindersley.

Á slíku korti af Evrópu sést einnig að vestasti oddi meginlandsins er Roca-höfði (Cabo da Roca) á strönd Portúgals, nálægt höfuðborginni Lissabon.

Nokkur ríki í Evrópu eiga eyjar vestur í Atlantshafi sem eru yfirleitt ekki með á fyrrnefndum kortum. Vestastar af þessum eyjum eru Asóreyjar, sem eru níu talsins og tilheyra Portúgal, um 1600 kílómetra frá Roca-höfða og á 24° til 32° vestlægrar lengdar. Þær byggðust ekki fyrr en í upphafi landafundanna í Evrópu á fyrri hluta 15. aldar en nú búa þar um 250.000 manns. Varla getur leikið nokkur vafi á því að Asóreyjar teljast til Evrópu. Vestasta eyjan í klasanum heitir Flores og vestasti oddi hennar er á um það bil 31° vestlægrar lengdar. Við höfum hins vegar ekki séð í heimildum okkar hvað vestasti tanginn heitir og er það kannski dæmigert um það að þetta evrópska einkenni hans vekur ekki mikinn áhuga.

Síðan gætum við teygt okkur ennþá lengra og athugað öll lönd sem lúta pólítísku forræði Evrópuríkja. Þar á meðal eru Falklandseyjar sem tilheyra Bretlandi. Ef þær væru taldar með yrði vestasti oddinn enn vestar eða á 60° lengdargráðu. En með þessu erum við farin að teygja okkur of langt því að Falklandseyjar eru nálægt syðsta odda Suður-Ameríku, um 483 kílómetra undan strönd Argentínu, og teljast að sjálfsögðu landfræðilega til Suður-Ameríku. Sama gildir um önnur lönd eða eyjar víðs vegar um heiminn sem eru enn á valdi Evrópuríkja, að þau tilheyra öðrum heimsálfum í landfræðilegum skilningi.

Þótt Grænland tilheyri Danmörku og Evrópu í pólitískum skilningi, að minnsta kosti enn sem komið er, þá tilheyrir Grænland Norður-Ameríku landfræðilega. Til þess liggja margar ástæður, þar á meðal lega landsins og landfræðileg, jarðfræðileg og líffræðileg tengsl þess við Ameríku umfram Evrópu. Til dæmis eru Grænlendingar að sjálfsögðu skyldari öðrum svokölluðum frumbyggjum Ameríku en Evrópumönnum. En ef Grænland teldist til Evrópu væri vestasti oddi hennar tanginn Inglefield Land sem liggur á 73° vestlægrar lengdar, norður af Thule í norðvesturhluta Grænlands.

Segja má að 'réttasta' svarið við þessari spurningu væri að vestasti oddi eyjarinnar Flores í Asóreyjum sé vestasti oddi Evrópu. Landfræðilega eru þær vestasta landsvæði Evrópu, þó að önnur landsvæði enn vestar séu tengd Evrópu í skilningi stjórnmálanna.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.2.2002

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Ulrika Andersson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er vestasti oddi Evrópu?“. Evrópuvefurinn 14.2.2002. http://evropuvefur.is/svar.php?id=2114. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundar

Ulrika AnderssonvísindablaðamaðurÞorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Frekara lesefni á Evrópuvefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela