Spurning

Hafa oft verið haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur í tengslum við Evrópusambandið?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Allt í allt er Evrópuvefnum kunnugt um að 44 ESB-tengdar þjóðaratkvæðagreiðslur hafi farið fram í samtals 24 löndum, aðildarríkjum ESB og öðrum Evrópuríkjum. Flestar ESB-tengdar þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið haldnar í Írlandi, 9 talsins, og í Danmörku, 7 talsins. Í átta aðildarríkjum hafa aldrei verið haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB-tengd mál.

***

Tuttugu og einu sinni hefur verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla tengd stækkun Evrópusambandsins. Sú fyrsta var haldin árið 1972 þegar meirihluti Frakka samþykkti að ný aðildarríki mættu ganga í sambandið, sem þá samanstóð enn af stofnríkjunum sex. Í kjölfarið var kosið um aðild að sambandinu í Danmörku, Írlandi og Noregi, þar sem aðild var hafnað. Í Bretlandi var hins vegar kosið um það árið 1975, tveimur árum eftir aðild, hvort landið ætti að halda áfram aðild sinni að sambandinu.


Karmelítanunnur mæta til kosninga um ríkisfjármálasáttmála ESB á Írlandi í maí 2012.

Árið 1985 yfirgáfu Grænlendingar Evrópusambandið í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu en landið hafði nokkrum árum áður fengið heimastjórn frá Danmörku. Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð kusu um aðild árið 1994 og voru Norðmenn einir andvígir aðild, í annað sinn. Á Álandseyjum var haldin sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort eyjarnar, sem eru sjálfsstjórnarsvæði sem tilheyrir Finnlandi, skyldu ganga í sambandið með Finnum og var það samþykkt. Í Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Möltu, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi var kosið um aðild árið 2003 og gengu öll löndin í sambandið ári síðar. Í janúar 2012 kaus meirihluti Króata með því að ganga í ESB og urðu þeir 28. aðildarríki sambandsins 1. júlí 2013.

Sextán sinnum hafa breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins verið lagðar í þjóðaratkvæði. Danir og Írar kusu um Einingarlögin í þjóðaratkvæðagreiðslum árin 1986 og 1987. Í fjórum þjóðaratkvæðagreiðslum var kosið um Maastricht-sáttmálann. Árið 1992 var hann samþykktur af Frökkum og Írum en hafnað af Dönum sem þó samþykktu sáttmálann ári síðar eftir að hafa samið um sérstakar undanþágur. Amsterdam-sáttmálinn var samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku og á Írlandi árið 1998 og tvisvar var kosið um Nice-sáttmálann á Írlandi, árið 2002 var honum hafnað og 2003 var hann samþykktur.

Árið 2005 var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Evrópusambandsins í Frakklandi, Hollandi, Lúxemborg og á Spáni. Stjórnarskránni var hafnað í Frakklandi og Hollandi. Í sex ríkjum til viðbótar (Tékklandi, Danmörku, Írlandi, Póllandi, Portúgal og Bretlandi) stóð til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu en hætt var við það eftir að ljóst var að stjórnarskráin yrði ekki samþykkt af öllum aðildarríkjum. Írar kusu síðan í tvígang um Lissabon-sáttmálann, árið 2008 og 2009. Í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunni var sáttmálanum hafnað en í þeirri síðari var ákvörðuninni snúið við eftir að sérstakri bókun um atriði sem voru mikilvæg Írlandi var bætt við samninginn.

Sjö ESB-tengdar þjóðaratkvæðagreiðslur til viðbótar hafa farið fram. Danir kusu um upptöku evrunnar árið 2000 og Svíar árið 2003. Í báðum löndum var evrunni hafnað. Í Sviss hafa verið haldnar fjórar ESB-tengdar þjóðaratkvæðagreiðslur. Árið 1992 höfnuðu Svisslendingar aðild að EES-samningnum og árið 2000 samþykktu þeir tvíhliðasamning á milli Sviss og ESB. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur voru haldnar árið 2005, önnur um aðild Sviss að Schengen-samstarfinu og hin um aðild að Dyflinnar-samkomulaginu, um samvinnu í málefnum hælisleitenda. Hvort tveggja var samþykkt.

Nýjasta ESB-tengda þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin í Írlandi í maí 2012 þegar Írar samþykktu nýgerðan sáttmála um stöðugleika, samræmingu og stjórnun í efnahags- og myntbandalaginu, eða ríkisfjármálasáttmálann eins og hann er einnig nefndur.

Aldrei hefur verið kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-tengd málefni í átta aðildarríkjum af 28. Þau eru Belgía, Búlgaría, Grikkland, Ítalía, Kýpur, Portúgal, Rúmenía og Þýskaland.

Þetta svar var uppfært 4. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir og mynd:

  • European Election Data Base.
  • Wikipedia.com - Referendums related to the European Union.
  • Mynd sótt á síðuna www.itv.com, 7.6.2012.
  • Við þetta svar er engin athugasemd Fela