Spurning

Um hvað fjallar nýi sáttmálinn um samræmi í ríkisfjármálum evruríkjanna?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Ríkisfjármálasáttmálinn er liður í áætlun ESB um að auka trúverðugleika og tryggja stöðugleika í efnahagsstjórn á evrusvæðinu. Sáttmálinn skuldbindur evruríkin til að innleiða svonefnda skuldabremsu sem felur í sér markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum og sjálfkrafa leiðréttingarkerfi ef skuldasöfnun fer fram úr leyfilegum mörkum. Sáttmálinn var undirritaður í mars 2012 af 25 aðildarríkjum af 27 og bíður þess nú að vera lögfestur af þjóðþingum aðildarríkjanna.

***

Sáttmálinn um stöðugleika, samræmingu og stjórnun í Efnahags- og myntbandalaginu (SSSS, e. Treaty on stability, coordination and governance in the Economic and Monetary Union, TSCG) er annar liðurinn í áætlunum Evrópusambandsins um að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum á evrusvæðinu til framtíðar með samræmingu í ríkisfjármálum evruríkjanna. Um hinn liðinn í áætluninni er fjallað í svari við spurningunni Hvernig hefur samningnum um stöðugleika og vöxt verið breytt í kjölfar ríkisfjármálakreppunnar á evrusvæðinu?

Á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins í desember 2011 beitti forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, neitunarvaldi gegn því að samkomulag um samræmi í ríkisfjármálum, sem þá var í smíðum, yrði gert á grundvelli núgildandi sáttmála Evrópusambandsins. Sáttmálinn um stöðugleika, samræmingu og stjórnun í Efnahags- og myntbandalaginu, einnig nefndur ríkisfjármálasáttmálinn (e. fiscal compact), er því hefðbundinn alþjóðasamningur og stendur til hliðar við sáttmála ESB. Í sáttmálanum er þó að finna ákvæði um að hann skuli gilda að svo miklu leyti sem hann er samrýmanlegur sáttmálanum um Evrópusambandið (SESB), sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) og Evrópulögum (2. grein 2 SSSS).


Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, undirritar sáttmálann um stöðugleika, samræmingu og stjórnun, við hlið Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Ríkisfjármálasáttmálinn var undirritaður af leiðtogum 25 aðildarríkja ESB 2. mars 2012. Tvö aðildarríki, Bretland og Tékkland, kusu að undirrita hann ekki. Til að sáttmálinn taki gildi þarf hann að vera lögfestur af þjóðþingum 12 evruríkja hið minnsta, en stefnt er að því að það náist fyrir 1. janúar 2013. Írar hafa tilkynnt að kosið verði um sáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní næstkomandi. Þótt samningurinn sé undirritaður af fleirum en evruríkjunum gildir hann fyrst og fremst fyrir þau (1. grein 2 SSSS).

Meginmarkmið sáttmálans er að knýja fram stöðugleika í ríkisfjármálum á evrusvæðinu og koma í veg fyrir að skuldasöfnun einstakra ríkja valdi viðlíka ríkisfjármálakreppu og þeirri sem evruríkin hafa glímt við síðastliðin tvö ár. Í því augnamiði hafa þátttökuríkin sammælst um að innleiða í landslög, helst í stjórnarskrá, reglur um eftirfarandi meginatriði:
  • Að jöfnuður skuli vera í ríkisrekstri þeirra eða tekjuafgangur (3. grein 1 a) SSSS).
  • Að í gang fari sjálfkrafa leiðréttingarkerfi (e. correction mechanism) til að draga úr halla ef skuldasöfnun fer fram úr áætlunum (3. grein 2 SSSS).

Þetta fyrirkomulag er að þýskri fyrirmynd og er stundum kallað skuldabremsa (þ. Schuldenbremse). Hún skal hafa verið innleidd í samningsríkjunum í síðasta lagi ári eftir að ríkisfjármálasáttmálinn tekur gildi. Telji framkvæmdastjórnin að tiltekið evruríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar um innleiðingu skuldabremsunnar mun hún geta vísað því til úrskurðar Dómstóls Evrópusambandsins (e. Court of Justice of the European Union). Úrskurðir dómstólsins verða bindandi fyrir viðkomandi ríki og geri það ekki viðeigandi ráðstafanir til að hlíta dómnum getur dómstóllinn lagt á það fésekt, þó ekki hærri en sem nemur 0,1% af vergri landsframleiðslu ríkisins (8. gr. SSSS).


Sáttmálinn um stöðugleika, samræmingu og stjórnun.
Með lögfestingu ríkisfjármálasáttmálans sammælast evruríkin einnig um að tilkynna ráðinu og framkvæmdastjórninni fyrirfram um áætlanir sínar varðandi útgáfu ríkisskuldabréfa (e. national debt issuance) (6. grein SSSS). Ennfremur skuldbinda þau sig til að styðja tillögur eða tilmæli framkvæmdastjórnarinnar um að hefja svokallaða málsmeðferð vegna óhóflegs fjármálahalla (e. excessive deficit procedure) gegn tilteknu evruríki nema aukinn meirihluti evruríkja, að undanskildu viðkomandi ríki, sé því andsnúinn (7. grein SSSS). Þetta er nýmæli að því leyti að áður þurfti aukinn meirihluta atkvæða í ráðinu til að málsmeðferðinni yrði hrundið af stað (126. grein SSE) en í framtíðinni mun þurfa aukinn meirihluta atkvæða til að hindra að henni verði komið af stað.

Eins og öðrum ákvæðum ríkisfjármálasáttmálans er þessari breytingu ætlað að hindra óhóflega skuldasöfnun einstakra evruríkja í framtíðinni og draga lærdóm af ófullnægjandi beitingu samningsins um stöðugleika og vöxt á árunum fyrir skuldakreppuna.

Með ríkisfjármálasáttmálanum skuldbinda evruríkin sig einnig til að auka efnahagslega samræmingu sín á milli meðal annars með því að gera hverju öðru grein fyrir öllum mikilvægum aðgerðum í efnahagsmálum sem þau hafa í bígerð, það er að segja áður en aðgerðirnar koma til framkvæmda (11. grein SSSS). Ennfremur á samningurinn að tryggja betri stjórnun í efnahagsmálum á evrusvæðinu með því að innleiða sérstaka evrufundi (e. Euro summit) (12. grein SSSS). Þar munu þau geta tekið ákvarðanir um mál sem varða evrusamstarfið án þátttöku þeirra aðildarríkja ESB sem ekki hafa tekið upp evru. Evrufundir skulu fara fram að lágmarki tvisvar á ári og yfir þá verður settur sérstakur forseti evrufundarins (e. President of the Euro Summit).

Áætlanir Evrópusambandsins um aukinn stöðugleika í ríkisfjármálum evruríkjanna eru viðamiklar. Þótt enn eigi eftir að lögfesta ríkisfjármálasáttmálann í aðildarríkjunum eru áætlanirnar þegar langt komnar með innleiðingu endurbóta á samningnum um stöðugleika og vöxt. Þrátt fyrir það hefur verið bent á það úr ýmsum áttum að aðgerðir ESB hingað til dugi hvergi nærri til að tryggja efnahagslegan stöðugleika á evrusvæðinu til framtíðar og að þörf sé á enn meira framsali ríkisvalds til sameiginlegra stofnana (sjá Martin Feldstein 2012 og Schuknecht, Moutot, Rother og Stark, 2011).

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela