Spurning

Hvernig hefur samningnum um stöðugleika og vöxt verið breytt í kjölfar ríkisfjármálakreppunnar á evrusvæðinu?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Breytingar á samningnum um stöðugleika og vöxt (e. Stability and Growth Pact, SGP) er annar helsti liðurinn í áætlun Evrópusambandsins um að auka samræmingu í ríkisfjármálum aðildarríkjanna og koma í veg fyrir aðra ríkisfjármálakreppu. Með gildistöku svonefnds umbótapakka (e. Six-Pack) í desember 2011 voru innleiddar margvíslegar nýjar reglur í samninginn. Reglurnar lúta fyrst og fremst að strangara eftirliti með óhóflegum halla og skuldum í ríkisrekstri og hertari viðurlögum við brotum á reglunum og jafnvel í aðdraganda brota.

***

Samningurinn um stöðugleika og vöxt var undirritaður af aðildarríkjum Evrópusambandsins árið 1997 í þeim tilgangi að auka samræmingu í ríkisfjármálum í Efnahags- og myntbandalaginu (e. Economic and Monetary Union). Samningurinn hefur verið uppfærður tvisvar, árið 2005 og 2011.

Markmið samningsins um stöðugleika og vöxt var að tryggja áframhaldandi aga í ríkisfjármálum aðildarríkjanna eftir að skilyrðin fyrir upptöku sameiginlegs gjaldmiðils (Maastricht-skilyrðin) höfðu verið uppfyllt og evran innleidd. Þetta þótti ekki síst Þjóðverjum nauðsynlegur grundvöllur sameiginlegrar peningamálastefnu evruríkjanna en meginmarkmið hennar er að viðhalda stöðugu verðlagi.


Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, mætir á enn einn krísufund leiðtogaráðs ESB vegna eruvandans, í október 2011.

Samningurinn um stöðugleika og vöxt samanstóð upphaflega af ályktun leiðtogaráðsins um samninginn (Resolution of the European Council on the Stability and Growth Pact) og tveimur reglugerðum:
  • Reglugerð (nr. 1466/97/EB) um forvarnarhluta samningsins (e. the preventive arm of the Stability and Growth Pact) sem felur í sér skyldu aðildarríkjanna til að leggja fram árlega stöðugleika- eða samleitniáætlun (e. stability or convergence programme) um hvernig þau ætli sér að ná eða viðhalda traustri fjárhagsstöðu.
  • Reglugerð (nr. 1467/97/EB) um leiðréttingarhluta samningsins (e. the dissuasive arm of the Stability and Growth Pact) sem ákvarðar svonefnda málsmeðferð varðandi óhóflegan fjármálahalla (e. excessive deficit procedure, EDP). Málsmeðferðinni er hrundið af stað við það að tiltekið aðildarríki brýtur ákvæði sáttmálans um starfshætti ESB (SSE) um að halli á rekstri hins opinbera megi ekki vera meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) (126. grein SSE og bókun 12).

Við upphaflega gerð samningsins um stöðugleika og vöxt lögðu Þjóðverjar á það áherslu að við brot á ákvæðinu um 3% fjármálahalla yrði sjálfkrafa heimt sekt af viðkomandi ríki. Ekki síst vegna andstöðu Frakka fór það svo að í endanlegri útgáfu samningsins var kveðið á um að ríki með óhóflegan fjármálahalla yrði aðeins sektað ef aukinn meirihluti fulltrúa í ráðinu samþykkti tillögu um slíkt. Atvik höguðu því síðan þannig að Þýskaland og Frakkland voru fyrstu ríkin sem sættu málsmeðferð vegna óhóflegs fjármálahalla. Þegar til þess kom í lok árs 2003 að framkvæmdastjórnin lagði fram tillögur um vítur gegn ríkjunum tveimur var þeim hafnað af meirihluta evruríkjanna sem kusu um þær í ráðinu. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á samningnum um stöðugleika og vöxt, sem heldur slökuðu á reglum um eftirlit með halla í ríkisfjármálum en hitt.

Þessi þróun leiddi til þess að þegar önnur minni evruríki urðu uppvís að því að hafa óhóflegan halla á ríkisrekstri, svo sem Grikkland og Ítalía, reyndist erfitt að taka þann vanda föstum tökum. Þýskaland og Frakkland höfðu verið hinum evruríkjunum slæm fyrirmynd að tvennu leyti, í fyrsta lagi með því að brjóta regluna um 3% halla og í öðru lagi með því að komast upp með það.


Frá atkvæðagreiðslu á Evrópuþinginu.

Í kjölfar ríkisfjármálakreppunnar, sem skall á evrusvæðinu árið 2010 og enn sér ekki fyrir endann á, hefur samningurinn um stöðugleika og vöxt verið endurbættur öðru sinni. Endurbæturnar felast í nokkurs konar umbótapakka varðandi efnahagsstjórnun sem samanstendur af fimm reglugerðum og einni tilskipun (e. EU Economic governance „Six-Pack“). Meginmarkmið endurbótanna, sem tóku gildi í desember 2011, er að efla efnahagsstjórn ESB og eru eftirfarandi þættir taldir veigamestir í því tilliti:
  • Aðildarríkin skuldbinda sig til að ná markverðum árangri í átt að tilteknum fjárlagamarkmiðum til meðallangs tíma (e. medium-term budgetary objectives, MTO) um jöfnuð í ríkisrekstri. Aðildarríki sem fara ekki eftir þessum reglum þurfa að leggja fram tryggingu (e.deposit) sem nemur 0,2% af VLF auk vaxta.
  • Málsmeðferð vegna óhóflegs fjármálahalla mun geta hafist jafnt vegna halla á ríkisfjármálum og vegna þróunar skulda hins opinbera. Aðildarríki með skuldir umfram 60% af VLF skulu lækka skuldir sínar í samræmi við tiltekið tölulegt viðmið. Stighækkandi fjársektir munu ennfremur koma til sögunnar fyrr í málsferðinni. Evruríki sem sætir málsmeðferð vegna óhóflegs fjármálahalla eða skulda getur þurft að greiða tryggingu sem nemur 0,2% af VLF án vaxta. Vanræki evruríki að fara eftir ráðleggingum til leiðréttingar skuldastöðu sinnar eða halla mun það verða sektað.
  • Reglur um fjárlög í aðildarríkjum ESB munu þurfa að uppfylla vissar lágmarkskröfur til að tryggja gegnsæi og sambærileika.
  • Nýtt aðvörunarkerfi (e. alert mechanism) mun miða að því að koma í veg fyrir og leiðrétta sundurleitni í samkeppnishæfni og þjóðhagslegt ójafnvægi milli aðildarríkjanna. Það mun byggjast á stigatöflu vísbendinga og ítarlegum skýrslum fyrir einstök lönd sem og ströngum reglum í tengslum við svokallaða málsmeðferð vegna óhóflegs ójafnvægis (e. Excessive Imbalance Procedure, EIP). Fyrsta skýrsla framkvæmdastjórnarinnar um aðvörunarkerfið (Alert Mechanism Report) kom út í febrúar síðastliðnum.

Umbótapakkanum hefur verið vel tekið sem skrefi í þá átt sem er nauðsynleg til að treysta grundvöll evrusamstarfsins. Að sama skapi hefur þó verið gagnrýnt að umbæturnar gangi ekki nógu langt. Þess verði að krefjast af þeim ríkjum sem vilja nota evru sem gjaldmiðil að þau láti af hendi fullveldi sitt hvað varðar þjóðhagsleg markmið um ríkisskuldir og halla. Þannig kom fram í nýlegri grein, sem gefin var út í ritröð Seðlabanka Evrópu, að á meðal þeirra reglna sem enn á eftir að innleiða, og er nauðsynleg óumflýjanlegri samræmingu í fjármálum evruríkjanna, er að fjárhagsáætlanir einstakra evruríkja sem fela í sér halla umfram 3% skuli þurfa einróma samþykki ríkisstjórna evruríkjanna (sjá Schuknecht, Moutot, Rother og Stark, 2011).

Hinn liðurinn í áætlun Evrópusambandsins um að auka samræmingu í ríkisfjármálum evruríkjanna felst í innleiðingu svokallaðrar skuldabremsu. Um hana má lesa nánar í svari við spurningunni Um hvað fjallar nýi sáttmálinn um samræmi í ríkisfjármálum evruríkjanna?

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela