Spurning

Í hvaða samningsköflum fer Ísland hvorki fram á aðlögun, undanþágur né sérlausnir?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í fjórtán samningsköflum, sem taldir eru upp hér að neðan, er opinber samningsafstaða Íslands sú að regluverk Evrópusambandsins er samþykkt án óska um undanþágur, sérlausnir eða aðlögun.

***

Löggjöf Evrópusambandsins skiptist í 35 kafla og er samið um 33 þeirra meðan á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið stendur. Í 29 af samningsköflunum 33 hefur aðalsamninganefnd birt opinbera samningsafstöðu sína en úr þeim má lesa hver raunveruleg viðfangsefni samningaviðræðnanna eru, það er um hvað er samið. Samningsmarkmiðin eru mjög ólík að efni og umfangi eftir köflum, allt frá óskum um aðlögunartímabil við innleiðingu reglna til ítarlegra krafna um efnislegar undanþágur frá tilteknum lögum og reglum.

Í fjórtán samningsköflum innihalda opinberar samningsafstöður Íslands engin markmið um sérlausnir, undanþágur eða aðlögunartímabil. Þær eiga það sammerkt að í þeim kemur fram að Ísland:

  1. fallist á regluverk Evrópusambandsins í viðkomandi köflum eins og það var á tilteknum degi (tekin er fram dagsetning rýnifundar viðkomandi kafla) og
  2. muni hafa lokið við innleiðingu á öllu regluverki, sem fellur undir viðkomandi kafla fram til þess dags og ekki hefur verið innleitt, við aðild.

Kaflarnir sem um ræðir eru:

Tólf af köflunum fjórtán heyra undir efnissvið EES-samningsins, þar af flestir að öllu leyti og aðrir að hluta. Það þýðir að réttarreglur Evrópusambandsins í viðkomandi köflum hafa nú þegar verið innleiddar í íslensk lög að langmestu leyti. Aðeins kaflarnir um réttarvörslu og grundvallarréttindi og utanríkis-, öryggis- og varnarmál heyra ekki undir EES-samninginn. Ísland samþykkir réttarreglur síðarnefnda kaflans en leggur hins vegar til að aðildarsamningnum fylgi sameiginleg yfirlýsing þar sem lögð er áhersla á eftirfarandi:

Ákvæði sáttmálans um sameiginlega stefnu í öryggis- og varnarmálum hafa ekki áhrif á sérstöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum, sem herlaust land. Ísland mun, í samræmi við ákvæði sáttmálanna, viðhalda valdheimildum sínum í öryggis- og varnarmálum.

Nánar er fjallað um samningsafstöðu Íslands í kaflanum í svari við spurningunni Hver er samningsafstaða Íslands í utanríkis, öryggis- og varnarmálum?


Myndin sýnir stöðuna í viðræðunum í upphafi árs 2013. Smellið á myndina til að stækka hana.

Nú í upphafi árs 2013 standa aðildarviðræðurnar þannig að 27 kaflar af 33 hafa verið opnaðir og ellefu lokað. Allir kaflarnir ellefu, sem viðræðum hefur lokið um til þessa, eru á meðal samningskaflanna fjórtán sem taldir eru upp hér að ofan. Þetta þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess sem fram kom hér að ofan um að reglur kaflanna hafi þegar verið innleiddar á grundvelli EES-samningsins, enda voru tíu af köflunum ellefu opnaðir og lokað aftur samdægurs. Þrír kaflanna fjórtán eru enn opnir, það eru kaflarnir um opinber innkaup, upplýsingasamfélagið og fjölmiðla sem og kaflinn um félags- og vinnumál.

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela