Spurning

Hvaða samningskaflar, í viðræðunum við ESB, heyra undir EES-samninginn og hvað stendur út af?

Spyrjandi

Guðjón Eiríksson

Svar

Löggjöf ESB skiptist í 35 kafla og er samið um 33 þeirra á meðan aðildarviðræður standa yfir milli Evrópusambandsins og umsóknarríkis. Framkvæmdastjórn ESB hefur metið það svo að 21 kafli af þessum 35 heyri undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið; 10 kaflar að öllu leyti og 11 kaflar að stórum hluta.

***

Samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu snúast um það með hvaða hætti umsóknarríki tekur upp og framkvæmir löggjöf og stefnur Evrópusambandsins. Lagaverki sambandsins er skipt í 35 kafla eftir málaflokkum sem semja þarf um hvern fyrir sig.


Samningahópur um byggðamál á rýnifundi með framkvæmdastjórn ESB.

Áður en viðræður um einstaka samningskafla hefjast bera umsóknarríkið og ESB löggjöf sína saman í því skyni að sjá hversu samræmd hún er og komast að því hvað muni sérstaklega þurfa að semja um. Á svonefndum rýnifundum útskýra umsóknarríkið og Evrópusambandið löggjöf sína fyrir hvort öðru og kynna stefnur sínar og samningsafstöðu á viðkomandi sviðum.

Þegar rýnifundum er lokið hefjast hinar eiginlegu samningaviðræður. Á svonefndum ríkjaráðstefnum, sem haldnar eru að jafnaði fjórum sinnum á ári, eru viðræður um einstaka kafla formlega hafnar og þeim lokið, í daglegu tali er það kallað að kaflar séu opnaðir og þeim lokað. Til að opna nýja kafla þarf einróma samþykki aðildarríkja ESB. Umsóknarríkið og Evrópusambandið skiptast síðan á samningsafstöðu þar til sameiginleg niðurstaða hefur náðst. Samningaferlinu lýkur þegar öllum köflunum hefur verið lokað, en þá liggur aðildarsamningurinn fyrir. Til að öðlast gildi þurfa ráðherraráðið, Evrópuþingið, öll aðildarríki Evrópusambandsins, 28 talsins, og umsóknarríkið að samþykkja hann. Á Íslandi mun samningurinn þar að auki þurfa meirihlutasamþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu til fullgildingar.


Íslenskir fulltrúar á ríkjaráðstefnu með ESB í Brussel 22. júní 2012. Frá vinstri: Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Brussel og Maríanna Jónasdóttir formaður samningahóps um fjárhagsmálefni.

Vegna þátttökunnar í EES-samstarfinu hefur Ísland nú þegar tekið upp stóran hluta löggjafar ESB í 21 kafla af 35, nánar tiltekið 10 kafla að öllu leyti og 11 að mestu leyti. Köflunum 35 er skipt á milli tíu samningahópa. Þeir kaflar sem falla undir EES-samninginn eru í höndum tveggja samningahópa; annars vegar EES I, vörur, orka, samkeppnismál o.fl. og hins vegar EES II, félagsmál, þjónusta, fjárfestingar, umhverfismál o.fl.

Eftirfarandi 8 samningskaflar falla undir samningahópinn EES I (hægt er að smella á hvern kafla til að fá nánari upplýsingar á vef utanríkisráðuneytisins):

Á forræði samningahópsins EES II eru eftirfarandi 13 kaflar:

Eftir standa 14 kaflar sem falla utan EES-samstarfsins:

27 kaflar af 33 hafa verið opnaðir og af þeim hefur 11 verið lokað, það eru kaflar 2, 6, 7, 8, 20, 21, 23, 25, 26, 28 og 31. Tveir kaflar af þessum ellefu falla ekki undir EES-samstarfið, kafli 23 um réttarvörslu og grundvallarréttindi og kafli 31 um utanríkis-, öryggis- og varnarmál.

Yfirlitstafla um stöðu samningaviðræðna Íslands og ESB, þar sem kaflarnir 35 eru útlistaðir, má finna á heimasíðunni www.vidraedur.is.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:
Aðildarsamningur að ESB skiptist í 35 kafla. Hverjir af þeim heyra undir EES-samninginn og hvað stendur út af?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 6.7.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvaða samningskaflar, í viðræðunum við ESB, heyra undir EES-samninginn og hvað stendur út af?“. Evrópuvefurinn 6.7.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62882. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela