Spurning

Hvað er undanskilið í EES-samningnum?

Spyrjandi

Ottó Jónsson

Svar

Þegar spurt er hvað sé undanskilið í EES-samningnum er átt við hvaða sameiginlegu stefnur og málaflokkar sem aðildarríki Evrópusambandsins vinna saman að, á grundvelli ESB-sáttmálanna, falli utan gildissviðs samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fengu EFTA/EES-ríkin, Ísland þar með talið, aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Markmið samningsins er „að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum og þannig mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði“ (1. gr. EES-samningsins). Samningurinn byggist á reglunni um svonefnt fjórfrelsi, það er frelsi í viðskiptum með vörur og þjónustu og frjálsum flutningum fjármagns og vinnuafls á milli aðildarríkja samningsins, en fjórfrelsið er einnig hornsteinn sáttmálanna um Evrópusambandið.


Fulltrúar EFTA/EES-ríkjanna og ESB á fundi árið 2010.

Undir EES-samninginn falla þar að auki ýmsir málaflokkar sem varða fjórfrelsið, ýmist að fullu eða að hluta til, svo sem samkeppnismál, félagsmál, umhverfismál, neytendavernd, hagskýrslugerð og félagaréttur (sjá IV. og V. hluta EES-samningsins). Enn fremur kveður samningurinn á um nánari samvinnu á nokkrum sviðum utan marka fjórfrelsisins, svo sem á sviði rannsókna og þróunar og menntamála (sjá VI. hluta EES-samningsins). Á heimasíðu EFTA er að finna gott yfirlit yfir þá málaflokka sem eru hluti af EES-samningnum.

EES-samningurinn er hins vegar ekki samningur um stofnun tollabandalags og kveður ekki á um sameiginlega viðskiptastefnu aðildarríkjanna, eins og sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins. Samningurinn kveður heldur ekki á um alhliða fríverslun þar sem viðskipti með landbúnaðar- og sjávarafurðir falla að miklu leyti utan gildissviðs hans. Utan við EES-samninginn eru enn fremur sameiginlegar stefnur Evrópusambandsins í landbúnaði og sjávarútvegi, náttúruvernd, auðlindanýting, Efnahags- og myntbandalag Evrópu sem og sameiginleg utanríkis- og öryggisstefna sambandsins. Samstarf ESB á sviði dóms- og innanríkismála fellur einnig utan EES-samningsins en Ísland er hins vegar aðili að Schengen-samstarfinu, sem flokkast sem dóms- og innanríkismál á grundvelli sérstaks samnings þar að lútandi. Nánari umfjöllun um Schengen-samstarfið er að finna í svari við spurningunni Hvað felst í Schengen-samstarfinu og þarf ég vegabréf til að ferðast innan Schengen-svæðisins?

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela