Spurning

Hvað felst í Schengen-samstarfinu og þarf ég vegabréf til að ferðast innan Schengen-svæðisins?

Spyrjandi

Jónas Jónsson, Arnar Hlynsson

Svar

Schengen-samstarfið snýst meðal annars um að tryggja frjálsa för einstaklinga innan Schengen-svæðisins, samráð í eftirliti með ytri landamærum þátttökuríkjanna og í baráttunni gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Ísland er eitt þeirra 26 ríkja sem hafa undirritað Schengen-samninginn. Innanríkisráðherra situr fundi dóms- og innanríkismálaráðs ESB, sem er vettvangur ákvarðanatöku Schengen-samstarfsins, en hefur ekki atkvæðisrétt.

***

Schengen-samstarfið byggir á samningi sem undirritaður var í bænum Schengen í Lúxemborg þann 14. júní 1985. Markmið samningsins var tvíþætt, annars vegar að fella niður eftirlit með ferðum manna yfir sameiginleg landamæri Belgíu, Frakklands, Hollands, Lúxemborgar og Þýskalands og hins vegar að styrkja eftirlit gagnvart öðrum ríkjum.


Frá bænum Schengen í Lúxemborg. Það þarf ekki vegabréfsáritun til að ferðast um á Schengen-svæðinu. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa alltaf meðferðis gild persónuskilríki til að geta sannað á sér deili.

Í dag eru Schengen-ríkin tuttugu og sex talsins. Þau eru öll EFTA-ríkin og aðildarríki ESB að undanskildu Bretlandi, Írlandi, Kýpur, Rúmeníu og Búlgaríu. Búlgaría og Rúmenía sóttu um aðild að Schengen-samstarfinu árið 2010 en var hafnað 22. september árið 2011 þegar Holland og Finnland beittu neitunarvaldi. Þegar þetta er skrifað, í febrúar 2012, hefur forseti leiðtogaráðsins, Herman Van Rompuy, nýlega mælst til þess að aðild Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen verði tekin aftur til umræðu á fundi leiðtogaráðsins í mars næstkomandi.

Schengen-samstarfið snýst annars vegar um að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar um að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Samstarfinu fylgir samræming á sviði vegabréfsáritana, í málefnum hælisleitenda og í eftirliti með ytri landamærum sem og aukin samvinna í lögreglu- og dómsmálum.

Til að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi hefur lögreglusamvinna ríkjanna verið efld. Schengen-upplýsingakerfið er mikilvægur þáttur í þeirri samvinnu. Það er gagnagrunnur sem geymir meðal annars upplýsingar um einstaklinga sem eru eftirlýstir vegna gruns um afbrot eða vegna fangelsisrefsingar sem þeir eiga eftir að afplána. Ennfremur inniheldur grunnurinn upplýsingar um einstaklinga sem er saknað, útlendinga sem neita á um inngöngu inn á Schengen-svæðið, einstaklinga sem stefna á fyrir dóm sem og upplýsingar um stolna muni eins og bifreiðar, skotvopn, skilríki og fleira. Samstarfsríkin færa sjálf upplýsingar inn í kerfið og eru þær samstundis aðgengilegar lögreglumönnum og öðrum fulltrúum í öllum Schengen-ríkjunum.

Það þarf ekki vegabréfsáritun til að ferðast um á Schengen-svæðinu. Þess er hins vegar krafist að þeir sem ferðast á svæðinu hafi gild persónuskilríki meðferðis til að sanna á sér deili. Það er mikilvægt að Íslendingar sem ferðast erlendis hafi ávallt vegabréf sitt meðferðis enda eru þau víða einu persónuskilríkin, gefin út hér á landi, sem tekin eru gild erlendis. Þá taka reglur ýmissa flugfélaga fram að þau krefjist framvísunar vegabréfs áður en gengið er um borð í flugvél.

Ísland hefur verið þátttakandi í Schengen-samstarfinu frá 25. mars 2001. Samstarfið fellur undir starfssvið innanríkisráðuneytisins. Með þátttökunni á Ísland rétt á að sitja fundi á öllum stigum ákvarðanatöku í dóms- og innanríkismálaráði ESB (e. Justice and Home Affairs Council), sem er vettvangur ákvarðanatöku um Schengen-samstarfið, án þess þó að hafa atkvæðisrétt. Innanríkisráðherra er þannig eini ráðherra Íslands sem fær boð um að sitja ráðherrafundi ESB. Þar af leiðandi eiga Íslendingar í raun greiðari aðgang að ákvarðanatökuferli ESB um málefni tengd Schengen heldur en um þau málefni sem falla undir EES-samninginn.

Heimildir og mynd:

Upprunalegar spurningar:

Hver er tilgangur Schengen? Er svona erfitt að taka vegabréfið með í ferðalög? Þarf ég eða þarf ég ekki vegabréf til að ferðast innan Schengen-svæðisins? Hvað eru lögleg skilríki?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.2.2012

Tilvísun

Valgerður Húnbogadóttir. „Hvað felst í Schengen-samstarfinu og þarf ég vegabréf til að ferðast innan Schengen-svæðisins?“. Evrópuvefurinn 9.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=54306. (Skoðað 15.7.2024).

Höfundur

Valgerður Húnbogadóttirlögfræðingur og LLM í þjóðarétti

Við þetta svar er engin athugasemd Fela