Spurning

Hvað er átt við með bókunum og viðaukum í sambandi við EES-samninginn?

Spyrjandi

Andrea Valgeirsdóttir

Svar

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var undirritaður í Portúgal árið 1992 og gekk í gildi 1. janúar 1994. Aðilar að samningnum eru annars vegar EFTA/EES-ríkin Ísland, Liechtenstein og Noregur og hins vegar aðildarríki Evrópusambandsins.

Samningurinn skiptist í meginmál (129 greinar), 49 bókanir og 22 viðauka. Meginmál EES-samningsins skilgreinir þann ramma sem gildir um EES-samstarfið en viðaukar og bókanir eru óaðskiljanlegur hluti hans, hafa sömu lagalega stöðu og meginmál, og nýtast til túlkunar á ákvæðum samningsins.


EES-samningurinn skiptist niður í 129 greinar, 49 bókanir og 22 viðauka.
Í viðaukum við EES-samninginn er að finna vísanir til þeirra réttarreglna Evrópusambandsins (reglugerða, tilskipana og ákvarðana) sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn og gilda því á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta fer þannig fram að samningsaðilar hittast á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar eftir að afleidd löggjöf hefur verið samþykkt innan Evrópusambandsins, hvort sem um er að ræða reglur um mál sem ekki hefur verið fjallað um áður en eru á samningssviðinu eða breytingar á eldri reglum sem eru í EES-samningnum, og samþykkja þar að gera nýju löggjöfina að hluta af EES-samningnum. Ef sameiginlega EES-nefndin fellst á að fella nýjar reglur inn í EES-samninginn öðlast þær gildi að uppfylltum skilyrðum stjórnskipunaréttar hvers lands og vísun til viðkomandi gerðar er bætt við þann viðauka EES-samningsins sem við á.

Bókanir við EES-samninginn eru mikilvægur þáttur í því að tryggja einsleita framkvæmd EES-samningsins á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í þeim er að finna ýmis ákvæði er varða málsmeðferð og tæknilega útfærslu á því hvernig markmiðum EES-samningins um innri markaðinn skuli náð. Sumar bókanir vísa til ákveðinna greina í meginmáli EES-samningsins og fela í sér nánari útskýringar á því hvernig beri að túlka þær (sjá meðal annars bókun 2, 3 og 17). Aðrar eru almennara eðlis og fjalla meðal annars um almenna framkvæmd samningsins (sjá bókun 1 og 35). Enn aðrar fela í sér undanþágur tiltekinna ríkja frá ákvæðum samningsins, svo sem bókun 7 um magntakmarkanir á vörum sem Íslandi er heimilt að viðhalda.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.4.2012

Tilvísun

Valgerður Húnbogadóttir. „Hvað er átt við með bókunum og viðaukum í sambandi við EES-samninginn?“. Evrópuvefurinn 27.4.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=28467. (Skoðað 27.4.2024).

Höfundur

Valgerður Húnbogadóttirlögfræðingur og LLM í þjóðarétti

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Guðmundur Ásgeirsson 28.4.2012

Hvað er sameiginlega EES-nefndin?

Gagnlegt væri að fá ítarlega útskýringu á hlutverki og eðli hennar, þar á meðal hvernig hún er skipuð, hvar hún starfar og svo framvegis.

Þórhildur Hagalín 3.5.2012

Sæll Guðmundur

Í handbók Evrópuvefsins er nú að finna færslu um sameiginlegu EES-nefndina, hana má lesa með því að smella á þennan tengil: Sameiginlega EES-nefndin.