Spurning
Sameiginlega EES-nefndin
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Sameiginlega EES-nefndin (e. EEA Joint Committee) er helsti samstarfsvettvangur aðila samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Hlutverk nefndarinnar er að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins og taka ákvarðanir um hvaða regluverk Evrópusambandsins heyri undir gildissvið hans. Nefndin skal taka samhljóma ákvarðanir um hvaða ESB-gerðir, sem samþykktar hafa verið á vettvangi Evrópusambandsins, skuli teknar upp í viðauka EES-samningsins og innleiddar í EFTA/EES-ríkjunum. Ennfremur fjallar nefndin um hugsanleg deilumál varðandi túlkun á samningnum og reglum, byggðum á honum, sem valda vandkvæðum í samskiptum samningsaðila. Sameiginlega EES-nefndin kemur saman til fundar mánaðarlega og eru fundirnir haldnir í Brussel. Í nefndinni eiga annars vegar sæti sendiherrar EFTA/EES-ríkjanna, Íslands, Lichtenstein og Noregs, gagnvart ESB og hins vegar fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB. Fulltrúar aðildarríkja ESB mega einnig sitja fundi nefndarinnar en þeir taka að öllu jöfnu ekki til máls. Sér til aðstoðar hefur sameiginlega EES-nefndin fimm undirnefndir. Sú fyrsta fjallar um mál á sviði frjáls vöruflæðis, önnur fjallar um frjálst flæði fjármagns og þjónustu, þriðja nefndin um frjálsa för fólks, fjórða nefndin um þverfagleg málefni og samstarfsverkefni og fimmta nefndin fjallar um lagaleg og stofnanaleg mál. Í undirnefndunum sitja embættismenn úr stjórnkerfi EFTA/EES-ríkjanna. Þær funda annars vegar sem undirnefndir fastanefndar EFTA og hins vegar sem undirnefndir sameiginlegu EES-nefndarinnar og þá með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 3.5.2012
Flokkun:
Efnisorð
sameiginlega EES-nefndin Evrópska efnahagssvæðið EES EES-samningurinn gerðir reglugerðir tilskipanir innleiðing löggjafar
Tilvísun
Evrópuvefur. „Sameiginlega EES-nefndin“. Evrópuvefurinn 3.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62507. (Skoðað 9.9.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela