Spurning

Hver er samningsafstaða Íslands í kaflanum um orkumál?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Samningskaflinn um orkumál heyrir að hluta til undir EES-samninginn. Í samningsafstöðu sinni samþykkir Ísland regluverk kaflans en sækist jafnframt eftir fimm undanþágum frá löggjöf ESB. Í fyrsta lagi óskar Ísland þess að vera undanskilið skyldum sambandsins um viðhald á lágmarksbirgðum af olíu. Í öðru lagi sækist Ísland eftir því að viðhalda undanþágu frá reglum um innri markað á sviði raforku og að Ísland sé áfram skilgreint sem „lítið, einangrað kerfi“. Í þriðja lagi sækist samninganefndin eftir því að Ísland sé undanskilið reglum ESB um orkunýtingu bygginga og í fjórða lagi að Ísland sé undanskilið reglum um skilvirkari orkunýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda. Að lokum óskar Ísland eftir því að fjallað verði sérstaklega um eignarhald á og nýtingu orkuauðlinda.

***

Samningskaflinn um orkumál (kafli 15) var opnaður á ríkjaráðstefnu þann 30. mars 2012 og honum hefur ekki verið lokað. Meginmarkmið orkustefnu Evrópusambandsins er að tengja saman orku- og umhverfismál og snýr innihald kaflans einkum að því að koma á fót innri markaði fyrir raforku og gas (það er viðskipum með raforku og gas yfir landamæri aðildarríkjanna), auka notkun endurnýjanlegra orkuauðlinda og bæta orkunýtingu í aðildarríkjunum. Jafnframt felur löggjöfin í sér skuldbindingar um neyðarolíubirgðir og öryggi á sviði kjarnorku og geislavarna. Fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda einstakra ríkja er alfarið í höndum aðildarríkjanna sjálfra og er sú regla lögfest í 194. grein sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.


Hrauneyjavirkjun.

EES-samningurinn tekur til orkumála að hluta til en af 390 gerðum Evrópusambandsins um orkumál hafa um það bil 60 gerðir verið innleiddar á Íslandi í gegnum EES-samninginn. Í rýniskýrslu samninganefndar Íslands í orkumálum kemur fram að af þeim gerðum sem ekki eru hluti af EES-samningnum snerti fimm reglugerðir hagsmuni Íslands sérstaklega. Opinber samningsafstaða Íslands í kaflanum um orkumál er því sú að Ísland samþykkir löggöf Evrópusambandsins í kaflanum en óskar jafnframt eftir fimm undanþágum sem varða aðlögunartímabil og sérlausnir.

Í fyrsta lagi óskar Ísland eftir undanþágu sem snýr að aðlögunartíma til ársins 2030 vegna tilskipana (nr. 2006/67 og 2009/119) um skyldur aðildarríkjanna til að viðhalda lágmarksbirgðum af hráolíu og/eða olíuvörum. Samninganefndin bendir á það í samningsafstöðunni að ef olíuskortur yrði á Íslandi mundi slíkt ekki valda bráðri hættu fyrir landsmenn og að auðvelt yrði að takmarka olíunotkun við þýðingarmikla starfsemi í samfélaginu, ef nauðsyn krefði. Þetta sé vegna þess að olía er ekki notuð til húshitunar á Íslandi og aðeins að takmörkuðu leyti í iðnaði og er því ekki jafn þýðingarmikil hér á landi og í aðildarríkjum ESB. Ísland stefnir hins vegar að því að ná viðmiðum sambandsins um olíubirgðir, sem jafngilda 90 daga daglegu meðaltali nettóinnflutnings, fyrir árið 2030 með því að draga úr olíunotkun og nýta endurnýjanlega orku í staðinn, á sama tíma og núverandi olíubirgðum er haldið stöðugum.

Í öðru lagi vill samninganefnd Íslands fá að viðhalda undanþágu frá 1. mgr. 44. gr. tilskipunar (nr. 2009/72), varðandi sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Ísland samdi um þessa undanþágu á sínum tíma á grundvelli EES-samningsins en í henni felst að Ísland er skilgreint sem „lítið, einangrað kerfi“ í skilningi tilskipunarinnar. Rökin fyrir áframhaldandi undanþágu eru sögð þau sömu og áður. Íslenska raforkukerfið sé einangrað kerfi en fámenni og tilvist orkufreks iðnaðar geri það að verkum að raforkunotkun á mann á Íslandi sé sú mesta á heimsvísu. Kerfið er hins vegar mjög lítið hlutfallslega séð í samanburði við aðildarríki ESB, það er einangrað frá Evrópu og einfaldara í sniðum. Ísland ætti því að vera undanskilið ýmsum reglum ESB er varða dreifikerfi fyrir orku og orkuflutninga. Til viðbótar óskar samningarnefndin eftir því að Ísland njóti þeirrar undanþágu sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar hvað varðar sundurgreiningu flutningsfyrirtækja.


Virkjun Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði.

Þriðja undanþágan sem Ísland fer fram á snýr að tilskipun (nr. 2010/31) um orkunýtingu bygginga. Ísland fékk undanþágu frá þessari tilskipun þegar hún var tekin upp í EES-samninginn á sínum tíma vegna sérstakra aðstæðna í orkumálum á Íslandi. Helstu rökin sem samninganefndin færir fyrir því að viðhalda þessari undanþágu eru þau að hérlendis sé hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun hátt. Sú orka sem notuð er til hitunar á húsnæði er 89% frá jarðvarma og 10% frá vatnsafli. Því eru einungis 0,5% losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi tilkomin vegna hitunar á húsnæði. Þetta er einstaklega lágt hlutfall í samanburði við þau 36% sem tíðkast meðal aðildarríkja Evrópusambandsins. Ísland fer fram á að ofangreind tilskipun gildi ekki um Ísland og hér verði viðhaldið núverandi fyrirkomulagi í upphitun á húsnæði.

Í fjórða lagi fer Ísland fram á að tilskipun (nr. 2006/32) um orkunýtni á lokastigi og þjónustu á sviði orkumála gildi ekki um Ísland. Markmið tilskipunarinnar er að gera orkunýtingu skilvirkari meðal aðildarríkja sambandsins, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og takast á við afleiðingar aukinnar þarfar fyrir orkuinnflutning. Samninganefnd Íslands heldur því hins vegar fram að innleiðing tilskipunarinnar á Íslandi mundi nánast engin áhrif hafa á losun gróðurhúsalofttegunda né orkuinnflutning vegna þess hve hátt hlutfall orku kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum hér á landi og lágs orkuverðs í samanburði við Evrópu. Kröfur tilskipunarinnar passi því ekki við þá orkugjafa sem eru fyrir hendi á Íslandi og mundu einungis leiða til aukins kostnaðar fyrir íslenska stjórnsýslu án þess að markmiðum tilskipunarinnar væri náð.

Í fimmta og síðasta lagi óskar Ísland eftir því að fjallað verði sérstaklega um eignarhald á og nýtingu orkuauðlinda í aðildarferlinu til að eignarhald Íslands á orkuauðlindum sínum verði tryggt án nokkurs vafa og rétturinn til þess að stjórna þeim verði ekki skertur á nokkurn hátt. Í sáttmálum Evrópusambandsins er fjallað sérstaklega um þennan rétt aðildarríkja.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.2.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver er samningsafstaða Íslands í kaflanum um orkumál?“. Evrópuvefurinn 21.2.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64402. (Skoðað 20.4.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela