Spurning

Er einhver ástæða fyrir því að einstakir kaflar eru opnaðir á undan öðrum í samningaviðræðum ESB og Íslands? Hvers vegna á til dæmis enn eftir að opna veigamikla kafla, svo sem um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál?

Spyrjandi

Ívar Daði Þorvaldsson

Svar

Í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins er ekki samið um alla samningskaflana samtímis heldur er samið sérstaklega um hvern og einn, þótt einhverjir kaflar séu opnaðir eða þeim lokað á sama tíma. Betur hefur gengið að vinna úr þeim köflum sem heyra undir EES-samninginn og Schengen-samstarfið. Þá hefur það tafið fyrir opnun kaflanna um landbúnað og byggðastefnuna að ESB fór fram á að íslensk stjórnvöld legðu fram ítarlega áætlun um hvernig Ísland muni innleiða lög og reglur sambandsins á þessum samningssviðum ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild verður jákvæð en áður en til aðildarinnar kemur. Hvað varðar sjávarútvegskaflann þá hefur ESB enn ekki lokið rýniskýrslu sinni en þær tafir má rekja til yfirstandandi endurskoðunar sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar og makríldeilunnar.

***

Rúm tvö ár eru liðin frá því að Ísland fékk formlega stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu. Hinar eiginlegu samningaviðræður Íslands og ESB, sem enn standa yfir, hófust í júní 2011. Löggjöf ESB sem semja þarf um skiptist í 33 kafla en í viðræðunum hefur, þegar þetta er skrifað í lok október 2012, verið opnaður 21 kafli og þar af 10 þegar verið lokað. Þá hefur íslenska samninganefndin afhent ESB samningsafstöður í sjö köflum til viðbótar. Yfirlit um stöðu viðræðnanna með nákvæmum dagsetningum má nálgast á vefsíðunni viðræður.is.

Í aðildarviðræðunum er ekki samið um alla samningskaflana samtímis heldur er samið sérstaklega um hvern og einn, þótt einhverjir kaflar séu opnaðir eða þeim lokað á sama tíma á ríkjaráðstefnum. Ísland hefur nú þegar tekið upp stóran hluta löggjafar ESB í íslensk lög í gegnum EES-samninginn og Schengen-samstarfið eða því sem nemur 10 köflum að öllu leyti og 11 köflum að mestu leyti. Um suma kaflana er því auðveldara að semja en aðra. Bróðurpartur þeirra 10 kafla sem þegar hefur verið lokað heyrir að miklu leyti undir EES-samninginn og Schengen. Tveimur samningsköflum sem standa alfarið utan EES-samstarfsins, það er um utanríkis-, öryggis- og varnarmál og um réttarvörslu og grundvallarréttindi, hefur þó einnig verið lokað. Nánar er fjallað um hvaða kaflar falla undir EES-samninginn í svari við spurningunni Hvaða samningskaflar, í viðræðunum við ESB, heyra undir EES-samninginn og hvað stendur út af?


Yfirlit um stöðu aðildarviðræðnanna í október 2012. Smellið til að stækka myndina.

Frá upphafi aðildarviðræðnanna hefur það verið markmið aðalsamninganefndar Íslands að hefja samningaviðræður sem allra fyrst um þá kafla þar sem miklir hagsmunir Íslands liggja svo sem í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Þessar áætlanir hafa ekki gengið eftir en veigamiklir kaflar standa enn óopnaðir. Á þessu eru fleiri en ein skýring. Þar ber fyrst að nefna að Evrópusambandið getur krafist þess að umsóknarríki komi til móts við ákveðin viðmið (e. benchmarks) áður en viðræður um tiltekinn samningskafla hefjast eða ljúka. Í því getur falist aðlögun að regluverki sambandsins eins og nánar er fjallað um í svari við spurningunni Hvort er Ísland í aðlögunar- eða viðræðuferli við ESB?

Í aðildarviðræðunum við Ísland setti ESB fram opnunarviðmið í tveimur samningsköflum, um landbúnað og dreifbýlisþróun annars vegar og byggðastefnu og samræmingu uppbyggingarsjóða hins vegar. Farið var fram á að íslensk stjórnvöld legðu fram áætlun um hvernig Ísland ætli að innleiða lög og reglur ESB á ofannefndum samningssviðum eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning hefur farið fram en áður en til formlegrar aðildar kæmi, ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrði jákvæð. Áætlanirnar hafa nú báðar verið lagðar fram og hefur Evrópusambandið staðfest að opnunarviðmiðunum hafi þar með verið fullnægt. Íslensk stjórnvöld hafa þegar afhent samningsafstöðu sína í byggðamálum en enn er unnið að samningsafstöðunni í landbúnaðarmálum. Afhending hennar er forsenda þess að samningskaflinn verði opnaður og því liggur boltinn í landbúnaðarmálunum hjá Íslendingum.

Hvað varðar kaflann um sjávarútvegsmál er boltinn hins vegar hjá Evrópusambandinu. Sambandið hefur ekki enn lokið við rýniskýrsluna sem er forsenda þess að unnt verði að hefja viðræður um kaflann. Þessar tafir má meðal annars rekja til yfirstandandi endurskoðunar ESB á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Þetta flækir viðræðurnar þar sem óvíst er að hve miklu leyti núgildandi reglur verða áfram í gildi þegar að aðild kæmi. Einnig verður að telja víst að makríldeilan hafi áhrif á vilja einstakra aðildarríkja til að semja við Íslendinga um sjávarútvegsmál. Nánar er fjallað um makríldeiluna í svari við spurningunni Mundi ESB-aðild breyta því hvernig tekið yrði á því ef nýr fiskistofn gengi inn í íslenska fiskveiðilögsögu? Hefði verið betra eða verra í núverandi makríldeilu að vera aðili að ESB?


Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands ásamt Herman Van Rompuy forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Enn liggur ekki fyrir af hálfu sambandsins hvenær það telji sig reiðubúið til að hefja viðræður um sjávarútvegsmálin þrátt fyrir að Ísland hafi ítrekað lagt áherslu á að kaflinn verði opnaður sem fyrst. Einnig má gera ráð fyrir því að þegar rýniskýrslan verður loks tilbúin verði viðræðurnar háðar frekari töfum því sambandið gæti ákveðið að óska eftir frekari upplýsingum eða áætlunum, til dæmis í formi opnunarviðmiða, líkt og í samningsköflunum um landbúnað og byggðamál.

Í viðræðunum um aðild Íslands að ESB eru margvísleg erfið mál framundan í þeim köflum þar sem viðræðum er ekki lokið. Að frátöldum ofangreindum þáttum þá gætu einnig orðið tafir í kaflanum um frjálsa fjármagnsflutninga vegna núverandi gjaldeyrishafta á Íslandi en frjálst flæði fjármagns er ein af grunnstoðum löggjafar Evrópusambandsins. Mikil vinna er einnig fyrir höndum í tengslum við kaflana um skattamál og tollabandalag en unnið er að aðgerðar- og tímaáætlunum um hvernig Ísland ætli að efla tölvukerfi, verkferla og mannauð til að íslensk skatta- og tollayfirvöld hafi nægilega getu til að innleiða löggjöf ESB ef til aðildar kemur. Þá er samningsafstaða Íslands ekki fullmótuð í köflunum um matvælaöryggi og staðfesturétt og þjónustufrelsi.

Í kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB var áætlað að aðildarviðræðurnar mundu taka um það bil 18 mánuði og að þeim yrði lokið um mitt ár 2011. Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til Alþingis 2011-2012 er gert ráð fyrir að viðræður muni standa nokkuð fram yfir kosningar 2013 en þá muni taka við fullgildingarferli með þjóðaratkvæðagreiðslu og, verði hún samþykkt, lokaundirbúningi aðildar.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur26.10.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Er einhver ástæða fyrir því að einstakir kaflar eru opnaðir á undan öðrum í samningaviðræðum ESB og Íslands? Hvers vegna á til dæmis enn eftir að opna veigamikla kafla, svo sem um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál?“. Evrópuvefurinn 26.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63420. (Skoðað 27.4.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela