Spurning

Hvernig gæti innganga í ESB haft áhrif á dreifbýl svæði eins og Austurland?

Spyrjandi

Guðný Einarsdóttir

Svar

Rannsóknir á áhrifum ESB-aðildar á dreifbýl svæði eru af skornum skammti enn sem komið er en kunna að aukast á næstunni í tengslum við umsókn Íslands. Hægt er að segja fyrir um hvaða svið samfélagsins yrðu helst fyrir áhrifum en erfiðara er að segja fyrir um hve mikil þau yrðu eða hvort þau beri að telja jákvæð eða neikvæð fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggja fyrir.

***

Aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi hafa áhrif á hina hefðbundnu atvinnuvegi Íslendinga, landbúnað og sjávarútveg. Innganga hefði í för með sér frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum sem mundi setja íslenskan landbúnað í samkeppnisstöðu. Almennt er talið að þær greinar sem fengju harðasta samkeppni séu svína- og alifuglarækt. Síður mundi það eiga við um sauðfjárrækt og mjólkuriðnað. Svína- og alifuglarækt fer að verulegu leyti fram í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en sauðfjárrækt og mjólkuriðnaður er dreifðari um landið. Því er ekki sjálfgefið að innganga mundi að þessu leyti bitna meira á dreifbýlum svæðum en öðrum. Um hag og óhag íslensks landbúnaðar af ESB-aðild hafa þau Erna Bjarnadóttir og Þröstur Haraldsson fjallað í svörum á Evrópuvefnum.

Áhrifin á sjávarútveg eru meira vafamál en þau fara alfarið eftir því hvernig um semst. Þeim mun meiri aðgang sem fiskiskipafloti ESB-ríkja fær að Íslandsmiðum þeim mun meiri afleiðingar getur það haft fyrir afkomu sjávarútvegs, ekki síst útgerðarbæja vítt og breitt um landið. Á þessu stigi máls er ekki hægt að fullyrða um hvernig muni semjast og því ekki hægt að gefa skýr svör við þessari spurningu hvað sjávarútveginn varðar.


Þorpið Djúpivogur, milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar, er auðþekkjanlegt af hinu formfagra fjalli Búlandstindi.

Aðild að ESB felur einnig í sér hlutdeild í hinum ýmsu styrkjasjóðum Evrópusambandsins. Á meðal þeirra eru svonefndir uppbyggingarsjóðir (e. structural funds) sem ætlað er að framkvæma byggðastefnu ESB (e. regional policy) en hún hefur það markmið að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði milli svæða með því að bæta hag þeirra svæða sem eru verst sett. Uppbyggingarsjóðirnir eru:
  • Félagsmálasjóður Evrópu (e. European Social Fund, ESF). Tilgangur hans er að fjárfesta í fólki og stuðla þannig að aukinni aðlögunarhæfni verkafólks, símenntun, aðgerðum gegn mismunun og aukinni atvinnuþátttöku kvenna, innflytjenda og þeirra sem eru félagslega einangraðir.
  • Byggðaþróunarsjóður Evrópu (e. European Regional Development Fund, ERDF). Honum var komið á fót samfara inngöngu fátækari landa í ESB, eins og Írlands, Spánar, Portúgals og Grikklands. Byggðaþróunarsjóður fjárfestir í smærri og meðalstórum fyrirtækjum með það að markmiði að skapa ný störf og efla samkeppnishæfni. Hann fjármagnar rannsóknir og nýsköpun og styrkir uppbyggingu innviða svo sem fjarskipti og samgöngur.
  • Samheldnisjóðurinn (e. Cohesion Fund). Úr honum er aðeins úthlutað til ákveðinna samevrópskra samgönguverkefna (e. Trans-European Transport Network) og verkefna sem hafa bætt áhrif á umhverfið.

Aðrir byggðatengdir sjóðir eru minni, þeir eru:
  • Dreifbýlisþróunarsjóðurinn (e. European Agricultural Fund for Rural Development, EAFRD) en honum er fyrst og fremst ætlað að efla samkeppnishæfni dreifbýlla svæða, stuðla að bættri landnotkun, auknum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnuháttum til sveita.
  • Sjávarútvegssjóðurinn (e. European Fisheries Fund, EFF) sem er meðal annars ætlað að aðlaga fiskiskipaflota aðildarríkjanna að sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB og styrkja fiskeldi, markaðsstarf og vöruþróun í sjávarútvegi.
  • Samstöðusjóður Evrópusambandsins (e. European Union Solidarity Fund, EUSF) sem veitir hjálp vegna náttúruhamfara.

Langstærstur hluti framlaganna úr uppbyggingarsjóðunum rennur til fátækustu svæða sambandsins, og raunar öll framlögin úr Samleitnisjóðnum, sem er stærstur þeirra. Því er ljóst að jafn ríkt land og Ísland yrði ekki á meðal þeirra sem mest þiggja úr sjóðum sambandsins enda talið næsta víst að sem aðili að ESB mundi Ísland greiða meira til sambandsins en það fengi til baka í formi styrkja. Með því að beita fyrir sig svonefndum strjálbýlisrökum í aðildarviðræðunum við ESB eiga Íslendingar þó möguleika á að fá viðurkennt tilkall til hærra framlags úr uppbyggingarsjóðunum en ella. Fyrir því er fordæmi í aðildarsamningi Finna og Svía, að svæði þar sem íbúaþéttleiki er undir átta íbúum á ferkílómetra njóti tiltekins stuðnings pr. íbúa óháð öðrum stuðningi úr sjóðum sambandsins.

Niðurgreiðslukerfi sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar er umfangsmikið en þó er stuðningur ESB við landbúnað minni en sá sem íslenska ríkið veitir bændum hér á landi, þegar miðað er við hlutfall af landsframleiðslu og höfðatölu. Í því sambandi má nefna svokölluð harðbýlisrök sem lúta að legu lands á norðlægum slóðum (norðan 62. breiddargráðu). Viðurkennt hefur verið að landbúnaður á slíkum svæðum hafi veikari samkeppnisstöðu sem réttlæti að aðildarríki niðurgreiði landbúnað umfram það sem fæst út úr sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB.

Af þessari samantekt má sjá að áhrif aðildar að ESB á dreifbýl svæði á Íslandi munu ekki liggja endanlega fyrir fyrr en aðildarviðræðum er lokið. Ljóst er að aðild að ESB gætu fylgt efnahagslegir ókostir fyrir dreifbýl svæði eins og Austurland. Það ræðst helst af niðurstöðum aðildarviðræðna um sjávarútvegsmál. Að sama skapi veltur það á endanlegum aðildarsamningi Íslands og ESB hversu gott aðgengi Íslendingar fá að byggðastyrkjum og byggðatengdum styrkjum sem nýst gætu byggð á dreifbýlum svæðum eins og Austurlandi.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela