Spurning

Hvaða hag og óhag hefur íslenskur landbúnaður af aðild að Evrópusambandinu? [Umræðusvar B]

Spyrjandi

Tómas Alexander Árnason

Svar

Þótt sérstaða íslensks landbúnaðar sé margvísleg glímir atvinnugreinin samt í grundvallaratriðum við sömu vandamál og allir bændur á Vesturlöndum. Tækniþróun og framfarir í ræktun og kynbótum hafa leitt af sér margfalt meiri afköst en áður hafa þekkst. Það hefur aftur leitt til þess að markaðir hafa ekki getað tekið við allri framleiðsluaukningunni og nauðsynlegt hefur reynst að setja henni skorður.

Bændur hafa brugðist við þessu með því að hagræða í rekstri. Bændabýlum hefur fækkað jafnmikið eða meira hér á landi en í Evrópu en framleiðslan hefur ekki dregist saman svo heitið geti. Býlin sem eftir standa í rekstri eru því stærri. Þessi mynd er langskýrust í mjólkurframleiðslu þar sem kúabúum hefur fækkað um 60% á tæpum tveimur áratugum, kúm hefur fækkað en framleiðslan aukist. Þessi þróun hefur svo aftur leitt af sér fólksfækkun til sveita þar sem verulega hefur dregið úr þörf fyrir vinnuafl vegna margs konar tæknibreytinga og hagræðingar.


Kúabúum hefur fækkað um 60% á síðustu tveimur áratugum.

Við þessu hefur bændastéttin og samfélagið brugðist með þeim hætti að koma á framleiðslustýringu og hefur lengst af verið reynt að miða við þörf innanlandsmarkaðar fyrir búvörur. Nú er kerfið í grófum dráttum þannig að bændur fá greitt fyrir hvert kíló eða lítra sem þeir framleiða af dilkakjöti, mjólk og vissum tegundum grænmetis. Ofan á það bætist svo tollvernd, það er að segja háir tollar á innfluttar landbúnaðarvörur sem í raun gera þær ósamkeppnishæfar. Þá eru ótaldar ýmsar smærri aðgerðir, svo sem gripagreiðslur, kornræktarstyrkir og greiðslur sem hafa það markmið að auka gæðastýringu í framleiðslunni.

Með aðild að Evrópusambandinu myndi þetta kerfi breytast í grundvallaratriðum. Tollverndin yrði afnumin á fyrsta degi og framleiðslutengdar greiðslur til bænda lækkaðar verulega. Það kæmi þó afar misjafnlega niður eftir greinum landbúnaðar. Framleiðsla á eggjum og því sem nefnt er hvítt kjöt – alifugla- og svínakjöt – ásamt hluta mjólkurframleiðslunnar yrði harðast úti en sauðfjárrækt og grænmetisframleiðsla slyppi mun betur. Þetta er þó allt sagt með fyrirvara um það hvernig aðildarsamingar nást.

Vandi bænda hér á landi er sá sami og í Evrópu: Byggð hefur hopað í dreifbýli og við það rýrna lífskjör bænda, þjónusta dregst saman og verður bæði dýrari og harðsóttari eins og við heyrum oft í fjölmiðlum. Auk þess dofnar yfir félagslífi vegna fámennis þó að bættar samgöngur komi að nokkru á móti. Styrktarkerfi sem miðast fyrst og fremst við hefðbundna búvöruframleiðslu og magn hennar breytir engu um þessa þróun. Það sýnir sagan.

Þessi vandi er ekki einkamál bænda heldur varðar hann allt samfélagið. Land sem er jafnstrjálbýlt og Ísland má ekki við því að byggðin gisni enn meir en orðið er. Þess vegna er brýn þörf á því að losa um fé sem nú rennur til framleiðslustyrkja í landbúnaði og beina því í aðrar brautir þar sem það mundi í raun styrkja byggð í landinu. Það gagnast svo aftur bæði bændum og öllu samfélaginu.

Í rannsóknum hefur komið fram að mikill hluti bænda reiðir sig á tekjur af öðru en bústörfum. Í sumum greinum landbúnaðar og á sumum landsvæðum hefur myndast það sem kalla má fátæktargildru þar sem framleiðslan gefur ekki nógu mikið af sér til þess að standa undir eðlilegum kröfum fólks um mannsæmandi laun og lífsskilyrði. Og það þótt framleiðslutengdir styrkir séu taldir með. Tækniþróunin hefur auðveldað störfin og skapað fólki aukinn tíma og svigrúm til að bæta sér upp tekjuskortinn með vinnu utan bús. En þá reka margir sig á byggðavandann sem áður er nefndur. Í sveitum hefur framboð á vinnu dregist saman.


Þróun íbúafjölda eftir sveitarfélögum árin 2004-2008. Flest fólk hefur fluttst frá rauðleitu svæðunum og til grænleitu svæðanna.

Hvað þetta varðar hefðu bændur augljósan hag af aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar hafa styrkir til landbúnaðar tekið miklum breytingum undanfarin ár. Dregið hefur verið úr framleiðslutengdum styrkjum en í þeirra stað innleiddar beingreiðslur sem miðast við búsetu í sveitum. Stuðningur við búrekstur beinist í sífellt meiri mæli að því að styrkja bændur til að viðhalda landbúnaðarlandi, bæta umhverfið og taka upp vistvænni framleiðsluhætti. Með því síðastnefnda er bæði átt við framleiðslu lífrænna afurða og sjálfbæra orkuframleiðslu, og má nefna sem dæmi lífeldsneyti, vind- og vatnsorku.

Samhliða þessu hefur vaxandi hluti þess stuðnings sem áður rann beint til búvöruframleiðslu verið fluttur yfir í Dreifbýlisþróunarsjóð landbúnaðarins (European Agricultural Fund for Rural Development, EAFRD). Sá sjóður hefur einmitt þann tilgang að bregðast við áðurnefndum vanda sem skapast vegna fólksflótta úr sveitum. Styrkir úr sjóðnum beinast að því að styrkja innviði samfélagsins í dreifbýli og fjölga atvinnutækifærum í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, ekki síst í eigu bænda. Styrkjunum er varið til að ýta undir heimavinnslu afurða, ferðaþjónustu og menningar- og félagslíf til sveita.

Sé dæmið reiknað til enda gagnast þetta bændum manna best. Þeir fá tækifæri til að afla sér tekna á heimaslóð og njóta góðs af bættri þjónustu og blómlegra mannlífi. Fyrir vikið eiga þeir betra með að stunda sína aðalatvinnu sem er hefðbundin búvöruframleiðsla. Sá er líka tilgangurinn með því að færa styrkina til. Það er ekki verið að svipta bændur lífsviðurværinu og hrekja þá á mölina eins og oft heyrist haldið fram. Þvert á móti er tilgangurinn einmitt sá að gera þeim kleift að halda börnunum heima þegar þau vaxa úr grasi.

En vitaskuld yrðu ýmsar þær breytingar sem af aðild leiða bændum erfiðar. Þeir þyrftu að horfast í augu við stöðu sína og breyta ýmsu í daglegri starfsemi sinni og umhverfi. Þeir sem yrðu fyrir tekjumissi við aðild yrðu að huga að öðrum úrræðum til þess að afla sér tekna.

Það hafa líka margir bændur þurft að gera á undanförnum árum, bæði þeir sem hafa farið út í nýjungar í störfum sínum og hinir sem hafa neyðst til að hætta búrekstri og leita sér athvarfs og atvinnu í þéttbýlinu. Það telst þó tæpast til tíðinda því þróun samfélagsins hefur leitt það sama yfir allar aðrar starfsstéttir undanfarna áratugi. Hluti þeirrar þróunar á sér rætur í aðlögun að Evrópusamstarfi samkvæmt EES-samningnum, en gildasta þátt þróunarinnar má rekja til alþjóðavæðingarinnar og einskorðast ekki við Evrópu.

Erfitt er að meta í smáatriðum hver yrði hagur eða óhagræði íslenskra bænda af aðild að Evrópusambandinu. Framundan eru samningar um þau skilyrði sem Íslendingum bjóðast við aðild og þau geta breytt myndinni í grundvallaratriðum. Bændur munu njóta þeirra almennu breytinga sem vænta má að verði á rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna lægri vaxta, minni gengissveiflna og aukins stöðugleika í fjármálum.

Verði sú stefna uppi í Brussel að slaka hvergi á neinum ákvæðum stofnsamnings ESB – eins og Bændasamtökin virðast ganga út frá í málflutningi sínum – er ljóst að annaðhvort næst enginn samningur eða hann fær ekki það fylgi sem þarf til samþykktar. Mun líklegra er hins vegar að hægt verði að ná samningum um ýmsar undanþágur, ýmist tímabundnar eða varanlegar, frá ýtrustu ákvæðum sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar og þá ættu bændur ekki að þurfa að kvíða niðurstöðunni. Þetta hefur gerst í öllum aðildarsamningum hingað til. Reynsla annarra þjóða er sú að í samningaviðræðum reyna menn að mætast á þeim slóðum sem báðir aðilar geta sætt sig við. Mér sýnist líka tónninn í nýlegri rýniskýrslu ESB staðfesta að þar á bæ viðurkenna menn að sérstaða íslensks landbúnaðar er mikil og að til hennar þurfi að taka fullt tillit. Það fer síðan eftir ýmsu hvort af aðild verður: frammistöðu samningamanna, niðurstöðu viðræðnanna og stemningunni í samfélaginu þegar atkvæðagreiðslan verður haldin.

Að henni lokinni þurfum við ekki lengur að láta okkur nægja getgátur um svarið við spurningunni sem hér er um fjallað.

Hér má lesa svar Ernu Bjarnadóttur við sömu spurningu.

Við vekjum athygli á að þetta svar er í flokknum „umræðan“. Lesendum er hér með boðið að taka þátt í umræðunni annaðhvort með því að gera athugasemdir við svarið samkvæmt almennum reglum vefsetursins eða skrifa sjálfstæð svör sem við munum birta með ánægju ef þau fullnægja siðareglum okkar.

Myndir:

Upprunaleg spurning:
Yrðu íslenskir bændur betur settir ef Ísland gengi í ESB, ef svo, afhverju? Myndi samkeppni á afurðamarkaði aukast, myndi rekstrarkostnaður lækka? Til að taka þetta saman í eina spurningu, hvaða hag/óhag hefur Íslenskur landbúnaður af aðild að Evrópusambandinu?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.10.2011

Flokkun:

Evrópumál > Umræðan

Tilvísun

Þröstur Haraldsson. „Hvaða hag og óhag hefur íslenskur landbúnaður af aðild að Evrópusambandinu? [Umræðusvar B]“. Evrópuvefurinn 14.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60883. (Skoðað 28.3.2024).

Höfundur

Þröstur Haraldssonblaðamaður og fyrrverandi ritstjóri Bændablaðsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela