Hvaða hag og óhag hefur íslenskur landbúnaður af aðild að Evrópusambandinu? [Umræðusvar A]
Spyrjandi
Tómas Alexander Árnason
Svar
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að bera saman landbúnaðarstefnu ESB og Íslands með það að markmiði að greina áhrif aðildar að ESB á íslenskan landbúnað. Umfjöllun um efnið hefur þó oft verið lituð því hvað menn telja að fengist út úr aðildarsamningum við ESB á grundvelli sérstöðu landsins svo sem norðlægrar legu og strjálbýlis. Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau muni leita eftir viðurkenningu á sérstöðu íslensks landbúnaðar í aðildarsamningi. Engin leið er þó að fullyrða hvort eða hvernig slík viðurkenning fengist í verki. Umfjöllunin hér á eftir mun því fyrst og fremst byggja á grunnstoðum sameiginlegrar landbúnaðarstefnu ESB og fjórfrelsisins. Stuðningur við landbúnað Að því gefnu að tollar á búvörum frá öðrum ESB löndum myndu falla niður frá fyrsta degi aðildar myndi verð á flest öllum búvörum til bænda lækka hér á landi. Mat Hagfræðistofnunar árið 2009 var til að mynda að mjólkurverð myndi lækka um 56%, svínakjötsverð um 35%, verð á kjúklingum um 73% og eggjum um 59% (sjá töflu 1, bls. 4 í bakgrunnsskýrslu Hagfræðistofnunar). Hér er átt við afurðaverð til bænda án beinna styrkja sem eru í beinu hlutfalli við framleiðslu, lítra eða kg. Einnig hefur verið áætlað að hlutdeild innlendra mjólkurvara í mjólkurmarkaðnum myndi minnka „…um 25 til 50% ef til óvarinnar samkeppni kæmi við innfluttar mjólkurvörur. Fullyrða má að tekjusamdrátturinn yrði meiri en markaðssamdrátturinn“ (sjá umsögn Landssambands kúabænda og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og tillögu til þingsályktunar um undirbúning aðildar að Evrópusambandinu).
Í rýniskýrslu ESB, sem kom út í byrjun september 2011, kemur fram að stuðningur við landbúnað á Íslandi sé frábrugðinn sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB (Common Agricultural Policy, CAP) og að honum þyrfti að breyta við aðild að sambandinu. Sameiginlega landbúnaðarstefnan skiptist í tvær meginstoðir. Sú fyrri lýtur að markaðsskipulagi og beingreiðslum til bænda en sú síðari að framlögum til landbúnaðar í dreifbýli – dreifbýlisþróunarstefnan (e. rural development policy). (Um þetta má lesa nánar í svari við spurningunni Hvað felst í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, CAP?) Engin leið er að segja fyrirfram til um hver heildarframlög yrðu til íslensks landbúnaðar eða hvorrar stoðar um sig. Í bakgrunnsskýrslu Hagfræðistofnunar frá 2009 er gerð tilraun til að áætla hver stuðningur sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar til íslensks landbúnaðar yrði við aðild að ESB. Í stuttu máli kemur í ljós að beinn stuðningur við íslenskan landbúnað frá ESB samkvæmt Sameiginlegu landbúnaðarstefnunni yrði umtalsvert minni en stuðningur íslenska ríkisins við landbúnað hér landi í dag (sjá töflu 9, bls. 17 í bakgrunnsskýrslu Hagfræðistofnunar). Í aðildarsamningi Finnlands var samið um sérstakan stuðning við landbúnað í Norður-Finnlandi. Mikilvægt er að hafa í huga að umrætt ákvæði kveður á um að stuðningurinn megi ekki 1) vera tengdur framtíðar framleiðsluáformum eða leiða 2) til aukinnar framleiðslu eða 3) stuðnings sem verður hærri en greiddur var viðkomandi fyrir aðildina. Almennt er talið að hægt verði að semja um hliðstætt ákvæði fyrir Ísland. Efni þess mun þó aðeins liggja fyrir í aðildarsamningi. Þessi stuðningur er alfarið fjármagnaður af finnska ríkinu í tilfelli Finnlands og kemur í staðinn fyrir hluta af fyrri stuðningi finnska ríkisins við finnskan landbúnað. Gera verður ráð fyrir að sama myndi eiga við um Ísland.


Innlendir framleiðendur myndu á móti eiga mjög á brattann að sækja í útflutningi. Ísland er ekki í vegasambandi við markaði í Evrópu og enginn grundvöllur er fyrir því að nota flutningsmáta sambærilegan þeim sem tíðkast á meginlandi Evrópu, til dæmis með bílum búnum kælibúnaði, við flutning á íslenskum afurðum til annarra ESB-landa. Flutningskostnaður á gámi til útflutningshafnar frá afurðastöð utan Suðvesturlands er álíka mikill og kostar að flytja gáminn þaðan til meginlands Evrópu. Útflutningur frá smáum afurðastöðvum alla leið til meginlands Evrópu er ekki samanburðarhæfur við innflutning til Íslands frá meginlandinu vegna þessa mikla flutningskostnaðar. Afurðastöðvar á meginlandi Evrópu eru yfirleitt margfalt stærri og sérhæfðari og samkeppnisstaða þeirra því allt önnur en íslenskra bænda. Þótt landið yrði í orði kveðnu hluti af innri markaði ESB við aðild yrði raunin önnur af augljósum landfræðilegum ástæðum. Lönd ESB eru mikilvægur markaður fyrir íslenskt lambakjöt. Árið 2010 voru 55% af útflutningsverðmæti lambakjöts vegna viðskipta við ESB lönd. Tollfrjáls aðgangur að ESB markaði myndi því einkum nýtast fyrir lambakjöt, að minnsta kosti ef aðstæður á þeim markaði haldast svipaðar og þær eru í dag. Samandregið má segja að innganga Íslands í ESB myndi leiða til samdráttar og tekjumissis í landbúnaði. Ekki aðeins myndi bændum fækka heldur einnig störfum tengdum úrvinnslu og þjónustu við landbúnað. Það hefði í för með sér að búseta í sveitum landsins og hefðbundin íslensk matvælaframleiðsla myndi veikjast og matvælaöryggi skerðast.
Hér má lesa svar Þrastar Haraldssonar við sömu spurningu. Við vekjum athygli á að þetta svar er í flokknum „umræðan“. Lesendum er hér með boðið að taka þátt í umræðunni annaðhvort með því að gera athugasemdir við svarið samkvæmt almennum reglum vefsetursins eða skrifa sjálfstæð svör sem við munum birta með ánægju ef þau fullnægja siðareglum okkar.Heimildir og myndir:
- Aðildarsamningur Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar að Evrópusambandinu frá 1994.
- Utanríkisráðuneytið, 2003: Íslenskur landbúnaður í alþjóðlegu umhverfi.
- Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2009: Bakgrunnsskýrsla: Íslensk bú í finnsku umhverfi.
- Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2010: Staða og horfur garðyrkjunnar: Ísland og Evrópusambandið.
- Framkvæmdastjórn ESB, 2011: Rýniskýrsla ESB um landbúnað.
- Fyrsta mynd sótt á: Ríki Vatnajökuls, 12.10.2011.
- Önnur mynd sótt: visir.is, 12.10.2011.
- Þriðja mynd sótt á: Hrafnkelsstaðir, 12.10.2011.
Yrðu íslenskir bændur betur settir ef Ísland gengi í ESB, ef svo, afhverju? Myndi samkeppni á afurðamarkaði aukast, myndi rekstrarkostnaður lækka? Til að taka þetta saman í eina spurningu, hvaða hag/óhag hefur Íslenskur landbúnaður af aðild að Evrópusambandinu?
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur14.10.2011
Efnisorð
ESB-aðild landbúnaður sameiginleg landbúnaðarstefna CAP dreifbýlisþróunarstefna Finnland mjólkurkvóti verðmiðlun niðurgreiðslur raforka búnaðarlagasamningur Framleiðnisjóður mótframlög flutningskostnaður
Tilvísun
Erna Bjarnadóttir. „Hvaða hag og óhag hefur íslenskur landbúnaður af aðild að Evrópusambandinu? [Umræðusvar A]“. Evrópuvefurinn 14.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60092. (Skoðað 12.2.2025).
Höfundur
Erna Bjarnadóttirhagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands