Spurning

Getið þið útskýrt styrkjakerfi ESB í stuttu máli?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Evrópusambandið styrkir allt á milli himins og jarðar – frá brúarsmíði til handverksnámskeiða. Styrkjasjóðir og -áætlanir sambandsins eru ótal margar og hefur landslaginu oft verið líkt við frumskóg þar sem varla er til sá einstaklingur sem hefur yfirsýn yfir alla þá möguleika sem í boði eru.

Styrktarsjóðum og -áætlunum Evrópusambandsins má skipta í fernt eftir því hvaða stefnu sambandsins þeim er ætlað að hrinda í framkvæmd. Í fyrsta flokkinn falla þeir sjóðir sem notaðir eru til að framkvæma sameiginlegu landbúnaðarstefnuna (e. Common Agricultural Policy). Frá árinu 2005 hafa sjóðirnir verið tveir, Ábyrgðarsjóður evrópsks landbúnaðar (e. European Agricultural Guarantee Fund, EAGF), sem fjármagnar beinar greiðslur til bænda og önnur markaðsinngrip, og Dreifbýlisþróunarsjóður evrópsks landbúnaðar (e. European Agricultural Fund for Rural Development, EAFRD), sem fjármagnar dreifbýlisþróunaráætlun aðildarríkjanna.


Frá heimsókn fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar, Dacian Cioloş, í belgískt kúabú sem selur ferska mjólk og osta.

Dreifbýlisþróunarsjóður landbúnaðarins á margt sameiginlegt með sjóðunum sem falla í flokk númer tvö í þessu yfirliti. Þetta eru svonefndir uppbyggingarsjóðir (e. Structural Funds) sem settir voru á stofn til að framkvæma byggðastefnu Evrópusambandsins (e. Regional Policy). Uppbyggingarsjóðunum, einkum Félagsmálasjóði Evrópu (e. European Social Fund, ESF) og Byggðaþróunarsjóði Evrópu (e. European Regional Development Fund, ERDF), er ætlað að styrkja grundvöll fjölbreyttrar atvinnustarfsemi í aðildarríkjunum, auka menntun og færni, efla samkeppnishæfni svæða og stuðla þannig að auknum hagvexti og lífsgæðum í aðildarríkjum ESB. Um þessa sjóði hefur áður verið fjallað í svari við spurningunni Myndi ESB veita styrki til jarðganga eða brúarsmíði hér ef til aðildar kæmi?

Þeir sjóðir sem hafa verið nefndir til þessa eiga það sameiginlegt að umsýsla með fjármuni þeirra er dreifstýrð, það er hún er ekki í höndum stofnana ESB heldur að mestu leyti á ábyrgð aðildarríkjanna sjálfra. Í upphafi hvers sjö ára fjárlagatímabils ESB er ákveðið hvernig því fé sem sjóðunum er úthlutað skuli skipt á milli aðildarríkjanna. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars um mótun markmiða og áætlanagerð, fá aðildarríkin vilyrði frá framkvæmdastjórninni fyrir tilteknum upphæðum sem þau munu hafa til ráðstöfunar undir merkjum sjóðanna á tímabilinu. Þannig er það í valdi hvers aðildarríkis að ákveða, í samræmi við leiðbeiningar ESB, hvaða verkefni hljóta styrk úr uppbyggingarsjóðunum og dreifbýlisþróunarsjóðinum. Um öll slík verkefni gildir að aðildarríkin þurfa að leggja til mótframlag. Ennfremur hafa aðildarríkin sjálfdæmi um fyrirkomulag úthlutana en aðeins litlum hluta fjármagnsins úr uppbyggingarsjóðunum er ráðstafað á þann hátt að auglýst sé eftir styrkumsóknum. Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin hafa sameiginlegt eftirlit með því að farið sé með féð eftir settum reglum.


Myndin gefur yfirlit yfir hið fjórþætta styrkjakerfi Evrópusambandsins. Athugið að listarnir eru ekki tæmandi. Smellið á myndina til að sjá stærra eintak.

Í þriðja flokkinn falla margs konar áætlanir (e. programs) sem aðildarríkin hafa komið á laggirnar til að framkvæma stefnur Evrópusambandsins á ýmsum sviðum. Til þeirra er hægt að sækja um styrki fyrir verkefni sem tengjast meðal annars menntun, menningu og listum, rannsóknum og vísindum, jafnréttismálum, vinnumálum og fyrirtækjasamstarfi. Á grundvelli EES-samningsins á Ísland nú þegar aðild að mörgum þessara áætlana.

Það er einkenni þessara áætlana - og það sem greinir þær frá styrkjasjóðunum sem fjallað var um hér að ofan - að umsýslu þeirra er að miklu leyti miðstýrt frá Brussel en það er þó ekki algilt. Í þeim tilvikum eru styrkumsóknir frá öllum aðildarríkjum sendar á einn stað þar sem þær eru afgreiddar og ákvörðun tekin um veitingu styrks. Í þeim löndum sem eiga aðild að áætlununum eru starfræktar svonefndar landsskrifstofur eða upplýsingaskrifstofur þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um markmið áætlananna, skilyrði úthlutana, umsóknarfresti og fleira. Á vefsíðunni Evrópusamvinna er hægt að nálgast upplýsingar um þær áætlanir sem Íslendingar taka þátt í.


Þátttakendur á námskeiði um konur og lífsmynstur eftir fimmtugt. Námskeiðið hlaut styrk úr Grundtvig áætlun Evrópusambandsins og fór fram í Weimar í Þýskalandi í október 2010.

Annað einkenni þessara áætlana er að þær eru það sem kallast samstarfsáætlanir. Tilgangur þeirra er að stuðla að samvinnu þvert á landamæri aðildarríkja sambandsins. Dæmigerðar tegundir styrkja, sem veittar eru á grundvelli þessara áætlana, eru heimsóknarstyrkir og samvinnuverkefnastyrkir. Heimsóknastyrkjum er ætlað að gefa einstaklingum eða hópum tækifæri til að ferðast til annars lands til að fræðast, fræða aðra, eiga skoðanaskipti eða hvaðeina. Markmið samvinnuverkefna er hins vegar að efla samstarf aðila frá ólíkum ríkjum - oft er gerð krafa um lágmarksfjölda þátttökuríkja - hvort sem er til að skipuleggja listahátíð eða gera fjölþjóðlega vísindarannsókn. Hver og ein áætlun hefur sínar áherslur, markmið og úthlutunarskilyrði, sem gilda jafnt í öllum aðildarríkjum áætlananna.

Dæmigerð áætlun er þannig uppbyggð að hún greinist í nokkrar undiráætlanir. Ef dæmi er tekið af Menntaáætlun ESB þá greinist hún í undiráætlanirnar Comenius (leik-, grunn-, og framhaldsskólamenntun), Erasmus (háskólastigið), Grundtvig (fullorðinsfræðsla og aðrar menntunarleiðir) og Leonardo (starfsmenntun og þjálfun). Hver þessara undiráætlana getur styrkt ólíkar tegundir verkefna. Til að mynda styrkir Erasmus-áætlunin bæði stúdentaskipti, starfsmannaskipti og samstarfsverkefni af ýmsu tagi.

Í fjórða og síðasta flokkinn falla þær áætlanir sem ætlað er að framkvæma þætti í utanríkisstefnu sambandsins. Á meðal slíkra áætlana er IPA-áætlunin (e. Instrument for Pre-Accession Assistance) sem Íslendingar hafa nýlega hlotið styrki úr. Nánar má lesa um IPA-áætlunina í svari við spurningunni Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert? Áætlanirnar í þessum flokki eru allmargar og hafa ýmist að markmiði að veita ákveðnum ríkjum eða ríkjahópum sérstakan stuðning eða að stuðla að útbreiðslu tiltekinna gilda eða gæða sem Evrópusambandið stendur fyrir, svo sem lýðræði og mannréttindi.

Af þessu yfirliti má glöggt sjá að styrkjakerfi Evrópusambandsins er afar umfangsmikið. Þó hefur fyrst og fremst verið gerð grein fyrir uppbyggingu þess en ekki nema broti af möguleikunum sem í boði eru. Það er vísbending um hve flókið kerfið er að í sumum aðildarríkjum ESB hefur orðið til ný starfsstétt sem kallast „EU-Fundraiser“, á íslensku mætti útleggja það sem ESB-styrkjasafnari. Þeir eru iðulega sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa það að atvinnu að skrifa umsóknir um styrki, einkum úr ákveðnum áætlununum í þriðja flokki. Þykir mörgum þetta vera óheillavænleg þróun þar sem hún rýrir möguleika einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja sem hafa ekki efni á að borga fyrir þjónustu „atvinnustyrkjasafnara“ til að fá styrkumsóknir sínar samþykktar. Gagnrýni á þessu nýju starfstétt hefur ekki síst komið frá fulltrúum Evrópusambandsins en styrkjasafnararnir hafa bent á það á móti að sambandið beri sjálft ábyrgð á því að hafa gert styrkumsóknaskrif að hálfgerðum vísindum með þeim kröfum sem gerðar eru til umsækjenda.

Myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela